Umhverfisfræðsla

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:30:00 (4809)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvernig ríkisstjórnin hafi staðið að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 20. des. 1988, um að auka og samræma fræðslu um umhverfismál í skólum og fyrir almenning. Svar mitt er svohljóðandi:
    Gefin var út ný aðalnámsskrá grunnskóla 1989 þar sem sérstaklega er fjallað um umhverfismennt. Ráðinn var námsstjóri í fullt starf í tvö ár við grunnskóladeild menntmrn. með umhverfismennt í skólum sem aðalverkefni. Hann hóf störf í ágúst 1990 og starfi hans lýkur í ágúst nk.
    Varðandi fræðslu um umhverfismál fyrir almenning skal upplýst að um það leyti sem umhvrn. var stofnað varð samkomulag um þau meginverkaskipti að menntmrn. færi með umhverfismenntun í opinberum skólum en umhvrn. færi með umhverfisfræðslu fyrir almenning á öðrum vettvangi en ráðuneytin hefðu með sér samstarf þar eftir því sem henta þætti. Sú hefur orðið raunin, einkum við undirbúning ráðstefnunnar Miljö '91 og við samningu skýrslu Íslands til Sameinuðu þjóðanna vegna umhverfisráðstefnunnar í Ríó nú í sumar en þar er m.a. fjallað um umhverfismenntun á Íslandi.
    Ráðstefnan Miljö '91 var haldin vorið 1991 og hófst undirbúningur þegar árið 1989. Ráðstefnuna sóttu um 1.000 manns, þar á meðal um 700 norrænir gestir. Ráðstefnan var í raun risavaxið kennaranámskeið sem stóð í fulla þrjá daga auk sýninga sem opnar voru lengur. Tilgangurinn var að efla umhverfisfræðslu á Norðurlöndum og þá ekki síst á Íslandi. Það var gert með því að vekja athygli á málefninu, skipuleggja umræður og draga fram í dagsljósið sem flest af því sem vel er gert á þessu sviði. Höfðað var til stjórnenda, fagfólks --- ekki síst kennara á öllum skólastigum, áhugafólks og almennings.
    Vorið 1990 var gerð könnun á umhverfismennt á dagheimilum, í grunnskólum og framhaldsskólum. Könnunin var liður í undirbúningi ráðstefnunnar og unnin af verkefnisstjóra hennar. Þannig fékkst góð vísbending um það sem þá var verið að gera um land allt á mismunandi aldursstigum. M.a. kom fram að í meira en 75% skóla og dagheimila kanna nemendur náttúrulegt umhverfi nálægt skólanum einu sinni á ári eða oftar. Flest börn á dagheimilum og í grunnskólum taka þátt í að hreinsa og fegra umhverfi skólans en það er hins vegar fátíðara í framhaldsskólum. Á þriðjungi dagheimila og í helmingi grunnskóla gróðursetja börn tré og sinna gróðurvernd en það á hins vegar aðeins við um fjórðung framhaldsskóla ef marka má könnunina. Skýrslu um könnunina var dreift til skóla, bókasafna og víðar en frumgögnin eru geymd í menntmrn.
    Hjá Námsgagnastofnun er unnið að útgáfu á margs konar námsefni svo sem námsbókum, verkefnablöðum og myndböndum sem henta fyrir umhverfisfræðslu í grunnskóla. Mörg þróunarverkefni í grunnskólum og leikskólum eru á sviði umhverfisfræðslu og hafa þó nokkur þeirra fengið styrki frá Þróunarsjóði grunnskóla eða öðrum aðilum. Þess má geta að við Garðyrkjuskóla ríkisins, sem að vísu heyrir undir landbrn., var stofnsett sérstök umhverfisbraut árið 1989. Hafið er nýtt norrænt samstarfsverkefni, umhverfismennt á tíunda áratugnum, og taka þar átta skólar þátt fyrir Íslands hönd og á verkefnið að standa yfir í a.m.k. þrjú ár. Leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum er boðið til samvinnu og keppni um að móta heppilegar og árangursríkar aðferðir í umhverfismennt og jafnframt er þeim boðið upp á endurmenntun og ráðgjöf í því skyni. Markmiðið er það sama og áður, nefnilega að útbreiða og bæta umhverfismennt. Þó er ætlunin að huga meira að samhengi umhverfisvandamála og að fegurð og siðrænum verðmætum. Enn fremur er stefnt að því, með hjálp fjölmiðla, að verkefnið og árangur þess hafi sem mest áhrif á umhverfisvitund almennings.