Húsameistari ríkisins

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:00:00 (4769)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. hefur lagt fram svohljóðandi spurningu: ,,Er það mat forsrh. að hagkvæmara sé fyrir ríkið að reka eigin teiknistofu en bjóða út hönnun nýbygginga og viðgerðir á vegum hins opinbera?``
    Ég vil svara þessu með eftirfarandi hætti: Í hvítbók ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, er greint frá því að ríkisstjórnin muni vinna að undirbúningi breytinga á embætti húsameistara ríkisins og að ákveðnir þættir þess verði sameinaðir Innkaupastofnun ríkisins (framkvæmdadeild), og Fasteignum ríkisins. Þar kemur einnig fram að ákveðnir þættir sem heyrt hafa undir þessi embætti verði í framtíðinni boðnir út á almennum markaði.
    Í forsrn. er nú unnið að tillögugerð um framtíðarhlutverk og starfsemi embættis húsameistara ríkisins. Má vænta þess að þær tillögur verði lagðar fram og kynntar í ríkisstjórninni á næstunni. Þar er um að ræða útfærðar tillögur er miða að því að embættið hætti hönnun og verði ekki sjálft í samkeppni við teiknistofur á almennum markaði. Verkefni húsameistara verði í framtíðinni fremur að undirbúa verk í hendur annars vegar þeirra sem taka ákvarðanir og hins vegar í hendur þeirra sem eiga að hanna og annast um framkvæmdir. Hlutverkaskiptingin milli stofnananna sem ég nefndi yrði þá væntanlega sú að húsameistari færi í umboði forsrh. með yfirstjórn á húsakosti æðstu stjórnsýslu ríkisins en framkvæmd að lokinni stefnumörkun og hönnun yrði síðan á vegum stofnana fjmrn. Samkvæmt framansögðu er að því stefnt að húsameistari verði ekki með teiknistofu í samkeppni við arkitekta og embætti hans hætti hönnunarvinnu og meginreglan verði sú að hönnun nýbygginga og viðgerðir á vegum hins opinbera verði boðnar út.
    Síðari spurningin er svohljóðandi: ,,Áformar ríkisstjórnin að breyta eða leggja niður embætti húsameistara ríkisins?`` Eins og fram kom í svari mínu við fyrri spurningunni er gert ráð fyrir breyttu hlutverki embættis húsameistara og hætt verði þeirri starfsemi á vegum embættis hans er lýtur að hönnunarvinnu. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir umsvifaminna embætti er fá muni hlutverk í sambandi við yfirumsjón húsnæðis æðstu stjórnar ríkisins, þ.e. eigendaforræði og ákveðnari tök er lúta t.d. að gerð áætlana um viðgerðir, nýtingu húsnæðis, forgangsröðun verkefna, hönnunarsamninga og fleiri slík verkefni. Nánar verður unnt að greina frá þessari tilhögun þegar útfærðar tillögur liggja fyrir og ætti það að verða alveg á næstunni.