Enska sem fyrsta erlenda tungumálið

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 15:04:00 (4880)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. þm. Inga Björns, hann sagði: Gleymið Norðurlandaráði, og taldi að vegna Norðurlandaráðs vildum við halda við kennslu í norrænu málunum. Ég vil upplýsa hann um það að ég á ekki sæti í Norðurlandaráði og er þess vegna alls ekki að verja hvorki setu mína eða sérstaklega annarra þingmanna þar. En ég ítrekaði það reyndar í minni ræðu að ég teldi að þrátt fyrir breytta skipan eða breytt fyrirkomulag í Norðurlandaráði, þá mundi alltaf verða samvinna þar a.m.k. á sviði menningar- og félagsmála og það tel ég að verði.
    En ég vil bara enn og aftur ítreka það að ég held að enskan hafi forgang alls staðar í þjóðfélaginu og ég er ekkert á móti því að hún hafi vissan forgang. Ég veit að hún er alþjóðamál, en ég held að við þurfum ekki að gefa henni neitt forskot umfram það sem hún hefur í dag í skólakerfinu. Ég held að það sé engin þörf á því.