Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:07:00 (4825)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þurfa enn að leiðrétta þær forsendur sem hv. þm. gefur sér.

Það er rangt að í skýrslu utanrrh. sé boðuð sama afstaða og fram kom í ræðu framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins. Afstaða framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins var sú að mæla með því að Ísland legði fram umsókn þó hann tæki það skýrt fram að í því fælist engin afstaða til endanlegrar inngöngu. Það hlyti að ráðast af samningsniðurstöðum. Þetta var hans afstaða. Sú afstaða er ekki boðuð í skýrslu utanrrh. Það er ekki verið að boða það í skýrslu utanrrh. að það sé skynsamlegt fyrir íslensku ríkisstjórnina að máta flíkina og ráða svo í það hvort hún kaupir hana. Það eina sem er verið að segja er: Það væri óábyrgt að láta ekki fara fram rækilega könnun á ýmsum álitamálum sem nú hafa nýlega upp komið í sambandi við þetta mál. Það er það eina. Það er ekki verið að slá neinu föstu um afstöðu til Evrópubandalagsins. Það er ekki verið að boða inngöngu í Evrópubandalagið. Það er ekki verið að segja: Við skulum leggja fram umsókn og láta svo reyna á niðurstöðuna. Það er einfaldlega verið að benda á það að á undanförnum missirum hafa breyst forsendur að því er varðar samstarfsþjóðir okkar í EFTA. Það er óvissa um EES-samninginn. Það ber þess vegna að kanna ýmis álitamál sem óhjákvæmilegt er að gera á þeim tíma sem fram undan er. Það er ekki stefna að segja: Nei við þurfum ekki að kanna neitt, við höfnum því.
    Þessi umræða er ekki komin á dagskrá að frumkvæði okkar. Hún er í öllum EFTA-löndunum í kringum okkur og hún er vegna þess að þar hefur farið fram róttæk stefnubreyting af hálfu þessarar ríkisstjórnar. En ég mælist eindregið til þess þegar að þessari umræðu kemur, því að hún er auðvitað þýðingarmikil, þá fari hún ekki fram á röngum forsendum, að hún fari ekki fram með þeim hætti að menn gefi sér ranglega einhverjar þær forsendur um algjöra stefnubreytingu sem ekki eiga sér stað. Það væri þá verr af stað farið en heima setið. Við þurfum að láta þessa umræðu fara fram málefnalega en ekki á fölskum forsendum.