Húsameistari ríkisins

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:07:00 (4773)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í framhaldi af fyrri fsp. minni vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. forsrh.:
  ,,1. Hversu mörgum verkefnum sinnti embætti húsameistara ríkisins árin 1990 og 1991:
    a. við hönnun nýbygginga,
    b. viðhaldsverkefnum?
    2. Hvernig stóðust þær verk- og kostnaðaráætlanir sem gerðar voru um þau verkefni sem unnin voru?
    3. Sinnti embætti húsameistara ríkisins verkefnum fyrir aðra en opinbera aðila árið 1990 og 1991? Ef svo var, hvaða verkefni var um að ræða?``
    Þessar spurningar þarfnast ekki frekari skýringa. Ég er að reyna að fá það fram hvert verksvið stofnunarinnar er og hversu mörgum verkefnum hún sinnir. Það kom fram í frv. til fjárlaga varðandi embætti húsameistara ríkisins að þar er gert ráð fyrir allmikilli hækkun á launakostnaði. Það er vegna verkefnaráðinna starfsmanna á álagstímum. Svo virðist sem mikil verkefni séu fram undan í þessari stofnun. Ég spurði reyndar ekki um verkefni þessa árs en það má bæta úr því síðar.