Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:26:02 (4849)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Það er nokkuð sérkennilegt fyrir mig að taka þátt í þessari umræðu því að ég ber hag Kúrda mjög fyrir brjósti og er að reyna að koma þeim hér á dagskrá svona inn á milli. (Gripið fram í.) Það er mjög mikilvægt mál og ég er alveg sammála hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni um að þessi mál tengjast mjög svo. En ég beindi spurningu til hæstv. utanrrh. hér áðan sem ég hef ekki fengið svar við og vil því ítreka spurninguna. Það var nokkuð sérstakt að sitja hér úti í sal, ég var að reyna að hlusta á útvarpið og var með utanrrh. í bæði eyru, annars vegar í útvarpinu og hins vegar hér í ræðustól. En í fréttum núna rétt áðan var frá því sagt að þýska ríkisstjórnin væri að íhuga að slíta öllu hernaðarsamstarfi við Tyrki vegna þeirra atburða sem gerst hafa í Tyrklandi. Því vil ég ítreka þá spurningu sem ég spurði áðan: Hafa íslensk stjórnvöld látið eitthvað frá sér heyra vegna þeirra atburða sem gerst hafa í Tyrklandi? Ef svo er ekki, ætlar utanrrh. sér að láta frá sér heyra um þetta mál? Ég skora á hæstv. utanrrh. að svara þessari spurningu og jafnframt að hann beiti sér í þessu máli því hér er virkilega um örlög einnar þjóðar að ræða.