Húsameistari ríkisins

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:04:00 (4771)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og ég fagna því að verið er að vinna að þessu þarfa máli. En ég vil benda á að þegar við horfum á byggingar ríkisins í heild og þær nýbyggingar sem þarf að hanna og viðhalda, þá koma þar miklu fleiri að en húsameistari ríkisins og Innkaupastofnun sem hér var getið um. Ég vil nefna byggingardeild menntmrn., skipulagsstjóra ríkisins, Fasteignir ríkisins og tæknideild Húsnæðisstofnunar sem eru að vinna að svipuðum verkefnum. Það vakna spurningar t.d. varðandi tæknideild Húsnæðisstofnunar, sem vinnur að hönnun og er í samkeppni við stofur úti í bæ, hvort ekki sé ástæða til að huga að aukinni samvinnu og jafnvel sameiningu allra þessara stofnana. Ég held að þannig gæti náðst mikill sparnaður og hagræðing og menn þurfa þá að skilgreina það hvert hlutverk ríkisins er á þessu sviði.
    Ég vil geta þess að Arkitektafélag Íslands hefur ályktað varðandi þessi mál, síðast í fyrra, þar sem lagt var til að embætti húsameistara ríkisins verði lagt niður í núverandi mynd og að því embætti verði fyrst og fremst falið að annast rannsóknir, samræmingu, áætlanagerð og skipulagningu. En ég ítreka að ég held að þarna séu í rauninni margir að koma að sama verkinu og þetta mál þurfi að skoða í víðara samhengi í ríkiskerfinu.