Enska sem fyrsta erlenda tungumálið

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 14:28:00 (4875)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get að mörgu leyti verið samþykk þessari till. sem hér liggur fyrir. En ég er mjög ósammála hv. flm. eins og hann talaði hér áðan og eins þeirri greinargerð sem hér liggur fyrir vegna þess að það leyndi sér ekki í orðum hv. þm. að hann vill nánast leggja af kennslu í dönsku eða í Norðurlandamáli og það er allt annað mál en felst í þessari till.
    Það var í gær sem hér fór fram umræða um norræna samvinnu. Ég saknaði hv. þm. við þá umræðu. Ég held að það hefði verið ákaflega hollt fyrir hann að hlýða á hana og jafnvel taka þátt í henni vegna þess að norrænt samstarf er okkur ákaflega mikilvægt og því er ekkert að ljúka. Þó svo kannski að þar séu ýmsar hættur fram undan og ýmsir óvissuþættir, þá væri það skrýtið ef við Íslendingar hefðum frumkvæði að því að skerða þá samvinnu, ég tala nú ekki um að slíta henni. Nú er ég ekki beint að leggja hv. þm. þau orð í munn að hann hafi talað um að slíta því samstarfi sem á sér stað innan Norðurlandanna en óneitanlega voru svona ýmsar dylgjur sem gátu þýtt að það væri kannski alveg eins hugmyndin.
    En ég sagði það áðan að ég gæti að mörgu leyti verið samþykk þeirri tillgr. sem hér er til umræðu og a.m.k. vil ég ekki útiloka það að svo stöddu að ekki geti komið til greina að hafin sé tungumálakennsla í ensku á undan dönsku. Og ástæðan fyrir því að mér finnst það ekki útilokað er kannski fyrst og fremst vegna þess að við vitum það að börnin kunna eitthvað í ensku þegar þau koma inn í skólann og það gæti verið til að auka sjálfstraust þeirra að fyrsta erlenda tungumálið sem þau læra sé það tungumál sem þau kunna eitthvað í og þar af leiðandi nái þau strax einhverju valdi á því námi. En síðan kæmi danskan á eftir og sú tækni sem þau hafa lært og innrætt sér í sambandi við enskunámið nýtist þeim síðan í dönskunáminu.
    Mér er það ljóst að kennsla í dönsku er ekki eins og hún skyldi vera. Því miður. Þar er kannski fyrst og fremst kennaramenntuninni um að kenna. Það er ekki skylda í kennaranámi eftir því sem ég best veit að læra dönsku. Danskan er valgrein. Síðan koma kennararnir með full réttindi út í grunnskólana án þess að hafa lært að kenna dönsku og hafa réttindi til að kenna öll fög í grunnskóla. Þetta er kannski

ástæða þess að málin eru ekki í eins góðum farvegi og skyldi.
    Það eru nokkur ár síðan að hafið var átak innan Norðurlandasamstarfsins um málskilning. Og í tengslum við það átak er hér hjá okkur Íslendingum í Norræna húsinu starfandi ákveðinn starfsmaður sem vinnur að því að auka málskilning meðal Norðurlandaþjóðanna og m.a. að miðla þekkingu um íslenskt tungumál til annarra Norðurlanda og íslenskri menningu. Með síðustu aðalnámsskrá var tekið upp það fyrirkomulag að ekki er lögð eins mikil áhersla á danskan framburð eins og var áður heldur fyrst og fremst lögð áhersla á dönskuskilninginn. Eins eru hin Norðurlandamálin, norska og sænska, kynnt í grunnskólanum, eða svo á alla vega að vera, það á að kynna bæði sænsku og norsku. Ég held að þetta sé mjög til bóta og það hafi kannski verið til þess að fæla börnin frá dönskunni að það var ætlast til að þau lærðu þennan erfiða danska framburð sem er okkur mjög óeðlilegur.
    Það hefur verið rætt hér hvort það hafi kannski verið röng stefna að hafa það Norðurlandamál sem kennt er í grunnskóla dönsku en ekki norsku eða sænsku. Það má sjálfsagt eitthvað deila um það en ég held þó að rétta leiðin okkar að norrænu málunum sé í gegnum dönskuna. Ég verð vör við það í því norræna samstarfi sem ég tek þátt í að við Íslendingarnir eigum tiltölulega betra með að skilja dönskuna en t.d. Svíarnir og ég tala nú ekki um Finnana. Það er eflaust vegna þess að við förum þessa leið inn að Norðurlandamálunum í gegnum dönskuna sem er erfiðust að skilja af norrænu málunum.
    Ef ég á að halda aðeins áfram umræðunni um tungumálakennslu held ég að það sé ekki rétt stefna eins og þetta er núna að það séu bara tveir tímar í viku sem eru notaðir til tungumálakennslu í hverju tungumáli því að það verður að taka þetta með meira átaki í upphafi. Og mér fyndist að það þyrfti að kenna dönsku þegar hún hefst, hvort sem hún væri nú sem fyrsta eða annað erlenda tungumál, að það ættu að vera fjórir tímar á viku í dönsku. Við höfum ekki samskipti við hinar Norðurlandaþjóðirnar á ensku, það liggur alveg ljóst fyrir, og það þýðir ekkert að setja hér fram spurningu um hvort nýtist betur enskan eða danskan. Auðvitað nýtist enskan okkur betur ef við tökum sem hlutfall af heiminum að tala við. Það eru fleiri sem tala ensku heldur en Norðurlandamál, ég geri mér fulla grein fyrir því. En þetta er bara tvennt ólíkt. Við erum óskaplega lítil þjóð og við þurfum mikið á því að halda að vinna með okkar nágrannaþjóðum og við gerum það ekki með því að nota ensku í þeim samskiptum, við notum dönsku eða norsku eða sænsku. Þess vegna megum við ekki líta á þetta á janfeinfaldan hátt og hv. þm. vildi gera í framsöguræðu sinni. Við þurfum að læra bæði ensku og dönsku. Það er spurning hvort kemur á undan. En ég sit í hv. menntmn. og fæ þar tækifæri til að fjalla frekar um málið.