Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:39:00 (4832)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér fannst það ekki sanngjarnt hugmyndaflug að telja að orð hæstv. forsrh. í Helsinki þýddu það að eftir fáeinar vikur gæti það komist á dagskrá að Ísland gengi í Evrópubandalagið. Ég túlkaði yfirlýsingu hæstv. forsrh. í Helsinki á þann veg að hann væri að flytja hinum norrænu frændum okkar þau orð sem hann flutti hér heima, að á meðan hans ríkisstjórn væri við völd, þá yrði aðild að Evrópubandalaginu ekki tekin á dagskrá. Það hefur hann sagt hvað eftir annað. Og það er þess vegna sem við höfum hér í þinginu í vetur ekkert verið að ræða þetta mál af því að við treystum yfirlýsingu hæstv. forsrh. að á þessu kjörtímabili a.m.k. væri aðild Íslands að Evrópubandalaginu ekki á dagskrá, ætti ekki að kanna hana á vegum Stjórnarráðsins og ekki á vegum ríkisstjórnarinnar. Hvað yrði á næsta kjörtímabili, eftir þrjú til fjögur ár, væri kannski annað mál af hálfu forsrh. Þess vegna hefur engin umræða verið hér í þinginu í vetur, hvorki í utanrmn. né neins staðar annars staðar, um hugsanlega aðild Íslands að Evrópubandalaginu.
    Stefnubreytingin er fólgin í því að hæstv. utanrrh. setur það á dagskrá. Hann gjörbreytir umræðunni með þeim spurningum, umfjöllunum og ályktunum sem hann dregur í sinni skýrslu. Hann er búinn að setja aðild Íslands að Evrópubandalaginu á dagskrá. Hann vill fá könnun í Stjórnarráðinu um það mál nú þegar og í öllum stjórnstofnunum og þá fyrst þegar þeirri könnun er lokið er hægt að taka afstöðu, að hans dómi, hvort hægt er að hafna aðild eða ekki.
    Þetta hefur hæstv. forsrh. ekki sagt. Það má vel vera að það hafi verið misskilningur hjá mér að treysta orðum hæstv. forsrh., en ég kýs að starfa þannig hér í þinginu og í þjóðmálum almennt að þegar forsrh. ríkisstjórnar segir að stórmál eins og aðild Íslands að Evrópubandalaginu verði ekki á dagskrá og ekki til umfjöllunar meðan hans ríkisstjórn situr við völd, þá treysti ég þeim orðum. Ég veit að hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefur ekki treyst þeim, en ég hef gert það.