Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 13:23:00 (4862)

     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég efa að sjálfsögðu ekki áhuga hv. 1. flm. á því að koma gróðri til betra ráðs hér í hennar kjördæmi, né áhuga annarra flm. Ég tek vissulega undir það að hér eru mikil verkefni. Þetta tek ég alveg skýrlega fram áður en ég hef mína frásögn um skoðun mína á þessari tillögu. En m.a. af þessum ástæðum finnst mér ekki þessi tillaga vera neitt sérstaklega rismikil.
    Þannig vill nú til að Alþingi Íslendinga hefur markað stefnu í landgræðslu- og gróðurverndarmálum sem auðvitað nær til Landnáms Ingólfs eins og annarra hluta Íslands. Í þessari ályktun sem var afgreidd með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi var jafnframt ákveðið að í þessum efnum skyldi hafa náðst umtalsverður árangur um næstu aldamót. Ég held að sú ákvörðun sem tekin var af Alþingi og sú umræða sem hefur af því hlotist hafi átt góðan þátt í því að breyta umhverfinu í umræðunni um landgræðslu- og beitarmálefni á Íslandi. Í framhaldi af þessari ályktun var reyndar tekin önnur ákvörðun um að sérstök úttekt yrði gerð á gróðurfari landsins og jarðvegi og Landnám Ingólfs var ekki undanskilið í þeirri tillögu. Eftir báðum þessum ályktunum Alþingis er farið að vinna og auðvitað að afar stórum hluta sameiginlega.
    Þannig hafa núna verið fengin myndbönd þar sem gervihnettir hafa skráð upplýsingar um jarðveg og um gróður, um það hvernig landið okkar lítur út. Það eru þegar farnar að sjást niðurstöður úr einstökum byggðarlögum, einstökum sveitarfélögum, sem segja með afar mikilli nákvæmni hvernig ástandið er í þessum efnum og hvernig við getum hagnýtt okkur þessa tækni til þess að taka ákvarðanir um það hvernig við berum okkur að í landgræðslustarfinu.
    Það er alveg augljóst mál að til eru þau lönd hér á Íslandi sem ekki þola sauðfjárbeit. Það eru til önnur lönd sem trúlega væri ávinningur að að friða og svo eru að sjálfsögðu til lönd, og það er nú stærsta málið, sem er grundvallaratriði að haga nýtingu með þeim hætti að ekki spilli ástandi gróðurs. Það er þess vegna fjarri því að þessi þáttur, nýtingarþátturinn, taki ekki til hinna almennu viðhorfa í landgræðslu og gróðurvernd, að ætla sér það að ná fram einhverjum sérstökum árangri á einhverjum tilteknum stað með því einu að banna sauðfjárhald, sem er jafnvel hagsmunamál hér í Landnámi Ingólfs. Einhvers staðar hefur heyrst minnst á það að hér væri til vandamál sem væri kennt við það að fólk hefði ekki atvinnu, væri atvinnulaust og það eitt út af fyrir sig er fullkomin ástæða til þess að líta á slíka hagsmuni og slíka þörf, meira að segja líka á þessu svæði.
    Ég verð þess vegna að segja að þessi tillaga ber ekki vott um mikla hugkvæmni í þessum málum. Það er hárrétt sem kemur fram í greinargerð með till. að hana hefur borið oftar að garði hér á þessum bæ. Ég held nefnilega að ferðalag hennar inn á Alþingi núna sé til komið vegna þess að hún hefur áður átt hér leið um.
    Ég sagði frá því hér áðan að í þessum efnum væru breyttir tímar og það er m.a. vegna þess að þau einstrengingslegu sjónarmið sem fram koma í þessari till. hafa ekki sama hljómgrunn og áður hefur verið. Og margt það fólk, sem er einlægt landgræðslu- og gróðurverndarfólk og hefur miklu hlutverki að gegna í þeim efnum, kærir sig ekki um að vinna með þessum hætti, (Forseti hringir.) ekki með þessum boðum og ekki með þessum bönnum, heldur með samkomulagi. Ég er þess vegna alveg sannfærður um það að ef þessi tillaga hefði ekki átt þennan bakgrunn, þá hefði hún ekki gengið fram hér á Alþingi með þeim hætti sem hér er upp sett. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég skal ljúka máli mínu.
    Hér hefur komið fram ágreiningur um það milli manna hvert bæri að vísa þessari till. Persónulega, af því að ég er formaður landbn. Alþingis, ef ég ætti bara að hugsa um mína persónulegu afstöðu, þá gæti ég alveg eins kosið það að vera laus við að fjalla um hana. Ef það kæmi hins vegar í hlut þeirrar nefndar sem ég stjórna, þá mundi áreiðanlega fara fram um hana umræða og afgreiðsla, e.t.v. afgreiðsla,

ekki ætla ég að fara að lýsa því yfir, sem tæki til þeirra heildarsjónarmiða sem eru uppi í landgræðslu- og gróðurverndarmálum --- (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, virðulegur forseti. ( Forseti: Þú ert kominn langt fram yfir tímann.) Já, ég hef nú ekki tafið fundahöld í vetur, virðulegi forseti, --- sem væri við hæfi þess málefnis sem hér er um fjallað og sem gæti skilað árangri í þeim landbótastörfum sem þurfa að eiga sér stað í Landnámi Ingólfs eins og alls staðar annars staðar á Íslandi. Ef menn hins vegar kjósa það að hafa þennan gamla sperring í afgreiðslu þessarar till. og reyna að koma henni fram í þinginu án þess að virt séu eðlileg vinnubrögð og eðlileg skipting á afgreiðslu mála og umfjöllun mála í þinginu, þá er það út af fyrir sig mál sem ég er ekkert sérstaklega ósáttur við.