Norræna ráðherranefndin 1991--1992

111. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 14:47:00 (4819)

     Kristín Einarsdóttir :

    Virðulegur forseti. Umræða um norrænt samstarf hefur ekki tekið mikið rúm í þingsölum og almennt í þjóðfélaginu hefur heldur ekki verið mikið rætt um norræna samvinnu. Það eru mér viss vonbrigði að ekki skuli fleiri þingmenn vera hér og hlusta á þær umræður sem hafa farið fram og munu fara fram. Að mínu áliti er Norðurlandasamstarfið mjög mikilvægt. Kannski líta menn á Norðurlandasamstarfið sem sjálfsagðan hlut en ég held að allir telji það mjög æskilegt og telji mikilvægt að Norðurlönd hafi með sér samstarf á ýmsum sviðum. Íslendingar hafa lagt mikið upp úr þessu samstarfi og telja það, vil ég fullyrða, mjög jákvætt og hafi gefið okkur mikið. Þjóðfélagsgerð á Norðurlöndum er mjög svipuð og þar hefur hingað til verið lögð áhersla á félagsleg réttindi og samhjálp. Að vísu eru blikur á lofti í þeim efnum hér á landi en vonandi verður ekki framhald á þeirri stefnu, en þetta eru þó þau atriði sem við höfum lagt áherslu á hingað til og reyndar öll Norðurlönd.
    Norðurlönd hafa einnig haft mjög jákvæða ímynd út á við sem málsvarar friðar og mannréttinda. Þannig hafa þau oftar en ekki komið fram sem sterk pólitísk heild og haft þannig meiri áhrif og get ég í því sambandi nefnt t.d. samstarf hjá Sameinuðu þjóðunum og víðar þar sem Norðurlöndin hafa haft með sér samráð og þannig haft meiri áhrif. Hæstv. umhvrh., samstarfsráðherra Norðurlanda, hefur gert grein fyrir ýmsu samstarfi ráðherra Norðurlanda og gert ágæta grein fyrir því í skýrslu sem hefur verið rædd og ætla ég ekki að gera hana frekar að umtalsefni nema það að ég tel að þar komi mjög vel fram hversu mikið samstarf Norðurlandaþjóðirnar hafi haft. Sérstaklega finnst mér það samstarf mjög mikilvægt á sviði menningarmála, umhverfismála og reyndar á flestum sviðum en þó vil ég nefna þetta sérstaklega.
    Ég verð að lýsa því að fyrir fulltrúa Kvennalistans í Norðurlandaráði eru þær breytingar, sem gerðar voru að umtalsefni af hv. síðasta ræðumanni, í þá átt að flokkahóparnir hafa miklu meira að segja innan Norðurlandaráðs en áður, ekki til bóta. Nú hafa landsdeildirnar minna að segja og þykir mér það vera afturför. En þessi breyting og sú mikla áhersla, sem nú er lögð á vægi flokkahópanna, kemur sér auðvitað illa fyrir fulltrúa Kvennalistans sem alla vega enn hefur ákveðið að standa utan við alla flokkahópa. Það kemur þannig út að sá fulltrúi kemur vart til greina í nokkrar trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs þar sem miðað er við að þeir séu fulltrúar ákveðinna flokkahópa.
    Það var nefnt áðan yfirþjóðlegt vald, sem ég veit ekki hvort við eigum að kalla svo, að flokkahóparnir hafi svo mikið að segja. Það getur vel verið að það sé rétt þó að mér þyki ekki alveg rétt að orða það svo að yfirþjóðlegu valdi hafi verið beitt þegar verið er að skipa í trúnaðarstöðu. En þó vil ég nefna að þegar á síðasta degi þingsins þurfti að skipa í kjörnefnd á vegum Íslandsdeildarinnar og Íslandsdeildin hafði tilnefnt þrjá fulltrúa sem kæmu allir til greina, einn fulltrúi frá Alþfl., einn fulltrúi frá Sjálfstfl. og einn fulltrúi frá Framsfl. Sá fulltrúi sem hafði verið í kjörnefndinni áður, fulltrúi Alþb., hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, hafði ekki gefið kost á sér í þessa kjörnefnd. Ég gaf hins vegar kost á mér og vildi gjarnan vera í henni en kom ekki til greina. Ég kem ekki til greina vegna þess að ég er ekki í neinum flokkahópi. Svo sé ég tillöguna þegar upp er staðið síðasta daginn og kom mér hún mjög á óvart vegna þess að tillagan var einmitt um þennan eina þingmann, Hjörleif Guttormsson, sem ekki vildi vera í kjörnefndinni. Ég fékk enga skýringu á þessu því að ég hafði samþykkt aðra og bauð mig sérstaklega fram, en gerði þetta kannski meira til stríðni til að leggja áherslu á að ég vildi gjarnan vera þarna og hvað mér þætti þetta vera óheppilegt fyrirkomulag. En það er sama. Ég sætti mig fyllilega við það því að þær reglur eru settar og verður maður sjálfsagt að gangast undir hvort sem maður er samþykkur þeim eða ekki þannig að í því tilviki urðu fulltrúar, væntanlega í forsætisnefnd, að sætta sig við að samþykkja fulltrúa frá Íslandsdeild sem Íslandsdeildin hafði ekki tilnefnt. Svona getur þetta snúist öðruvísi en við ætluðum. Það sama gerðist varðandi tilnefningu í Norræna menningarmálasjóðinn að við fengum ekki að ráða þar en auðvitað væri langbest að mínu mati að við fengjum að ráða þessu öllu saman sjálf.
    Ég hef, eins og ég sagði áðan, talið að norrænt samstarf væri mjög mikilvægt. Það væri mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga og mikilvægt fyrir Norðurlönd almennt. En það

eru blikur á lofti. Á 40. þinginu sem var haldið núna í Helsinki í Finnlandi var greinilegt að ríkisstjórnir allra landanna stefna beint inn í Evrópubandalagið. Hv. þm. Geir H. Haarde sagði að hann hefði engar áhyggjur af framtíð norræns samstarfs. Ég verð að segja að ég hef verulegar áhyggjur af framtíð norræns samstarfs því að ég held að við hljótum öll að gera okkur grein fyrir því að ef meiri hluti Norðurlandaþjóða fer inn í Evrópubandalagið þá hljóti norrænt samstarf að verða aðeins svipur hjá sjón. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að taka á málinu út frá þeirri staðreynd. Það er þó ekki alveg víst að sú verði raunin að öll Norðurlöndin verði aðilar að Evrópubandalaginu þó svo að ríkisstjórnirnar gjarnan vilji það. Það kom greinilega fram í Helsinki þegar forsætisráðherrarnir töluðu að þeir vilja fara inn í þetta samstarf og ég gat ekki annað heyrt á máli Gro Harlem Brundtland, sem hingað til hefur ekki viljað tala hreint út um málið, en að hún væri alveg ákveðin í hvert hún vildi stefna þó að því sé enn þá haldið fram að hún muni ekki gefa yfirlýsingu um það efni fyrr en 4. apríl á fundi Verkamannaflokksins sem halda á í Noregi.
    Esko Aho, forsætisráðherra Finnlands, hélt líka ræður þarna bæði í almennu umræðunni og eins tækifærisræður. Hann notaði alltaf tækifærið til að lýsa skoðunum sínum á ágæti aðildar að Evrópubandalaginu. Carl Bildt gerði það sömuleiðis. Eini forsætisráðherrann sem ekki taldi að við ættum að stefna að þessu var forsætisráðherra Íslands.
    Það sem vakti athygli mína í umræðum þeirra var að þeir ræddu ekki muninn á því Evrópubandalagi sem þeir væru að ganga í og því Evrópubandalagi sem hefur verið til hingað til. Því eins og allir vita hefur orðið veruleg breyting á Evrópubandalaginu, þ.e. ef Maastricht-samkomulag þess verður samþykkt. Því enn meiri völd verða flutt til yfirþjóðlegra stofnana frá þjóðþingunum, sameiginleg mynt, sameiginleg varnarmálastefna, utanríkismálastefna o.fl. gerir það að verkum að það Evrópubandalag sem ríkin eru að sækja um aðild að er allt annað en það Evrópubandalag sem hingað til hefur verið, þó það sé nú í því formi að ég telji enga möguleika á að Ísland geti nokkurn tímann orðið aðili að því fyrirbæri. Finnar hafa að vísu haldið því fram að þeir geti haft einhverja fyrirvara að því er varðar austurlandamæri sín, þ.e. samskiptin gagnvart fyrrv. Sovétríkjum eða fyrst og fremst Rússlandi núna. En það er væntanlega alveg borin von að þeir geti fengið fyrirvara um utanríkisstefnu og landbúnaðarstefnu sína eins og þeir hafa talað um. Finnar telja sig þannig geta fengið einhverja fyrirvara en flestir efast um að það geti orðið.
    Síðan er því haldið fram að ef þessi lönd, við skulum þá ekki reikna með að Ísland sé þar með, fari inn í Evrópubandalagið gæti norræn samvinna haldið áfram. Í Morgunblaðinu 4. mars birtist viðtal við Carl Bildt meðan á þingi Norðurlandaráðs stóð þar sem hann heldur því fram að Íslendingar geti ekki orðið fullir þátttakendur í norrænu samstarfi ef þeir standi utan við Evrópubandalagið. Þar er hann með furðulegar fullyrðingar og telur að Íslendingar muni þrátt fyrir það ekki einangrast heldur muni hin löndin sjá um hagsmuni okkar innan Evrópubandalagsins. Mér finnst sérkennilegt að hann haldi að Íslendingar sætti sig við að senda Svía, Finna og Dani með skilaboð inn á vettvang Evrópubandalagsins, en hann telur það greinilega. En þetta var ekki bara skoðun flestra sem tóku til máls á Norðurlandaráðsþinginu, þ.e. að við ættum að ganga í Evrópubandalagið, heldur einnig viðhorf þeirra sem lögðu fram tillögur á þinginu. Tillögur sem samstarfsráðherrar Norðurlandanna lögðu fram gerðu það jafnframt og í þeim er mestmegnis miðað við að Evrópska efnahagssvæðið verði að veruleika og að fleiri ríki en Danmörk gangi í Evrópubandalagið. Í tillögunum er alltaf gert ráð fyrir að Evrópskt efnahagssvæði sé sjálfstætt fyrirbæri. Mér finnst því óraunhæft að reikna með því að Evrópskt efnahagssvæði sé fyrirbæri sem eigi langa lífdaga fyrir höndum. Mér finnst einnig mjög óraunhæft að reikna með því að öll Norðurlöndin gangi í Evrópubandalagið. Ef svo yrði tel ég útilokað að Norðurlandaráð verði virkt og þar með búið allt sem heitir norræn samvinna. Auðvitað er hægt að hafa samráð sín á milli. Norðurlöndin geta haft samráð og þingmennirnir sem starfa á vegum Evrópubandalagsins, ef um það væri að ræða. En um Norðurlandasamvinnu í líkingu við það sem hefur verið er útilokað að reikna með. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þegar gengið er í Evrópubandalagið er búið að breyta áherslum mjög mikið.

Ísland hefur allt aðra áherslu gagnvart Evrópubandalaginu en t.d. Svíþjóð sem er iðnríki en ekki ríki sem byggir á náttúruauðlind og sjávarútvegi eins og við. Ég get því ekki séð hvernig í ósköpunum menn hugsa sér að norræn samvinna yrði innan Evrópubandalagsins þótt öll Norðurlöndin væru í því. Í því sambandi má minna á að samvinna Benelúx-landanna innan Evrópubandalagsins er á mjög takmörkuðum sviðum og þeim er gert mjög erfitt fyrir í að hafa samvinnu sín á milli og koma síðan sameinuð til Evrópubandalagsins. Það er mjög illa séð þegar ríki innan EB hafa samstarf sín á milli og koma síðan sameinuð til Evrópubandalagsins. Það er með öllum hætti reynt að koma í veg fyrir það. Auðvitað er hægt að hafa samráð og EB breytir því ekki en ekki hið formlega samstarf sem Norðurlandaráð hefur verið fyrir Norðurlandaþjóðirnar. Ég tel að Evrópubandalagið samþykki ekki neinn formlegan samstarfsvettvang eða sameiginlega blokk. En auðvitað getur enginn bannað okkur að hafa samráð við hvern sem er, hvort heldur Norðurlöndin eða einhverja aðra. Allt annað væri óeðlilegt. Formlegt samstarf er því bara blekking. Við verðum þannig að horfast í augu við það að norrænt samstarf verður ekki nema svipur hjá sjón ef öll eða flest Norðurlandanna ganga í Evrópubandalagið.
    Það sem einnig vakti athygli mína á síðasta þingi var að varla nokkur maður minntist á Evrópskt efnahagssvæði nema stöku Íslendingur. Það var alger undantekning ef einhver annar minntist á það. Flestallir voru uppteknir af Evrópubandalaginu og að Evrópskt efnahagssvæði væri eingöngu stökkpallur inn í Evrópubandalagið. Ég endurtek að það var mál manna, sérstaklega utan ræðustóls, að enginn liti á Evrópskt efnahagssvæði sem sjálfstætt fyrirbæri, það gæti aldrei orðið annað en tímabundið og væri hvorki varanleg lausn né góð. Öllum ætti því að vera ljóst að EES er ekkert annað en stórt skref inn í Evrópubandalagið og þeir sem fara þangað inn verða ekkert stöðvaðir á leiðinni inn í EB.
    Á lokadegi þingsins voru tillögur um framtíð norræns samstarfs til umræðu og afgreiðslu. Efnahagsnefnd þingsins hafði haft til meðferðar allar þær tillögur sem lágu fyrir og lagði ákveðna tillögu fyrir ráðið. Á síðasta degi þingsins voru greidd atkvæði um hana. Tillagan gekk að mestu út á aðlögun að EB og miðaði að því að EB væri leiðandi að því er varðaði norrænt samstarf. Ég get tekið dæmi, lauslega þýtt, að byggja norrænt samstarf í kringum frelsin fjögur, með það að markmiði að Norðurlönd verði án landamæra innan EES-rammans og seinna EB-aðildar fyrir öll eða flest Norðurlönd. Það liggur í eðli aðlögunar eða ,,integrasjonens natur`` --- ég átti frekar erfitt með að þýða það --- að norræn einkenni á vissum sviðum þurfi aðlögunar og þróunar við eftir því sem aðlögunin heldur áfram. Svo virtist sem norræn einkenni ættu fyrst og fremst að miða að því. Fleira í tillögunni um samfélagsþróun á Norðurlöndum átti að miða að því að ákvarðanir yrðu teknar á vettvangi Evrópubandalagsins. Þess vegna gat ég ekki stutt tillöguna og greiddi atkvæði gegn henni. Ég studdi hins vegar tillögu frá fulltrúum sósíaldemókrata í nefndinni en þeir lögðu áherslu á að afla fylgis við norræna samfélagsgerð í víðara evrópsku samhengi, m.a. á mikilvægum sviðum svo sem vinnumarkaðspólitík sem miðaði að fullri atvinnu, jafnrétti milli kynja, umhverfiskröfur, umhverfi á vinnustöðum og félagslegar áherslur með það að markmiði að samræming á reglum yrði á háu plani. Mér fannst mjög eðlilegt að styðja þetta og gerði það. Sem betur fer var þetta eitt af því sem komst inn í tillöguna. Því miður gátu hægri menn á þinginu ekki stutt þessa tillögu, þar með taldir sjálfstæðismenn. Flestir miðjumenn studdu hana heldur ekki og það vakti athygli mína að fulltrúi íslenska Framsóknarflokksins, sem er í miðjuhópnum, gat ekki stutt þessa tillögu og hef ég reyndar ekki skilið hvers vegna. Johan Jakobsen frá norska Miðjuflokknum skar sig úr. Hann greiddi ekki tillögu meiri hlutans atkvæði enda kom fram í Aftenposten í Noregi að hann væri eini miðjumaðurinn á þinginu sem ekki vildi ganga í EB. Ég reikna með að þeim hafi yfirsést miðjumaðurinn frá Íslandi nema það hafi að þeirra mati verið greinilegt að hann teldi líka að EB væri framtíðarvettvangurinn. Það veit ég ekkert um. Ég hef þetta bara úr Aftenposten. Ég hugsa að þeir hafi nú ekki mjög góðar upplýsingar um íslenska Framsóknarflokkinn.
    Áður en ég kem að öðru máli sem mig langar til að gera að umtalsefni vil ég geta þess, virðulegur forseti, að eftir að þinginu lauk í Helsingfors fór ég á mjög skemmtilegan og fróðlegan fund sem haldinn var laugardeginum eftir að þinginu lauk. Þar komu saman fulltrúar hópa frá öllum Norðurlöndunum sem berjast gegn aðild landa sinna að EB og Evrópusamveldinu. Þar kom margt merkilegt fram og m.a. það sem komið hefur fram í fjölmiðlum hér, að andstaðan við aðild að Evrópubandalaginu og Evrópusamveldinu fer mjög vaxandi á Norðurlöndum. Það er sama hvar er, andstaðan vex gífurlega. Ég er því ekkert viss um að Svíþjóð, Finnland og Noregur sem virðast núna, alla vega ríkisstjórnir og þing þessara landa, stefna inn, ég er ekki viss um að sú muni verða raunin vegna þess að andstaða almennings fer mjög vaxandi í öllum þessum löndum. Mig langar að nefna að í Finnlandi voru það 63% sem vildu aðild árið 1990, fyrir ári voru það 58% og í janúar sl. voru það 46% af þeim sem spurðir voru. Andstaðan við aðild eykst og fylgið minnkar. Það sem kannski er merkilegast við það sem er að gerast núna er að í Danmörku er vaxandi andstaða við aðild Danmerkur að Evrópusamveldinu eða ,,unionen`` eins og það er kallað, þ.e. Maastricht-samkomulagið. Síðasta skoðanakönnun sýnir að 40% af þeim sem spurðir voru sögðu nei en 32% sögðu já. Það er veruleg breyting þannig að ég er ekki alveg vonlaus um að almenningur á Norðurlöndunum muni hafa þau áhrif að löndin gerist ekki aðilar að Evrópubandalaginu og að Norðurlandasamvinnan geti haldið áfram, kannski í einhverri breyttri mynd, en hún muni ekki líða undir lok með því að öll Norðurlöndin verði hluti af Evrópubandalaginu. Ríkisstjórnirnar virðast algerlega ákveðnar í að teyma Norðurlöndin í EB en ég reikna með að það muni breytast. Áróðurinn um að við eigum ekki annarra kosta völ hefur verið mjög stífur og að ef við eigum að geta haldið áfram norrænu samstarfi verðum að ganga í EB. Ég tel þetta alveg út í bláinn. Sem fullvalda og sjálfstæð þjóð eigum við mikla möguleika og þurfum ekkert að láta þvinga okkur til eins eða neins.
    Hv. þm. og formaður Íslandsdeildar, Geir H. Haarde, gerði grein fyrir skýrslu deildarinnar. Mig langar örlítið til að minnast á eitt atriði, þ.e. umhverfismálin. Ég á sæti í umhverfismálanefnd Norðurlandaráðs. Hún hét samgöngumálanefnd áður en árið 1991 breytti hún um nafn og heitir nú umhverfismálanefnd og fer með umhverfismál, samgöngumál, landbúnaðarmál, fiskveiðimál og byggðamál. Hún hefur þannig mörg mál á sinni könnu og sl. ár hefur hún haft til meðferðar norrænt samvinnuverkefni sjávarútvegsráðherranna og á þinginu nú var það samþykkt eftir meðhöndlun í umhverfisnefnd. Umhverfisnefndin var öll sammála um að mæla með og hrósa þessum samvinnuverkefnum sem sjávarútvegsráðherrarnir ætla sér að vinna að á næstu árum eða frá 1993--1996. Í þeirri samvinnuáætlun er m.a. lögð áhersla á að auðlindir hafsins séu nýttar á sjálfbæran hátt, ef við getum kallað það svo. Og að það verði grundvallaratriði þegar um nýtingu fiskstofna og sjávarspendýra er að ræða. Okkur Íslendingum þótti mjög mikilvægt að fá þetta inn og að fá það viðurkennt að við nýtingu allra náttúruauðlinda í hafinu væri það haft að leiðarljósi að um sjálfbæra þróun væri að ræða þ.e. að ekki yrði tekið meira af auðlindinni en hún gæti gefið af sér og að sjávarspendýrin væru þar ekki undanskilin. Mig langaði til að minnast aðeins á þetta vegna þess að þetta var heilmikið rætt innan nefndarinnar og varð síðan að niðurstöðu. Mörgum þótti merkilegt að Birgitta Dahl, fyrrv. umhverfisráðherra Svía, sem hafði beitt sér fyrir því að vernda ætti hvali hvað sem raulaði og tautaði, hvort sem þeir væru ofveiddir eða ekki, fannst þetta vera í lagi og samþykkti niðurstöðuna.
    Ég vildi líka geta þess að á þinginu lagði ég fram fyrirspurnir til ríkisstjórnanna um umhverfismál og það gerðu reyndar margir aðrir. Ég hef lagt mikla áherslu á að Norðurlöndin hefðu með sér samvinnu á sviði umhverfismála. Ég hafði líka vonað að Norðurlöndin gætu, hvernig svo sem allt veltist, haft með sér samvinnu á því sviði. Jafnvel verið framarlega og öðrum til fyrirmyndar. Ég verð að viðurkenna að þegar ég fékk svar við fyrirspurnum mínum urðu það mér mikil vonbrigði hvað í þeim fólst. Ég lagði fram fyrirspurn um losun lífrænna klórsambanda út í hafið. Þessi losun í hafið hefur verið of mikil á undanförnum árum þó hún hafi kannski eitthvað minnkað. Í auknum mæli hefur fundist eitrun hjá sjávardýrum og reyndar ísbjörnum líka. Það hefur verið talið að þetta gæti verið sú hætta sem ógni mest fiskstofnum á norðurslóðum. Þess vegna fannst mér eðlilegt að spyrja ráðherrana hvernig þeir hugsi sér að bregðast við og hvaða áætlun þeir hafi um að

reyna að banna alla losun þessara efna út í hafið á sem skemmstum tíma. Satt best að segja varð ég fyrir miklum vonbrigðum því að m.a. kom fram í svari ráðherranna og ríkisstjórnanna að ekki fari fram nein vinna á Norðurlöndum sem byggist á því að hætta notkun klórs, klórefna og klórsambanda. Það þótti mér mjög miður. Þess má geta að mesta mengunin kemur frá trjáiðnaðinum eða pappírsiðnaðinum þar sem verið er að ,,klórera`` pappír. Nú hafa verið fundnar nýjar aðferðir til að bleikja pappír þannig að ekki þarf lengur að nota klórefni í því sambandi. Það kom fram í svari ráðherranna að ekki væri ætlunin að stöðva algerlega losun klórefna og það þótti mér hið versta mál. Ég hefði talið að Norðurlöndin ættu að vera framarlega á þessu sviði en ekki vera með þá dæmalausu stefnu sem kom fram í þessu og ég verð að endurtaka að það voru mér mjög mikil vonbrigði að sjá svör ráðherranna á þessu sviði, því miður.
    Ég vil aðeins gera að umtalsefni vestnorræna samstarfið þó að ég ætli ekki að hafa um það mjög mörg orð. Hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir mun síðar taka til máls um það efni. Ég vil bara lýsa því hvað ég tel það mikilvægan samvinnuvettvang en ég tel hins vegar mjög mikilvægt að það sé ekki slitið úr samhengi við annað samstarf á Norðurlöndum. Mjög mikil hætta er á að það verði sett til hliðar og tekið út og þar með verði Ísland, Færeyjar og Grænland sett til hliðar. Mér þykir raunar að Eystrasaltsráðið, sem hæstv. ráðherra minntist á hér áðan, vera dæmi um það. Þeir líta greinilega svo á að Ísland eigi bara að vera fyrir utan og hægt sé að búa til nýtt ráð sem taki yfir hluta af því samstarfi sem hefur verið á vettvangi Norðurlandaráðs og Ísland geti síðan verið með í öðru. Ég tel tillögu, sem var samþykkt á þinginu og var flutt af hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, 1. þm. Austurl., um samstarf á norðurslóðum, mjög mikilvæga.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um Norðurlandasamstarfið að þessu sinni en vil lýsa því að ég hef verulegar áhyggjur af norrænu samstarfi. Ég tel að það sé alls ekki víst að Norðurlöndin önnur en Ísland fari inn í Evrópubandalagið heldur muni Norðurlandasamstarfið geta haldið áfram og andstaða almennings á Norðurlöndum muni koma í veg fyrir að allri Vestur-Evrópu verði steypt saman í eina ríkjaheild með nýjum landamærum, nýjum ríkisborgararétti og miðstjórn í Brussel. Ef svo fer held ég að við getum sagt að Norðurlandasamstarfið sé fyrir bí.