Skipulag á hálendi Íslands

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:33:00 (4785)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. svörin og lýsa ánægju minni með að á málinu sé tekið og það sé komið svo langt að við fáum frv. fljótlega til skoðunar í þinginu. Og vonandi er það með þeim hætti að við getum sameinast um að afgreiða það fljótt og vel því að það er mjög nauðsynlegt að taka á skipulagi hálendisins eins og ég sagði áðan. Ég hef engar áhyggjur af miðstýrðri forsjárhyggju. Mér finnst að þau sjónarmið komi helst fram hjá þeim sem vilja gera nánast það sem þeim sýnist á hálendinu og halda að það sé til frjálsra afnota fyrir nánast hvað sem er. En við verðum að stilla okkur hinum megin líka, við verðum að hugsa um náttúruna, við verðum að hugsa um það að ekki er hægt að vaða yfir landið eins og hverjum sýnist. Ég hef því ekki áhyggjur af því að það verði of strangt á þessum málum tekið þótt auðvitað séum við ekki búin að sjá frv.
    Ég er þeirrar skoðunar að allar þær byggingar sem eru á hálendinu núna og byggðar eru í óleyfi eigi að fjarlægja og það eigi að takmarka byggingar um hálendið, jafnvel þótt þær séu dreifðar og erfitt sé að finna sumar þeirra. Þeir sem eru að leita að skálum eru jú að leita að skálum sem eru opnir öllum til afnota. Mér finnst að það eigi að vera skilyrði til þess að veitt sé leyfi að allir geti farið í þessa skála því auðvitað er það ákveðið öryggi fyrir þá sem eru að ferðast um hálendið að geta komist í hús. En flestir þeirra skála sem eru í einkaeign eru lokaðir þannig að þeir veita ekkert öryggi þeim sem eru á ferðalagi.
    Ég vil líka benda á og tel það raunar mjög nauðsynlegt að ákveðin svæði á landinu sé tekin frá og engar byggingar leyfðar þar, engir vegir gerðir eða nein mannvirki. Það sé bannað að fara inn á þau svæði með nokkurt vélknúið ökutæki, hvort sem það eru snjósleðar eða annað. Ég tel mjög mikilvægt að tekið sé á þessum málum. Ef við ætlum ekki hafa neitt svæði á landinu sem er algjörlega friðað, búið að gera vegi og byggja hús alls staðar, á hinn fótgangandi ferðamaður, sem vill njóta náttúrunnar einn og í friði, sér hvergi griðland á landinu okkar. Bandaríkjamenn hafa t.d. farið út í að taka frá slík svæði og hefur reynst mjög vel þar sem menn fá að fara og vera í friði.
    En ég vil aftur lýsa ánægju minni með að það sé á þessum málum tekið og vonandi fáum við fljótt að sjá frv. frá hæstv. umhvrh.