Frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 13:49:00 (4908)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í Morgunblaðinu í dag er að finna frétt á baksíðu þar sem haft er eftir aðstoðarmanni menntmrh., Ólafi Arnarsyni, að menntmn. sé í þann veginn að ljúka umfjöllun um frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Síðan er í þessari frétt gerð grein fyrir þeim breytingartillögum sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um. Nú vill svo til að í morgun var haldinn fundur í menntmn. og þar voru þessar breytingartillögur kynntar í nefndinni í fyrsta sinn. Sama morgun og þessi frétt birtist í Morgunblaðinu eru þessar tillögur lagðar fram í menntmn. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að sú spurning vaknar: Hver fer með löggjafarvaldið í þessu landi, hver er það sem á að fjalla um þessi mál og hvar? Menntmn. hefur frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna til meðferðar. Þar á vinnan og umræðan um þær breytingar sem menn vilja gera á frv. að fara fram. Ekki í Boston, en þar var fyrrnefndur aðstoðarmaður ráðherra að halda sína ræðu.
    Ég vil gera sterklega athugasemd við vinnubrögð eins og þessi og ég vil beina því til hæstv. forseta að hann komi þeirri athugasemd á framfæri við hæstv. menntmrh. sem hér er því miður ekki staddur. Mér finnst þetta vera óvirðing við Alþingi, mér finnst þetta vera óvirðing við löggjafarhlutverk Alþingis og mér finnst að þarna sé aðstoðarmaður ráðherra að grípa inn í mál með mjög óviðurkvæmilegum hætti.