Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:29:00 (4850)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Enn hafa íslensk stjórnvöld ekki látið frá sér heyra um þessi alvarlegu mál. Það var í gærkvöldi fyrst sem ég óskaði eftir því að aflað yrði staðfestra upplýsinga um þessar loftárásir, um mannfall og um aðrar þær aðgerðir gegn Kúrdum sem tíundaðar hafa verið í fréttum. Við munum síðan skoða þetta mál trúlega síðdegis í dag og taka það til athugunar hvort og með hvaða hætti við komum á framfæri mótmælum og þá munum við jafnframt trúlega leitast við að hafa um það eitthvert samráð við nágrannaþjóðir okkar aðrar á Norðurlöndum.