Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 13:41:00 (4865)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég var þar kominn í máli mínu áðan að ég var að ræða um yfirlýsingu sem barst frá mönnum úr Ölfusi og verður hér sett í þinghólf manna að þeirra beiðni vegna þess sem framsögumaður minntist hér á að 80--90 manns hefðu skrifað undir áskorun um að taka á ákveðnu vandamáli kringum lausagöngu búfjár og sneri að girðingum og vegum í hreppnum. En því miður, þrír einstaklingar úr sömu sveit létu að því liggja að þetta væru stuðningsaðilar þessarar þáltill. og skrifuðu enn fremur undir ég vil segja grófa áætlun sem þeir einstaklingar hafa sent frá sér þar sem ráðist skal að hagsmunum sauðfjárbænda um allt land. En yfirlýsingin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Nokkrir aðilar úr Ölfushreppi, sem kalla sig búnaðardeild undirbúningsnefndar, að nafni Jón H.

Hannesson, Rafn Haraldsson og Guðmundur Birgisson sendu yður erindi um að lausaganga búfjár verði bönnuð í Landnámi Ingólfs o.s.frv.
    Með erindi þeirra fylgdu afrit af undirskriftalistum sem fyrir tæpu ári voru sendir til hreppsnefndar Ölfushrepps um auknar skorður við lausagöngu búfjár í hreppnum.
    Við undirritaðir viljum lýsa furðu okkar á slíkum gjörningi og teljum nefnda aðila í engum rétti til að nota þessar undirskriftir til að árétta sitt mál. Við höfum farið fram á það við þá að þeir sendi yður afsökun á að hafa brotið svo gróflega trúnað við það fólk sem ritaði nöfn sín á téðan lista en án árangurs.
    Með vinsemd og virðingu, Ragnar Böðvarsson, Svava Gunnarsdóttir, Ólafur T. Ólafsson.``
    Svo mörg voru þau orð. Um þessa þáltill. var fjallað í héraðsblaðinu Þjóðólfi á dögunum og þar kemur fram umfjöllun um hana. Menn gagnrýna í sjálfu sér mest greinargerðina með tillögunni, kannski miklu meira en tillögugerðina, og tel ég hana mjög villandi. En ef ég, með leyfi forseta, gríp hér ofan í viðtöl við tvo menn sem rætt er við um þetta mál, þá segir m.a. Hrafnkell Karlsson, sem er bóndi á svæðinu:
    ,,Okkur finnst hallað réttu máli í greinargerðinni. Það er talað um að landið sé ofbeitt en þetta er langt undir reiknuðu beitarþoli RALA og fækkunin hefur orðið gífurleg á þessu svæði. Á síðstu 20 árum hefur fé farið úr 37 þús. niður í 14 þús.`` --- Sem sé, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, það eru 14 þús. fjár á þessu svæði. Og hefur fækkað úr 37 þús. þannig að við sjáum að enn hefur stór hópur manna lífsviðurværi sitt af því að stunda búfjárrækt með sauðfé.
    Í greininni segir segir enn fremur: ,,Hann [þ.e. Hrafnkell] taldi að önnur sjónarmið lægju að baki þessari tillögu en hvort sé ofbeitt eða ekki: ,,Sauðkindin er af sumum talin sjónmengun í umhverfi landsins``.`` Auðvitað er þetta rétt hjá Hrafnkatli að það hefur verið aukið á þann áróður með fjölmiðlum og fleiru. Það er ljótt að sjá sauðkind í rofabarði og það er reynt mjög að ýta undir það að hún sé völd að öllum þeim uppblæstri og þeim vandræðum sem við eigum við að etja hvað fjúkandi land varðar en auðvitað eru það margir, margir fleiri þættir sem þar koma inn í og vega miklu þyngra.
    Ég ætla að vitna í viðtal sem þarna er einnig við Ólaf Dýrmundsson, landnýtingarráðunaut Búnaðarfélags Íslands. Með leyfi forseta, segir svo:
    ,,Ólafur . . . taldi að nú þegar væri búið að friða mjög mikið af Landnámi Ingólfs og þá sérstaklega það verst farna. Sandarnir allir hjá Þorlákshöfn og Selvogi eru friðaðir og á Reykjanesi voru friðuð svæði fyrir mörgum tugum ára, á höfuðborgarsvæðinu væri búið að friða stórt svæði og nú er búið að friða öll þéttbýlissvæðin. ,,Að vísu er mjög viðkvæmt svæði ekki búið að friða í Krýsuvík en það eru uppi áform um það. Svo er stundum líka talað um Hengilssvæðið en það er búið að friða það að hluta, þ.e. svæði Reykjavíkurborgar. Svo og Herdísarvík í Selvogi og ýmis smærri svæði og skógarreitir.``
    Ólafur taldi fólk ekki fá rétta mynd af stöðunni þegar hann læsi þáltill. og greinargerðina. Samkvæmt henni ætti að skipa nefnd á vegum umhvrn. og landbrn. í samráði við sveitarfélög til að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár í ,,Landnámi Ingólfs``. ,,En málið er það að nefnd er starfandi núna sem skipuð var í september og er að taka fyrir lausagöngu búfjár um allt land, þar með talið Landnám Ingólfs,`` sagði Ólafur. Þess vegna væri þessi tillaga óþörf og meingölluð og að auki væri fullsterkt að taka svo til orða að jarðvegs- og gróðureyðing væri ,,geigvænleg``. Nefnd þessi væri að vinna í þessu á vegum landbrn. og umhvrn. og hún tæki ekki aðeins tillit til gróðurverndarsvæða heldur líka vega og alls landsins. Í þessari nefnd eru fulltrúar Búnaðarfélags Íslands, Stéttarsambands bænda, Samtaka ísl. sveitarfélaga, Vegagerðar ríkisins, landbrn. og umhvrn.``
    Eigum við nú ekki, hv. alþm., að hinkra við og sjá hverjar tillögur þessarar nefndar verða, hvort hún skilar af sér tillögum sem næst kannski þjóðarsátt um milli bændanna, milli áhugamanna um gróðurrækt, milli þéttbýlisins og milli fagmannanna á sviði gróðurverndar? Ég held að það sé mjög mikilvægt. Að auki gæti það vel verið réttlætanlegt miðað við ýmis ný viðhorf bæði hjá tæknifólki á þessu sviði, hjá bændunum og fleirum eins og hér hefur verið rakið, að Alþingi sjálft skipaði milliþinganefnd skipaða þingmönnum allra flokka til þess að skoða þessi mál einnig. Ég get vel fallist á að það væri ekki óeðlilegt. Ég vil ekki ræða þetta öllu meira hér, en ég legg áherslu á að þetta mál snertir lífsafkomu fólks sem á það undir að mega halda áfram sinni búfjárrækt á sínu eignarlandi, sá réttur verði ekki tekinn af því og þar með heilu sveitirnar lagðar í eyði, ekki bara í Árnessýslu heldur líka í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það eru ýmsir sem hér lifa á þessari atvinnugrein.
    En mín lokaorð eru þessi: Ég ítreka það að ríkið þarf að standa sig í að girða þjóðvegina af. Þar hefur skort fé og það er mjög mikilvægt að þeir séu girtir af og sú hætta sem stafar af búfé hverfi. Þetta ber ríkinu að gera. Um það hljóta allir að vera sammála þegar þeir skoða málið. (Forseti hringir.) Eins legg ég áherslu á að sá réttur verði ekki tekinn af bændum þessa lands að nýta sín heimalönd og nýta sínar auðlindir sem liggja í afréttunum því að vissulega er það svo að hóflega nýtt land er besta landið og það er í minnstri hættu gagnvart gróðureyðingu.
    Hæstv. forseti. Ég vil að lokum minna á það t.d. hvað Vestmanneyjar varðar að þar hafa menn komið sér upp sauðfjárstofni til þess að verja gróðurinn í úteyjunum. Ef þeir hefðu ekki sauðfé til þess að verja gróðurinn í úteyjunum, þá mundu þær verða berar klappir einar. Það er því hin skynsamlega nýting sem þarf að eiga ser stað, friður og sátt um málið meðal þjóðarinnar allrar. Á það legg ég áherslu og tel

að nú séu aðstæður til þess að ná árangri í þeim efnum. Þess vegna eiga allir að leggja niður stríðshanskana.