Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:30:00 (4851)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs um þingsköp er ofur einföld. Hún er að spyrja hæstv. forseta hvaða mál sé á dagskrá og undir hvaða þingskapagrein er verið að ræða. Hæstv. forseti sagði aðspurður áðan að það væri búið að slíta umræðunni en eftir það hafa a.m.k. þrír ræðumenn kvatt sér hljóðs án þess að forseti hafi á nokkurn hátt gert grein fyrir því hvað væri verið að ræða. Ef það er

svo, virðulegur forseti, að þetta mál sé enn á dagskrá, ef hægt er að tala hér um brot á þingsköpum í dag, þá var þingskaparæða hæstv. utanrrh. áðan alls ekkert um þingsköp, heldur að öllu leyti efnisleg umfjöllun á því sem hér hefur verið rætt.
    Ég vil einnig, virðulegur forseti, benda á það að sú umræða, sem hér hefur átt sér stað um skýrslu utanrrh., um utanríkismál almennt, innan þess máls sem ég er að spyrja eftir hvort er á dagskrá enn þá, er langt innan þeirra hefða sem hér hafa skapast á Alþingi um það sem tekið er til umfjöllunar við umræður um einstök mál.
    Ég segi það því sem mína skoðun, virðulegur forseti, að ég var mjög undrandi á því að við skyldum hér þó nokkrir þingmenn vera áminntir um það að þetta mál væri ekki á dagskrá.