Húsameistari ríkisins

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 10:57:00 (4768)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn sem nú situr er mikill aðdáandi einkavæðingar þótt enn beri lítt á efndum þeirra áforma sem boðuð hafa verið. Það er vissulega brýn spurning hvert hlutverk ríkisvaldsins eigi að vera og hvaða þjónustu ríkið eigi að veita. Þá er engu síður mikilvægt að velta því fyrir sér hvaða þjónustu ríkið eigi að kaupa af öðrum og hvenær hagkvæmara sé að ríkið sjálft hafi á sínum snærum þjónustu til að sinna t.d. viðhaldi bygginga, ræstingum og öðru daglegu starfi.
    Eftir að Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 tóku þeir í sínar hendur margs konar þjónustu sem Danir höfðu áður veitt. Menn litu svo á að þar væri um að ræða starfsemi sem aðrir en ríkið gætu tæplega staðið undir vegna kostnaðar og skorts á menntuðu fólki og reyndar höfðu menn eins og sá mikli áhrifavaldur, Jónas frá Hriflu, þær hugmyndir að áhrif ríkisvaldsins ættu að vera harla mikil.
    Árið 1920 var fyrst skipað í embætti húsameistara ríkisins enda var þá kominn til sögunnar fyrsti fullnuma arkitektinn, Guðjón Samúelsson. Embætti húsameistara ríkisins hefur um áratuga skeið hannað opinberar byggingar og sinnt ýmiss konar viðhaldsverkefnum fyrir hið opinbera þrátt fyrir að stofnaður hafi verið fjöldi arkitektastofa og verkfræðistofa sem fullfærar eru um slík verkefni. Því vaknar sú spurning hvort embætti húsameistara ríkisins sé ekki einfaldlega tímaskekkja og hvort ekki væri nær að bjóða út öll verk sem snerta byggingastarfsemi á vegum ríkisins, þ.e. hönnun fyrst og fremst. Ég hef ekki séð neina úttekt á starfsemi húsameistara ríkisins en nýleg dæmi um flugstöðina í Keflavík, Listasafn Íslands og endurbyggingu Þjóðleikhússins vekja upp spurningar um það hvort starfsmenn þessarar ríkisstofnunar leiti alltaf hagkvæmustu og ódýrustu leiða. Ég efast um það og er þá vægt til orða tekið.
    Ég vil ekki liggja á þeirri skoðun minni að það beri að leggja þessa stofnun niður í núverandi

mynd og þörf sé á endurskipulagningu þess starfs sem þar er unnið og hugað að samvinnu við aðrar skyldar stofnanir á vegum ríkisins. Hér er um að ræða svið sem að mínum dómi á ekki að vera á verkefnasviði ríkisvaldsins og þá er ég fyrst og fremst að tala um hönnunina sem aðrir geta vel tekið að sér. Ég spyr því hæstv. forsrh.:
  ,,1. Er það mat forsrh. að hagkvæmara sé fyrir ríkið að reka eigin teiknistofu en að bjóða út hönnun nýbygginga og viðgerðir á vegum hins opinbera?
    2. Áformar ríkisstjórnin að breyta eða leggja niður embætti húsameistara ríkisins?``