Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:11:00 (4838)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að hv. 8. þm. Reykn. viðurkenndi hér áðan að ekki væri um að ræða neina boðaða stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnarinnar sem fram kæmi í skýrslu utanrrh., það væri augljóslega áfram stefna ríkisstjórnarinnar að ná samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Það væri ljóst að það væri hvergi boðað að leggja fram umsókn um aðild að Evrópubandalaginu. Hins vegar taldi hann að þriðji þátturinn væri staðfesting á að um stefnubreytingu væri að ræða, þ.e. því hefði verið lýst yfir áður að umræða um aðild að Evrópubandalaginu væri ekki á dagskrá, en nú hefði utanrrh. með þessari skýrslu sett þær spurningar á dagskrá. Hér er að sjálfsögðu ekki um stefnubreytingu að ræða. Alls ekki. Hér er um það að ræða að aðstæður í heiminum í kringum okkur hafa breyst í grundvallaratriðum þannig að Íslendingar þurfa nú að skoða betur hver skuli vera viðbrögð þeirra við þeim breytingum. Það að skoða þær spurningar sem aðrir hafa vakið upp er ekki stefnubreyting, það flokkast undir viðbrögð, það kallar á könnun, það kallar á umræðu, það er ekki stefnubreyting.