Umhverfisfræðsla

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:37:00 (4812)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin. Ég verð að lýsa ánægju minni með að það skuli hafa verið tekið myndarlega á þessum málum varðandi skólana og ráðinn námsstjóri til tveggja ára. Ég hnaut líka um það að ráðningu hans lyki í ágúst 1992. Ég vona að það þýði ekki að hætt verði að hafa námsstjóra í umhverfisfræðslu. Ég vona að annaðhvort verði þessi maður ráðinn áfram eða þá annar settur í hans stað ef það er meiningin. En mér sýnist að þarna hafi verið myndarlega tekið á þannig að fyllsta ástæða sé til að ráða þennan námsstjóra áfram ef hann vill taka það að sér. Ekki veit ég hver hann er en það er nú annað mál.
    Auðvitað er mikilvægt að efla og auka umhverfisfræðsluna í skólum og þá er auðvitað best að byrja sem fyrst. Það er mjög gott að það skuli hafa verið gert líka í leikskólanum eða á forskólastiginu, ekki bara í grunnskólanum og þyrfti auðvitað að halda því áfram upp í framhaldsskólana.
    Ég tel það mjög mikilvægt að í framhaldi af þessu sem gert hefur verið í menntmrn. hafi menntmrn. frumkvæði að því, í samvinnu við umhvrn., að efld verði fræðsla fyrir almenning, eins og tekið er fram í þál., í samvinnu við opinbera aðila, fjölmiðla og félagasamtök. Ég held að það sé mjög mikilvægt að virkja fjölmiðlana vel í þessu sambandi og ég efast ekki um að það væri mjög auðvelt að fá þá til liðs við umhvrn., menntmrn. og aðra aðila svo sem félagasamtök því að félagasamtökin eru yfirleitt tilbúin til að vinna að svona verkefnum og þeirra starf í þessu sambandi er ómetanlegt.
    Hér var minnst á Miljö '91 sem var fjölmenn ráðstefna en hún hefði getað orðið miklu fjölmennari því það komust miklu færri að en vildu. Ég var ein þeirra sem ekki fékk að mæta vegna þess að ráðstefnan var fullskipuð. Allt of margir sem vildu fengu ekki enda verður kannski einhvers staðar að setja mörkin því að annars færi hálf þjóðin á ráðstefnu um þessi mál. Þetta sýnir kannski áhuga fólks, það vill virkilega gera eitthvað í þessum málum.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt núna, þar sem ráðstefnan margumtalaða í Ríó verður í sumar, að við notum tækifærið og leggjum áherslu á umhverfisvernd því að þannig geta slíkar ráðstefnur komið að gagni. Þær koma kannski sjálfar að takmörkuðu gagni en það er ekki síst það að nota þá bylgju sem hægt er að koma af stað varðandi umhverfisvernd í sambandi við slíka viðburði.