Framlag sveitarfélaga til félagslegra íbúða

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:17:00 (4803)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla þeim orðum hæstv. félmrh. að þessi tillaga hafi verið í samræmi við vilja sveitarfélaganna eða í samráði við sveitarfélögin. Ég minnist þess að þegar fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga komu á fund efh.- og viðskn. fyrir jól, þegar verið var að ræða bandorminn, vísuðu þeir ábyrgð á hendur ríkisstjórninni um allar þær tillögur sem voru til umræðu og snertu sveitarfélögin vegna þess að þar var um margfaldar álögur á sveitarfélögin að ræða.
    Hvað varðar þessa tillögu sérstaklega get ég í sjálfu sér tekið undir að sveitarfélögin eigi að koma inn í byggingu félagslegra íbúða. Það er auðvitað spurning hvort það er þeirra hlutverk að greiða til byggingar sem er á vegum annarra aðila en það varð niðurstaðan í þeirri tillögu sem samþykkt var. En mergurinn málsins er auðvitað sá að verið var að leggja auknar álögur á sveitarfélögin og nú kemur það í ljós að sum þeirra eiga mjög erfitt með að standa undir þeim.