Héraðsskólinn í Reykjanesi

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:49:00 (4790)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Þetta mál ætlar að verða hv. þm. notadrjúgt og efni í umræður í þinginu hvað eftir annað. Ég er honum ósammála að það hafi ekki verið lagalegur grundvöllur fyrir þeirri ákvörðun að leggja niður skólahald við Héraðsskólann í Reykjanesi á síðasta hausti. Ákvörðunin byggðist auðvitað á þeirri einföldu staðreynd að það voru ekki nægilega margir nemendur, að mati ráðuneytisins vel að merkja, til þess að skólahald yrði með þeim hætti sem áður hafði verið.
    Ég er líka ósammála því sjónarmiði sem komið hefur fram bæði hjá honum og fleirum að óheimilt sé að víkja frá fjárlögum sem veita heimildir til ákveðinna ráðstafana á fjármunum. Auðvitað er þetta bara heimild og ef ekki eru rekstrarlegar forsendur fyrir því að reka stofnun eins og skóla þá er ekkert sem segir að ráðherra verði að eyða þeim fjármunum sem fjárlög hafa ákveðið. (Forseti hringir.)
    Aðeins örfá orð um hvort starfsemin hefjist í haust. Það er starfandi nefnd núna, eins og kom hér fram hjá hv. þm., sem á að gera tillögur um framtíðarnýtingu mannvirkja á staðnum. Ef tillaga kemur frá þeirri nefnd um að skólahald hefjist að nýju og það verður nægilegur fjöldi nemenda verður það tekið til sérstakrar athugunar en það er ekki fjárveiting fyrir því núna.