Kjarasamningar

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 15:53:00 (4903)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :

    Virðulegur forseti. Ég tel ekki ástæðu til margvíslegra athugasemda um það sem fram hefur farið hér. Þó vil ég nefna nokkur atriði vegna ræðu hv. 8. þm. Reykn. áðan. Ég vil vekja athygli á því að það kom glöggt fram eftir að þetta hlé var gert á samningum að allir aðilar launþegamegin frá lögðu mikla áherslu á það að samflotið héldist. En hv. þm. kom hér með fjölmargar kröfur fyrir hönd þessara aðila, ég veit nú ekki í hvaða umboði hann gerði það að vísu, sem stangast á við hina sameiginlegu kröfur. Sumar kröfurnar höfðu heyrst frá öðrum aðilanum, aðrar kröfurnar frá hinum aðilanum en þegar þessir aðilar vegna samflotsins höfðu sameinað sínar kröfur þá voru þær kröfur sem þingmaðurinn nefndi ekki með. Þær stangast á við samflotið. Þingmaðurinn hefur því ekkert leyfi til þess að koma með slíkar kröfur af hálfu þessara aðila án þess að hann hafi nokkurt umboð til þess og beina þeim sérstaklega að ríkisstjórninni.
    Þingmaðurinn spurði um það og gerði mál úr því hversu mikið og oft hefði verið rætt við aðila. Hann spurði sérstaklega um hversu mörg trúnaðarsamtöl ég hefði átt við tiltekna menn. Mér fannst það bera vott um að það að þingmaðurinn taldi sig vita heilmikið um það mál af einhverjum ástæðum sem ég get ekki alveg áttað mig á hvernig á stendur. En ég ætla hvorki í þessum sal né annars staðar að rekja það hvort eða hve oft ég hafi hitt einstaka aðila að málum. Það er ekki viðeigandi af minni hálfu og heldur ekki viðeigandi af hv. þm. að spyrja um það með þeim hætti sem hann gerði. Hins vegar vek ég athygli á því að forustumenn launþegahreyfingarinnar hafa hvergi kvartað yfir því að þeir nái ekki fundum forráðamanna ríkisstjórnarinnar. Enda er það mála sannast að þeir ná slíkum fundum hvenær sem þeim þóknast með afskaplega skömmum fyrirvara. Það er mála sannast og verður ekki hægt að hrekja.
    Mér fannst það óábyrgt af hv. fyrrv. forsrh., 7. þm. Reykn., að gefa það í skyn eða nánast segja að það væri hægt og ekkert mál að auka kaupmátt á þessu ári þegar sameiginlegar tekjur þjóðarinnar hafa farið forgörðum. Auðvitað hlýtur sá maður að vita það eða má vita að það er ekki hægt. Á hinn bóginn eins og kom fram í minni ræðu og ræðu hv. 9. þm. Reykv. hér áðan þá var vilji í þessum samningsumleitunum og kom glöggt fram að reyna að tryggja kaupmátt þeirra sem lægstir væru og jafnvel þannig að þeir sem lægstir væru mundu fá örlítið betri kaupmátt á samningstímanum en ella væri. En það var allt það svigrúm sem menn sjá báðum megin frá að er fyrir hendi. Að gefa það í skyn að hægt sé auka almennan kaupmátt í landinu þegar sameiginlegar tekjur þjóðarinnar fara minnkandi er óábyrgt og jafnvel bara ómerkilegt yfirboð.
    Sami hv. þm. virtist telja að hvort tveggja væri hægt að ganga að fjölmörgum kröfum og auka útgjöld ríkissjóðs, safna væntanlega skuldum, taka lán og stuðla að því að vextir lækkuðu. Ég hef ekki heyrt betra dæmi í annan tíma um það að menn vilji bæði eiga og éta kökuna. Þetta vita flestir að er ekki hægt, það gengur ekki upp, fer ekki saman. Þess vegna höfum við lagt höfuðáhersluna á það af ríkisstjórnarinnar hálfu að gera ekkert sem gerir það að verkum að forsendurnar muni bregðast. Ég vil ítreka það að ég hef þá trú rétt eins og hv. 9. þm. Reykv. að menn muni taka upp þráðinn á nýjan leik áður en langt um líður. Það er svo mikið í húfi að það verði gert fyrir alla aðila að ég er ekki í vafa um að þeir muni gera það. Ég hygg reyndar að þegar grannt er skoðað sé það sá atbeini sem ríkisstjórnin hefur viljað hafa af samningnum þess eðlis að hann eigi að geta verið sem hliðaraðgerð, verið traustur stuðningur þess að samningar geti náðst og menn tryggi að hér verði ekkert kaupmáttarhrun, menn tryggi að verðbólgan æði ekki af stað aftur og menn tryggi að vextir geti lækkað og að atvinnustigið muni eflast. Því það er mál manna og ég hygg að menn segi það af einlægni að þeir vilji með öllum ráðum reyna að stuðla að því að atvinnuleysi aukist ekki. Í landinu er ekkert til, hvorki af hálfu ríkisstjórnarinnar né annarra, sem menn kalla hæfilegt atvinnuleysi. Íslendingar eru ekki þeirrar gerðar að þeir vilji una við atvinnuleysi.
    Hv. 10. þm. Reykv. virtist telja að menn væru að selja sama gripinn tvisvar þegar menn töluðu um að það ætti að draga úr verðbólgu og síðan lækka vexti og reyndar hefðu menn talað um það að lækka vextina líka í síðustu þjóðarsáttarsamningum. Staðreyndin er sú að þar sem ekki var fylgt eftir með aðgerðum í ríkisbúskapnum þá stóðust

slík loforð ekki, þau voru innantóm. Loforð um lækkun vaxta um leið og fjárhagur ríkisins er látinn lönd og leið fara ekki saman. Og það er nákvæmlega það sem við viljum ekki gera núna. Við viljum ekki lofa því að auka stórlega útgjöld ríkissjóðs og um leið lofa lækkandi vöxtum því að þá erum við að ávísa á svik innan aðeins örfárra mánaða hvað sem menn vildu gera og hvað sem hugur manna stæði til.
    Hv. 10. þm. Reykv. sagði líka að ríkisstjórnin hefði breytt forsendum fyrir því að samningar mættu nást. Ég legg í þetta allt aðra merkingu en hv. þm. Ég tel einmitt að ríkisstjórnin hafi með aðgerðum sínum lagt grunn að því að samningar geti náðst á grundvelli lágrar verðbólgu, lækkandi vaxta, stöðugs gengis og forsendu fyrir því að atvinnuleysi aukist ekki. Þetta er grundvallarforsenda sem ég vil ekki á nokkurn máta hvika frá. Það hefur aðeins borið á því að mínu viti í þessum umræðum að hv. stjórnarandstöðuþingmenn vilji blanda saman pólitískum áhugamálum sínum og viðhorfum og tengja þau um of stöðunni í kjaramálum. Ég tel það ekki vera sanngjarnt eða eðlilegt.