Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:38:00 (4831)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki fullyrt það að þeir hafi sagt ósatt, heldur hafa þeir aldrei tekið alveg af skarið. Ég vil benda á það að í ræðu á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki nú fyrir skömmu sagði hæstv. forsrh. í ræðu sinni eitthvað á þá leið að umsókn Íslands um aðild að Evrópubandalaginu væri ekki á dagskrá á næstunni --- ,,i den nærmeste fremtid`` eins og hann orðaði það. Þetta tóku allir sem töluðu við mig þannig að þetta væri opnun af Íslands hálfu á það að nú vildu þeir væntanlega vera með. ,,Á næstunni`` tóku þeir ekki sem einhvern tímann eftir 10 ár heldur væri það kannski í næstu viku eða þarnæstu eða kannski innan ársins. Þetta orðaval mátti skilja á ýmsan hátt og það er fyrst og fremst það sem ég hef verið að segja. Ég hef viljað túlka þessi orð eins og þetta: ekki á dagskrá. Það er auðvelt að taka það á dagskrá. Og eins það að fullyrða hér að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að ná samningum við EES. Það er alveg rétt, en það er alltaf undanskilið, en síðan þegar það er komið þá höldum við auðvitað áfram.