Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:37:00 (4830)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hafa verið hér um nokkuð langan tíma ólíkar áherslur í málflutningi mínum og málflutningi hv. þm. sem hér talaði síðast, Kristínar Einarsdóttur, varðandi samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og á ýmsum öðrum sviðum utanríkisviðskiptamála.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefur boðað það nokkuð lengi að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé bara áfangi að inngöngu Íslands í Evrópubandalagið. Ég hef hins vegar lengi talið að svo þyrfti ekki að vera efnislega og ég hef tekið trúanleg þau orð hæstv. utanrrh. og þau orð hæstv. forsrh. að það væri ekki á dagskrá innan þessarar ríkisstjórnar að fara að ræða aðild Íslands að Evrópubandalaginu.
    Hæstv. utanrrh. hefur sagt hvað eftir annað: Á meðan fiskveiðistefna Evrópubandalagsins er óbreytt þá kemur ekki til greina að Ísland verði aðili að EB. ( Utanrrh.: Og segir enn.) Og kallar nú fram í og segir: Og segir enn. --- Ja, guð láti gott á vita. En þá spyr ég núna í forundran hvers vegna þarf að verja þessum síðum í skýrslunni sem birt var í gær til þess að leggja áherslu á það að nú þurfi að kanna kosti og galla aðildar Íslands að Evrópubandalaginu og þá fyrst þegar þeirri könnun er lokið sé hægt að hafna henni? Ef fiskveiðistefnan ein dugir til að hafna henni, þá þarf ekki að kanna neitt meir. Ég tel þess vegna að hér sé um stefnubreytingu að ræða. Ég hef tekið trúanlega yfirlýsingu hæstv. forsrh. að í valdatíma núv. ríkisstjórnar yrði aðild að Evrópubandalaginu ekki tekin á dagskrá, ekki tekin til umfjöllunar.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefur alltaf haldið því fram að þessir tveir ágætu ráðherrar meintu ekki það sem þeir segðu. Ég hef hins vegar verið reiðubúinn til þess að taka orð þeirra trúanleg en ég verð að segja það að í ljósi þessarar skýrslu tel ég að hæstv. utanrrh. hafi breytt um stefnu. Ég hef ekki talið að túlkun hv. þm. Kristínar Einarsdóttur á fyrirætlun hæstv. utanrrh. væri rétt.