Húsameistari ríkisins

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:09:00 (4774)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. spyr: Hversu mörgum verkefnum sinnti embætti húsameistara ríkisins árin 1990 og 1991: a) við hönnun nýbygginga, b) viðhaldsverkefnum?
    Á árinu 1990 sinnti embætti húsameistara ríkisins átta verkefnum við hönnun nýbygginga og 70 verkefnum við viðhald eldri bygginga. Á árinu 1991 voru hliðstæðar tölur vegna nýbygginga sex og vegna viðhalds 68. Í mjög mörgum tilfellum er um sömu byggingar að ræða bæði árin.
    Önnur spurning er svohljóðandi: ,,Hvernig stóðust þær verk- og kostnaðaráætlanir sem gerðar voru um þau verkefni sem unnin voru?``
    Kostnaðaráætlanir miða ávallt við þær forsendur sem fyrir liggja þegar þær eru gerðar. Það getur síðan farið eftir ýmsu hve áreiðanlegar forsendurnar eru. Mikilvægt er að húseigandinn eða fulltrúi hans, t.d. byggingarnefnd, skilgreini forsendur áður en kostnaðaráætlun er gerð. Þegar kostnaðaráætlanir standast ekki má oft rekja það til þess að forsendur í upphafi verksins hafa ekki verið rétt metnar. Einnig kemur oft fyrir að húseigandinn breytti um stefnu, þ.e. ekki hefur verið lögð næg vinna í undirbúning og forhönnun.
    Hönnunarferlinu er oft skipt í þrjár meginlotur:
    1. Undirbúning sem almennt gerir kostnaðaráætlun með 30--50% skekkjumörkun mögulega.
    2. Forhönnun sem almennt gerir kostnaðaráætlun með 20--25% skekkjumörkum mögulega.
    3. Verkhönnun. Á því stigi á að vera mögulegt að gera kostnaðaráætlun með 10--15% skekkjumörkum.
    Ef forsendur breytast á einhverjum þessara stiga breytist kostnaðaráætlun að sjálfsögðu einnig. Samkvæmt upplýsingum frá embætti húsameistara ríkisins stóðust allar kostnaðaráætlanir innan marka þeirra skilgreininga sem settar voru fram hér að framan árin 1990 og 1991.
    Þegar um minni viðhaldsverkefni er að ræða gengur embætti húsameistara iðulega frá kostnaðaráætlunum án aðstoðar annarra ráðgjafa. Þegar unnið er að nýbyggingum eða byggingum eldri húsa og embættið sinnir starfi arkitekts og vinnur ásamt ýmsum öðrum að hönnun verkefnisins er að öðru jöfnu aðeins kostnaðarþáttur arkitekts af hendi embættisins. Slíkar áætlanir eru unnar í sameiningu af hönnunarhópnum.
    Kostnaðaráætlun vegna framkvæmda við breytingar á Þjóðleikhúsinu falla undir þennan síðasta flokk. Embætti húsameistara ríkisins átti þar af leiðandi aðeins óverulega hlutdeild í framsetningu þeirrar áætlunar.
    Að því er varðar aðrar kostnaðaráætlanir árin 1990 og 1991 sem embætti húsameistara hefur átt verulega aðild að er ekki annað vitað á þessari stundu en þær hafi staðist í öllum meginatriðum.
    Þriðja spurning er svohljóðandi: ,,Sinnti embætti húsameistara ríkisins verkefnum fyrir aðra en opinbera aðila árin 1990 og 1991? Ef svo var, hvaða verkefni var um að ræða?``
    Árin 1990 og 1991 sinnti embætti húsameistara ríkisins nánast eingöngu verkefnum fyrir opinbera aðila, þ.e. æðstu stjórn, ráðuneyti og stofnanir íslenska ríkisins. Af gamalli hefð hefur embættið einnig sinnt verkefnum fyrir ýmsar safnaðarnefndir, kirkjubyggingar og safnaðarheimili. Á þessum árum var þannig unnið að verkefnum fyrir Hallgrímskirkju, Laugarneskirkju og Reykholtskirkju.