Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:41:00 (4833)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þegar rætt er um það mál sem hér er á dagskrá, fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Tyrklands, vakna tvær spurningar. Önnur er sú hvort það sé siðlegt, ef svo má segja, að gera fríverslunarsamning við Tyrkland því að lýðræði í því landi sé ekki á því stigi að slíkt sé heppilegt. Ég er sammála því að ég held að hv. utanrmn. verði að taka þann þátt málsins til skoðunar. Hins vegar er ég samþykkur því almennt að þessi fríverslunarsamningur verði gerður. Hér er um stóran markað að ræða og auðvitað vonum við að þróunin verði sú í lýðræðisátt í Tyrklandi að þeir verði fullgildir á þeim markaði sem hér er næstur okkur.
    Hin spurningin, sem hefur verið meira rædd hér, er sú hvort verið er að skrifa upp á eitthvert pappírsgagn til mjög skamms tíma, hvort EFTA verður til eftir örfá ár, hvort það verður svo eftir nokkur ár að við verðum komin inn í Evrópubandalagið og EFTA verði ekki lengur til, aðrar þjóðir verði komnar þangað líka.
    Ég veit ekki á þessari stundu hvað hæstv. utanrrh. hefur víðtækan stuðning í þessu efni, en það er ljóst að framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins hóf umræðu um það að staður okkar væri ekki í EFTA heldur í Evrópubandalaginu og hæstv. utanrrh. er að feta sig inn á þá umræðu smátt og smátt.
    Það er ljóst að hæstv. forsrh. hefur lagt sig fram um það hér undanfarið að taka af allan vafa um það að ríkisstjórnin sé ekki þessarar skoðunar og þess vegna er mjög einkennilegt að fram komi í skýrslu utanrrh. bollaleggingar um það að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og gera fríverslunarsamning milli EFTA og Tyrklands að pappírsgagni.
    Ég hjó eftir því áðan að hæstv. utanrrh. sagði: Rómarsáttmálinn er skýr og frá honum verða ekki undanþágur nema tímabundnar. En í skýrslu hæstv. utanrrh. er látið að því liggja að fiskveiðistefna Evrópubandalagsins þurfi ekki endilega að ná til Íslands. Ef það er leyfilegt að vitna í þessa umtöluðu skýrslu, ég ætla ekki hafa mörg orð um það mál, þá segir á bls. 18 í þeirri skýrslu, með leyfi forseta:
    ,,Annar veigamikill þáttur, sá mikilvægasti hvað okkur varðar, er sameiginleg sjávarútvegsstefna. Um árabil náði hún ekki til Miðjarðarhafssvæðisins og enn gilda þar sérreglur. Er það gefið mál að hún þurfi að ná til hafsvæða við Ísland þar sem eini stofninn, sem sannanlega er sameiginlegur með EB og Íslandi er kolmunninn?``
    Þarna er verið að gefa því undir fótinn að fiskveiðistefna EB þurfi ekki endilega að ná til Íslands og það sé alveg óhætt að leggja EFTA niður þess vegna og gera þennan fríverslunarsamning við Tyrkland að pappírsgagni, svo ég haldi mig nú við það efni sem hér er á dagskrá.
    Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, það er alveg nauðsynlegt að hér verði ítarleg umræða um utanríkismál, meiri en um þennan fríverslunarsamning og það er erfitt að bíða eftir því en það er óhjákvæmilegt að það komi í ljós hvort þessi umrædda skýrsla er á ábyrgð allrar ríkisstjórnarinnar eða hvort það eru einhverjar prívatskoðanir úr utanrrn. sem hér er um að ræða. Ég held að þau svör þoli ekki bið, ekki síst í ljósi þess að yfirlýsingar hæstv. forsrh. um þessi mál hafa verið mjög skýrar að undanförnu og ég tek undir það að hann hlýtur að tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ég er a.m.k. alinn upp við slíkt í stjórnmálum og held mig við það að hæstv. ráðherrar meini það sem þeir segja, ekki síst þeir sem tala fyrir og bera ábyrgð á ríkisstjórninni eins og hæstv. forsrh.