Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 13:52:00 (4910)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Skýrsla sú sem ég fylgi hér úr hlaði um utanríkismál er viðameiri en áður. Það endurspeglar m.a. þá ótrúlega hröðu atburðarás og þær gagngerðu breytingar sem orðið hafa í alþjóðasamskiptum á undanförnum missirum. Það endurspeglar einnig að við Íslendingar, eins og aðrar þjóðir, erum í vaxandi mæli háðir samskiptum okkar og samningum við aðrar þjóðir að því er varðar afkomu okkar og velferð. Enn fremur má segja að það endurspegli vaxandi umsvif utanríkis- og utanríkisviðskiptaráðuneytisins í íslensku stjórnkerfi eftir að sú breyting varð að ráðuneytið tók við stjórn viðskiptastefnunnar. Í vaxandi mæli sjáum við að sá þáttur sem lýtur að samningagerð varðandi markaðsmál hefur æ meira gildi fyrir íslenskt atvinnulíf.
    Hafi einhvern tímann mátt finna þeim orðum stað að utanrrn. væri fílabeinsturn sýnist mér að þau orð séu úrelt, hafi þau nokkurn tímann átt við rök að styðjast. Ég hygg að þessi greinargerð um hið viðamikla svið utanríkis- og utanríkisviðskiptamálefna sanni það berlega.
    Virðulegi forseti. Ef við lítum til baka til þess tíma þegar við Íslendingar hófum samningagerð í félagskap annarra EFTA-þjóða um myndun hins Evrópska efnahagssvæðis snemma árs 1989 er auðsýnt að þær breytingar sem orðið hafa á heimsmyndinni frá þeim tíma eru ótrúlegar. Þær eru svo róttækar og gagngerar að við finnum ekki aðra hliðstæðu á okkar öld nema í kjölfar meiri háttar styrjaldarátaka. Berlínarmúrinn, tákn tvískiptingar Evrópu, og í vissum skilningi heimsins milli tveggja gerólíkra hugmyndakerfa og þjóðfélagskerfa, er fallinn. Ríki Mið- og Austur-Evrópu eru frjáls undan ánauð sovéskrar nýlendustjórnar. Þar hefur átt sér stað lýðræðisbylting. Þar fer nú fram einhver eftirtektaverðasta þjóðfélagstilraun sem við höfum orðið vitni að. Varsjárbandalagið, eitt voldugasta hernaðarbandalag heims, er horfið af vettvangi. Eystrasaltsríkin, sem við Íslendingar höfum tengst með sérstökum hætti, hafa endurheimt sjálfstæði sitt. Þýskaland sem var skipt í tvö ríki á ólíkum áhrifasvæðum, er endursameinað og hefur endurheimt forustuhlutverk með ótvíræðum hætti meðal þjóða á meginlandi Evrópu. Og síðast en ekki síst sjálf Sovétríkin, seinasta nýlenduveldið, er hrunið og á rústum þess eru risin fjöldamörg nýsjálfstæð fullvalda ríki sem nú eru að hasla sér völl í alþjóðlegu samstarfi.
    Það er fagnaðarefni að þessar einstæðu og sögulegu breytingar hafa að mestu leyti orðið með friðsamlegum hætti. Samt skulum við ekki líta fram hjá því að það hefur ekki orðið svo einhlítt sé vegna þess að víða hefur komið til harkalegra vopnaviðskipta, blóðsúthellinga og átaka sem kostað hafa fjölmörg mannslíf.
    Ef við lítum til Evrópu má greina í stórum dráttum ólík öfl að verki. Í álfunni vestanverðri sjáum við samrunaferilinn festa sig í sessi. Í álfunni austanverðri sjáum við við fyrstu sýn upplausn, sundurvirkni og tvístrun, þannig að ætla mætti að ólíkir kraftar væru að verki eftir sem áður í Evrópu.
    Ég sagði áðan að í austanverðri álfunni erum við nú vitni að einhverri merkilegustu þjóðfélagstilraun sem orðið hefur í manna minnum. Hún fer fram við einhver erfiðustu skilyrði sem hugsanleg eru vegna þess að viðskilnaður kommúnismans við þessi ríki er svo ömurlegur og svo hræðilegur að það eru engar ýkjur að segja að hann hafi skilið eftir sig sviðna jörð í bókstaflegum skilningi. Jafnvel harðvítugustu gagnrýnendur kommúnismans höfðu ekki hugarflug til þess að lýsa þeim ósköpum sem þar blasa við.
    Það má segja að efnahagskerfi þessara ríkja sé gersamlega í molum, framleiðslukerfið er í molum, samgöngukerfið er víða óvirkt, matvælaframleiðslan er í lamasessi þannig að víða blasir við matarskortur og reglulega koma upp ógnvekjandi forspár um meiri háttar hungursneyð. Stjórnkerfið gamla er hrunið, nýtt er ekki komið í staðinn. Þessi umskipti frá miðstýrðu efnahagskerfi, frá lögregluríki í átt til lýðræðisríkis, valddreifðs ríkis, réttarríkis eru svo erfið og munu kosta svo sársaukafullar breytingar og slíka félagslega áraun að í einu orði getum við sagt að þessi tilraun fari fram við skilyrði óendanlegrar óvissu. Væntingar fólks um skjótar breytingar hafa endað í vonbrigðum. Við fólki blasir stjórnlaus óðaverðbólga, vaxandi atvinnuleysi svo að nemur tugum milljóna einstaklinga, fátækt mikils fjölda íbúanna, sem flokkast langt undir nauðþurftarmörkum svo að flóttamannavandamál, sem jafnvel varðar vestanverða álfuna, er orðið að alþjóðlega viðurkenndu vandamáli. Allt þetta og síðan bætist við sá viðskilnaður hins kommúníska hagkerfis sem kalla má eitt samfellt umhverfisslys. Eini iðnaðurinn sem raunverulega var samkeppnisfær í einhverjum skilningi var vopnaiðnaðurinn. Það eina sem þetta þjóðfélagskerfi skaraði fram úr í var vígbúnaðarkapphlaup. En nú eftir hrun Sovétríkjanna hafa náðst stórkostlegir sögulegir samningar um meiri háttar afvopnun á öllum sviðum. Verið er að taka úr umferð og taka úr framleiðslu helstu verksmiðjur þessa vígbúnaðariðnaðar. Það er einnig verið samkvæmt samningsskuldbindingum að fækka hermönnum svo að nemur hundruðum þúsunda. Við blasa ógnvænleg vandamál um hver fari með stjórn á kjarnorkuvopnum á því landsvæði sem áður tilheyrði Sovétríkjunum. Við þetta bætast síðan viðkvæm, söguleg, erfið þjóðernisvandamál, bæði mál þjóðernisminnihluta og þjóða sem eru að endurreisa sjálfstæði sitt, jafnvel landamæradeilur. Með öðrum orðum hér er þjóðfélagsástand sem er mikilli óvissu undirorpið, sem er eldfimt, getur hvenær sem er leitt til meiri háttar hernaðarátaka og er þess vegna eitt af því sem ríki Vestur-Evrópu, í kjölfar endaloka kalda stríðsins og reyndar loka seinni heimsstyrjaldarinnar, verða að taka mikið tillit til.
    Það er þarna sem átakasvæðið í alþjóðamálum verður á næstu árum og það eru þau vandamál sem eru samfara þessum umskiptum sem munu reynast hvað vandasömust fyrir hið lýðræðislega samfélag, fyrir þjóðir Vestur-Evrópu og Ameríku og reyndar fyrir iðnríkin í heild sem gera verður þá kröfu til að leggi mikið af mörkum til þess að reyna að stuðla að því að þessi þjóðfélagstilraun mistakist ekki af þeirri einföldu ástæðu að þess er ekki að vænta að Vestur-Evrópa geti verið í framtíðinni sem vin í eyðimörk upplausnar og örbirgðar á hinu evró-asíska meginlandi. Þess vegna eru viðbrögð við þessu ástandi, frumkvæði að lausnum gagnvart þessu ástandi og samræmdum aðgerðum brýn og aðkallandi.
    Ef við lítum í vesturátt sjáum við að þróunin einkennist öðru fremur af vaxandi afli samrunaferilsins, af vexti og viðgangi og styrk Evrópubandalagsins. Það fengum við staðfest nýlega, nánar tiltekið hinn 7. febr. þegar fyrir lá staðfesting á hinu svokallaða Maastricht-samkomulagi sem felur í sér að Evrópubandalagið muni ekki bara nú í árslok koma á áætlunum sínum um innri markað heldur stíga skref í átt til aukins samruna sem að mínu mati hafa enn ekki verið metin af nægilegu raunsæi vegna þeirra áhrifa sem það mun hafa, ekki aðeins innan Evrópubandalagsins heldur á ríki utan þess. Í framhaldi af Maastricht munum við sjá á næstu árum Evrópubandalag sem hefur ekki aðeins skipulagt innri markað sinn án landamæra á grundvelli laga og reglna um fjórfrelsið heldur einnig komið á pólitískri einingu og um það er lýkur sameiginlegu varnarbandalagi auk þess sem innan fárra ára verður komið á eitt sameiginlegt myntbandalag með einum gjaldmiðli í stað þeirra sögulega þekktu gjaldmiðla Evrópuþjóðanna sem við þekkjum.

    Með þessu samrunaferli gera menn sér vonir um að tryggilega sé um hnútana búið, að ekki sé nokkur hætta á vopnuðum átökum eða styrjaldarátökum milli Evrópuþjóða en þeir sem kunnugir eru sögu Evrópu vita að saga þeirrar álfu hefur verið blóði drifin. Það er í fyrsta sinn í sögunni, og það er eftirtektarverð staðreynd, sem við getum sagt að um álfuna alla reyna menn að sameinast um sameiginlegt gildismat og sameiginlegar hugsjónir, um sameiginlega viðleitni til þess að koma á lýðræðislegu réttarríki sem byggi á mannréttindum þannig að um álfuna alla stefni menn að sameiginlegum markmiðum. Þetta hefur verið samningsbundið í hinum merku sáttmálum sem kenndir eru við Helsinki-sáttmálann og Parísaryfirlýsinguna. Það er einnig athyglisvert að hin nýfrjálsu ríki Mið- og Austur-Evrópu sem eru nýlega leyst undan oki kommúnismans lýsa því yfir hvert á fætur öðru að þau hafi það að markmiði í fyrsta lagi að sameinast Evrópubandalaginu, þótt það kunni að taka nokkurn tíma, og í annan stað hafa leiðtogar a.m.k. þriggja Austur-Evrópuríkja lýst því yfir fyrir hönd ríkisstjórna sinna að þeir vilji ganga í Atlantshafsbandalagið. Þessi þróun skapar vissulega ný vandamál en hún skapar einnig ný tækifæri. Hún er að nokkru leyti þversagnarkennd vegna þess að annars vegar er hér stórkostlegt tækifæri til þess að stöðva viti firrt vígbúnaðarkapphlaup, til þess að fækka í herjum, til þess að ná samningum um það að engin þjóð hafi yfir að ráða hernaðarmætti umfram eðlilegar varnarþarfir. Í þessu felst þess vegna dvínandi hernaðarógnun og fyrirheit um aukið öryggi og um friðsamleg samskipti við lausn ágreiningsmála. Hins vegar blasir við í austri svo alvarlegt efnahagslegt hrun, hætta á þjóðernisátökum, félagsleg áraun vegna þjóðfélagstilraunar sem getur leitt til ekki einasta djúpstæðra vonbrigða heldur örvæntingar og þess vegna orðið kveikja að vopnuðum átökum, jafnvel styrjöld við bæjardyr Vestur-Evrópu.
    Eitt einkenni enn þykir mér rétt að nefna. Við þessa þróun sem orðið hefur á síðustu árum eru á því vaxandi líkur að Bandaríkin, sem verið hafa eins konar vörsluaðili eða ábyrgðaraðili öryggis og friðar í Vestur-Evrópu, muni á næstu árum fjarlægjast Evrópu og jafnvel er hugsanlegt að hlutverki þeirra í Evrópu ljúki á næstu árum. Þetta gerist bæði vegna vaxandi krafna innan lands í Bandaríkjunum um það að Bandaríkin einbeiti sér meir að lausn vandamála heima fyrir sem og vegna þess að Evrópubandalaginu vex nú svo mjög fiskur um hrygg að eðlilegt má telja að það taki fyrst og fremst við hinu fyrrum bandaríska hlutverki sem frumkvæðisaðili og ábyrgðaraðili öryggiskerfis Vestur-Evrópu.
    Það er einnig ástæða til að nefna að þess eru nokkur merki að á það geti reynt í vaxandi mæli að samherjar á pólitíska sviðinu geti orðið keppinautar á viðskiptasviðinu, jafnvel þannig að til alvarlegra árekstra geti komið. Þá er ég annars vegar að vísa til Bandaríkjanna og hins vegar til Evrópubandalagsins og Japans. Ekki hvað síst vísa ég til þeirrar tilraunar sem nú fer fram til þess að koma á nýju heimsviðskiptakerfi í GATT-samningunum en því miður eru horfur á að það takist ekki í þessari lotu en afleiðingar af því gætu hraðað þeirri varhugaverðu þróun sem ég áður nefndi.
    Samhliða þessu, annars vegar dvínandi hernaðarógnun á grundvelli breyttra forsendna en hins vegar vaxandi óvissu um framtíðina þegar litið er til Austur-Evrópu, er einnig vert að hafa í huga að athygli hefðbundinna bandalagsþjóða okkar á stöðu og öryggi í norðanverðri álfunni mun trúlega fara minnkandi. Þessa gætir mjög t.d. í umræðum í Noregi um varnar- og öryggismál og á stóran þátt í því hvernig norsk stjórnvöld a.m.k. meta stöðu Noregs gagnvart Evrópubandalaginu og í vaxandi mæli Vestur-Evrópubandalaginu. Það sem er jákvætt í þessari þróun er að það er mun minni áhersla á hinn hernaðarlega þátt öryggismála, miklu meiri áhersla á hinn pólitíska þátt sem leiðir til samstarfs í alþjóðamálum en jafnframt að efnahagsmál, umhverfismál og jafnvel félagsmál verða æ fyrirferðarmeiri í alþjóðlegum samskiptum.
    Grundvallarvandamál hinna nýfrjálsu ríkja eru óvenju margslungin og viðamikil og krefjast þess að þjóðir Mið- og Austur-Evrópu axli þungar byrðar. Önnur ríki geta veitt mikilvægan stuðning til þess að greiða fyrir jákvæðri þróun en það er ekki síst á sviði efnahagsmála sem ríki Mið- og Austur-Evrópu vænta mikils af vestrænum ríkjum. Vestræn ríki hafa brugðist við með umtalsverðum stuðningi en það er greinilegt að hann er engan veginn nægilegur miðað við þau viðfangsefni sem leysa þarf. Núverandi aðstæður minna um margt þess vegna á árin eftir seinni heimsstyrjöld. Þá var þörfin brýnust að reisa Vestur-Evrópu úr rústum styrjaldarinnar. Nú er þörfin brýnust að reisa Vestur-Evrópu við úr rústum óstjórnar og miðstýringar kommúnismans. Þá var áberandi vonleysi og vonbrigði í Vestur-Evrópu eins og nú er að grafa um sig í álfunni austanverðri. Endurreisn eftirstríðsáranna varð árangursrík vegna einstaks framtaks í sögu alþjóðasamskipta, Marshall-áætlunarinnar, sem bar vott um óvenjulega stjórnvisku. Þetta einstaka framtak veitti örmagna efnahagslífi Evrópuríkja bolmagn til að endurheimta fyrri styrk. Í áætluninni fólst jafnframt siðferðilegur stuðningur við þjóðir Evrópu sem skipti þær ekki síður miklu máli. Ríkin í Mið- og Austur-Evrópu þurfa nú á hvoru tveggja að halda. Það er þörf á nýrri marshall-áætlun sem sniðin verði að þeim kringumstæðum sem nú ríkja í Mið- og Austur-Evrópu. Marshall-áætlun fyrir Mið- og Austur-Evrópu mundi kosta umtalsverðar upphæðir, jafnvel á bilinu 20--30 milljarðar dala að lágmarki á ári hverju fram eftir þessum áratug. Það er einungis á færi hinna öflugustu iðnríkja heims, Bandaríkjanna, Japans og Evrópubandalagsins, að bera uppi stærstan hlut þessa kostnaðar þótt önnur ríki þurfi að leggja þar fram sinn skerf eins og t.d. Norðurlöndin hafa reynt að gera sameiginlega að því er varðar t.d. Eystrasaltsríkin. Vissulega er hér um að ræða háar fjárhæðir en menn skyldu hafa í huga að þær eru engan veginn sambærilegar við þær fjárhæðir sem fóru í það að heyja kalda stríðið með því vitfirrta vígbúnaðarkapphlaupi sem það kostaði.
    Þessar einstæðu breytingar á alþjóðamálum sem ég hef hér stuttlega lýst kalla á margvísleg viðbrögð flestra þjóða og engin þjóð í okkar heimshluta kemst hjá því að bregðast við þeim með einum eða

öðrum hætti. Við leitumst við að finna ný samskiptaform. Þannig má t.d. nefna að Evrópuríkin hafa reynt í kjölfar Helsinki-ferilsins að koma sér upp fastastofnun. Ráðstefnan um samvinnu og öryggi í Evrópu er í raun og veru orðin stofnanabundin og hefur höfuðstöðvar í þremur höfuðborgum Mið-Evrópu. Eitt af þeim verkefnum sem við þurfum nú að takast á hendur er að koma þar á fót fastanefnd vegna þess hversu geysilega þýðingarmikil þessi málefni eru í hinu evrópska samstarfi.
    Atlantshafsbandalagið hefur brugðist við þessum kringumstæðum á margvíslegan hátt með róttækum breytingum á varnarstefnu, með frumkvæði í afvopnunarmálum, með því að opna dyr sínar fyrir pólitísku samstarfi við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu sem er stofnanabundið í Norður-Atlantshafsráðinu og þannig mætti lengi telja.
    Að því er okkur varðar hygg ég að við verðum að hafa það að meginmarkmiði að byggja brýr til Evrópu án þess þó að það verði til þess að veikja samstarf okkar við Bandaríkin. Við verðum að forðast í lengstu lög að lenda í þeirri stöðu að því er varðar öryggismál okkar að þurfa að velja í einhverjum skilningi milli Evrópu og Bandaríkjanna. Við eigum á þeim árum sem fram undan eru að freista þess að treysta öryggi okkar með því að taka þátt í því alþjóðlega samstarfi þar sem Atlantshafsbandalagið er kjölfestan, með því að taka til rækilegrar og jákvæðrar athugunar boð um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu, sem verða varnarsamtök Evrópuríkjanna, með því að vera virkir þátttakendur í samstarfinu innan Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, innan Atlantshafsráðsins og þannig mætti lengi telja.
    Virðulegi forseti. Þegar við lítum til baka til upphafsára lýðveldisins þegar lagður var grunnur að þeirri stefnu í utanríkis- og öryggismálum sem allar ríkisstjórnir á Íslandi hafa fylgt síðan getum við vel við unað þegar við metum árangur þeirrar stefnu. Öryggismál Íslands hafa verið í föstum skorðum og þjóðin hefur búið við stöðugleika og öryggi sem hefur gert henni kleift að byggja hér upp hraða sókn til bættra lífskjara og velferðarríkis í góðu samstarfi við grannþjóðir án þess að vera ofurseld hættu á hernaðarlegri ásælni. Vissulega var það svo að uppi voru með þjóðinni miklir flokkadrættir og mikil sundurþykkja þegar grundvöllurinn var lagður að þessari stefnu en þegar við lítum til baka þurfum við ekki að efast um að mikill meiri hluti þjóðarinnar lítur svo á að þarna hafi verið skynsamlega, viturlega og vel á málum haldið og vissulega stöndum við í þakkarskuld við þá framsýnu stjórnmálaleiðtoga sem lögðu grundvöll að mótun þessarar stefnu. Við getum í stuttu máli sagt að hún hafi hvílt á þremur meginstoðum. Meginatriðið var þátttaka okkar í Atlantshafssamstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins og því næst að treysta það samstarf frekar með tvíhliða varnarsamningi okkar við Bandaríkin. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands á tímabili kalda stríðsins olli því að Ísland lagði fram mikilvægan skerf í þessu samstarfi þjóða Evrópu og Ameríku og ég er ekki í nokkrum vafa um það að fenginni reynslu að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur gert meira en aðild þess að nokkrum öðrum alþjóðasamtökum til þess að tryggja áhrif Íslendinga á alþjóðavettvangi hvenær sem eftir þurfti að leita. Þarna var um að ræða samstarf sextán ríkja á jafnréttisgrundvelli. Með þessu samstarfi höfðu Íslendingar greiðan aðgang að voldugustu forustumönnum grannþjóða þegar á þurfti að halda.
    Önnur meginstoð þessa samstarfs hefur verið Norðurlandasamstarfið þótt annars eðlis sé. Það á rætur sínar til sögulegra og menningarlegra erfða Norðurlandaþjóðanna. Það er ekki eins mikilvægt þegar við lítum til hins viðskiptalega þáttar, en samstarfið er samt sem áður afar víðtækt og óvenjulegt og hefur vissulega skilað Íslendingum verulegum ávinningi. Þar nefni ég bara sem dæmi samstarf okkar að því er varðar norræna vinnumarkaðinn.
    Þá er einnig þess að geta að þegar Norðurlandaþjóðirnar koma saman sameiginlega fram á alþjóðlegum vettvangi eru áhrif þeirra meiri en ella. Ég hygg að það hafi ítarlega verið kannað að stuðningur við norrænt samstarf á sér djúpar rætur með okkar þjóð og það væri mikil eftirsjá að því ef við horfðum til þeirra tíma að það væri víkjandi eða breytti um inntak.
    Þriðja meginstoðin í okkar utanríkis- og öryggisstefnu hefur verið Evrópusamstarfið, annars vegar innan Atlantshafsbandalagsins að því er varðar samstarfið á sviði öryggismála og hins vegar og í vaxandi mæli á undanförnum árum samstarf við Evrópuríkin til þess að gæta viðskiptahagsmuna þjóðarinnar. Það hefur fyrst og fremst farið fram innan Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, með fríverslunarsamningum Íslands við Evrópubandalagið frá því á áttunda áratugnum og nú á síðustu þremur árum hefur það birst sem eitt meginverkefni Íslendinga á alþjóðavettvangi þar sem eru samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið.
    Nú er það svo að hin gerbreytta heimsmynd sem áður er lýst hefur m.a. í för með sér að þegar hafa orðið breytingar sem snerta þessar þrjár meginstoðir íslenskrar utanríkisstefnu eða færa má sterkar líkur að því að þær breytingar verði jafnvel meiri í framtíðinni.
    Lítum fyrst aðeins á Atlantshafssamstarfið. Um það er ekki mikill ágreiningur að Atlantshafsbandalagið er árangursríkasta varnarbandalag sem uppi hefur verið í sögunni á hvaða mælikvarða sem það er metið. Það hefur tryggt Vestur-Evrópuþjóðunum það öryggi sem dugði þeim til þess að byggja hér upp eftirsóknarvert þjóðfélag, lýðræðislegt þjóðfélag sem tryggði þegnum sínum ákjósanleg lífskjör. Það hefur jafnframt staðið vörð um það gildismat sem nú fer sigurför um heiminn, þ.e. gildismat sem birtist í þjóðfélagsmálum í formi viðurkenningar á mannréttindum, á nauðsyn þess að halda uppi réttarríki, á viðurkenningu á valddreifingu, á yfirburðum markaðskerfis o.s.frv.
    Það er þess vegna nokkuð þversagnarkennt þegar því er haldið fram að að sumu leyti kunni Atlantshafsbandalagið að verða fórnarlamb sinnar eigin velgengni eða árangurs, að það geti hugsanlega jafnvel orðið upphafið að endalokum þess. Hér er ég ekki að vísa til einhvers sem er orðinn hlutur, ég er einungis að hafa uppi orð um það að samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins geti breyst í grundvallaratriðum. Þá á ég annars vegar við það að Bandaríkin kunni í vaxandi mæli að draga sig til baka frá vettvangi Evrópumála sem vörsluaðili evrópsks öryggis og hins vegar vísa ég til þeirrar þróunar sem líkleg er í kjölfar Maastricht-samkomulagsins að Vestur-Evrópubandalagið verði í vaxandi mæli ekki aðeins evrópsk stoð innan Atlantshafsbandalagsins heldur hugsanlega sjálfsætt varnarbandalag þannig að Atlantshafssamstarfið breyti um eðli, það verði kannski fyrst og fremst fólgið í tvíhliða samskiptum þessara tveggja meginblokka, annars vegar Bandaríkjanna-Kanada, hins vegar Vestur-Evrópusambandsins sem verði varnarbandalag Vestur-Evrópuþjóðanna. Þá er hætt við því að þær þjóðir sem þarna eru í milli finni fyrir því að áhrif þeirra minnki nema því aðeins að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir. Þess vegna vil ég vekja athygli á því að nú er tímabært fyrir okkur að taka afstöðu til Vestur-Evrópusambandsins og að því máli er vikið sérstaklega í skýrslunni, bæði í inngangskafla hennar og eins í sérstakri greinargerð sem fylgir sem fylgiskjal þar sem gerð er grein fyrir sögulegri þróun, horfum á þróun í framtíðinni og starfsháttum bandalagsins eftir því sem best er um það vitað.
    Ég vil vekja athygli á því að í kjölfar Maastricht-samkomulagsins var eftir því leitað að þau þrjú ríki Evrópubandalagsins sem ekki eiga þar aðild breyti þeirri stefnu sinni og gerist fullgildir aðilar. Jafnframt var samþykkt að gefa þeim þremur ríkjum sem eru í Atlantshafsbandalaginu en utan Vestur-Evrópubandalagsins, Íslandi, Noregi og Tyrklandi, kost á því að sækja um aukaaðild. Þessu erindi hefur verið formlega komið á framfæri við íslensk stjórnvöld í bréfi formanns bandalagsins, Hans-Dietrich Genschers, og því hefur verið svarað jákvætt að minni hálfu en við bíðum eftir því að vinnu við skilgreiningu á viðeigandi málsgrein Maastricht-yfirlýsingarinnar um réttindi og skyldur sem þessu tengjast verði fulllokið. Við stefnum að því að jákvætt svar liggi fyrir og umsókn verði afgreidd fyrir lok ársins.
    Aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu mundi ekki einungis vega upp á móti breytingum á stöðu landsins vegna breyttra starfshátta Atlantshafsbandalagsins heldur einnig tengja Ísland Evrópusamstarfinu á sviði öryggis- og varnarmála með hliðstæðum hætti og Evrópska efnahagssvæðið gerir á sviði utanríkisviðskipta. Atlantshafsbandalagið verður áfram sú meginstoð sem öryggi landsins hvílir á en með aðild að Vestur-Evrópusambandinu, Norður-Atlantshafssamvinnuráðinu og Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu er það stefna íslenskra stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum aðlöguð umskiptum í stjórnmálum Evrópu, a.m.k. í bráð. Þegar til lengri tíma er litið ber hins vegar að gæta að þróuninni í stjórnmálum Evrópu og hún tekur örum breytingum sem geta breytt stöðu mála aftur í veigamiklum atriðum.
    Á sömu forsendum og Atlantshafsbandalagið gegnir enn nauðsynlegu hlutverki til að tryggja öryggi Evrópu er brýnt að áframhald verði á varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Óvissan um þróun mála í Austur-Evrópu gerir það að verkum að grundvallarbreytingar á varnarsamstarfinu væru mjög óæskilegar. Hins vegar er ljóst að á næstu missirum og árum munu umsvif varnarliðsins hér á landi minnka, varnarliðsmönnum mun fækka í ljósi nýrra kringumstæðna. Samhliða slíkri fækkun er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að mæta atvinnuvandamálum sem upp munu koma, sérstaklega á Suðurnesjum, í kjölfar slíkra breytinga.
    Það er kannski talandi tákn um þessar breytingar að nú hefur verið ákveðið að höfðu samráði milli bandarískra og íslenskra stjórnvalda að ekki sé lengur þörf fyrir svokallaðar AWACS-ratsjárflugvélar hér á landi frá og með næsta sumri vegna breyttra aðstæðna í öryggismálum og á alþjóðavettvangi. Flugvélarnar, sem eru bandarískar, eru notaðar til þess að fylgjast með ferðum herflugvéla sem koma í heimildarleysi inn á íslenskt flugstjórnarsvæði. Nýju ratstjárstöðvarnar í hverjum landsfjórðungi munu geta sinnt reglubundnu eftirliti með aðstoð F-15 flugvéla sem enn eru á Keflavíkurflugvelli. AWACS-flugvélar geta komið aftur með stuttum fyrirvara ef öryggi og varnir landsins krefjast þess á hættutímum. Til að tryggja það verður áfram starfslið á Keflavíkurflugvelli sem sér um viðhald ýmiss konar búnaðar fyrir þessar vélar. Auk þess verða reglubundnar æfingar AWACS-véla áfram hér á landi.
    Þriðja meginstoð íslenskrar utanríkisstefnu hefur síðan tvímælalaust verið hið norræna samstarf. Það er ljóst að á því samstarfi munu verða gagngerar breytingar á næstu árum. Til marks um það er sú staðreynd að Norðurlandaþjóðirnar, aðrar en Danir, hafa nú breytt stefnu sinni í grundvallaratriðum að því er varðar aðild að Evrópubandalaginu. Svíþjóð og Finnland hafa þegar lagt fram ósk aðild og það er mat manna að niðurstaða Norðmanna, að lokinni þeirri athugun og umræðu sem nú fer fram, verði hin sama síðar á þessu ári. Það er einnig athyglisvert að að þýsku frumkvæði hefur verið myndað sérstakt Eystrasaltsráð sem tekur til Norðurlandaþjóðanna, Rússlands og þá sérstaklega Eystrasaltssvæðanna í Rússlandi, t.d. Sankti Pétursborgar-svæðisins, Eystrasaltsþjóðanna hinna nýfrjálsu og Póllands. Það hefur verið orðað svo að þarna megi kenna sögulegt fyrirbæri sem er hið endurreista Hansabandalag. Þótt þessi þróun sé á byrjunarstigi hefur mikil umræða farið fram um það að með þessari þróun sé Norðurlandasamstarfið að færast meira í áttina til skandinavísks-baltnesks samstarfs sem verði þá fyrst og fremst undirsvæði í Evrópubandalagi framtíðarinnar auk þess sem athygli hefur verið vakin á því að hér er einnig um að ræða vaxtarbrodd í austurpólitík þýska stórveldisins.
    Hvað svo sem mönnum sýnist um þessa þróun fer mikil umræða fram um það á Norðurlöndum að það sem hér hefur verið nefnt, sérstaklega aðild Norðurlandanna, þá án Íslands, og stofnun þessa Eystrasaltsráðs í nánu samstarfi við stórveldi svæðisins, Þýskaland og Rússland, muni breyta inntaki Norðurlandasamvinnunnar. Þeir sem þekkja til þess hversu mjög stjórnkerfi ríkjanna verða upptekin af samningum sínum við Evrópubandalagið og eftir það samstarfinu innan Evrópubandalagsins munu átta sig á að þetta verður það fyrirferðarmesta í samstarfi þessara ríkja. Vaxtarsvæðin eru að vissu leyti líka fyrir mörg þeirra í suður- og austurátt á Eystrasaltssvæðinu. Það hlýtur að sjálfsögðu að vekja upp spurningu um það hver verður hlutur jaðarsvæða eins og t.d. Íslands, Færeyja og Grænlands þegar þessi þróun er komin betur af stað.
    Þá er þess að geta að tengsl okkar við Evrópu, að fráskildum öryggisþættinum, þ.e. gæsla hagsmuna okkar á mörkuðum Evrópu sem fram hefur farið í EFTA og með samningunum um Evrópska efnahagssvæðið, eru með vissum hætti í verulegri óvissu. Sú staðreynd eða öllu heldur sú sýn að innan skamms verði allar EFTA-þjóðirnar, fyrir utan Ísland og Liechtenstein, orðnar umsækjendur að Evrópubandalaginu þýðir einfaldlega að Fríverslunarsamtökin EFTA, sem hafa verið ramminn utan um viðskiptasamstarf okkar við Evrópu, verða ekki til í óbreyttri mynd innan fárra ára. Og að því er varðar samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er fljótsagt að hversu umdeildur sem hann kann að vera hér á landi þá er aðalatriðið við þann samning það að sá samningur er alls ekki í höfn og á þessari stundu getur enginn fullyrt að hann sé okkur í hendi.
    Af því sem hér hefur verið sagt, virðulegi forseti, má ráða að grundvallarþættir íslenskrar utanríkis-, öryggis- og viðskiptastefnu, eins og við höfum rekið hana á undanförnum áratugum, eru verulegri óvissu undirorpnir. Það er fljótsagt að árið 1989 þegar við byrjuðum EES-samningana í tíð fyrrv. ríkisstjórnar undir forustu fyrrv. hæstv. forsrh., Steingríms Hermannssonar, þá var heimsmyndin öll önnur en við blasir nú þrátt fyrir það að hinn efnahagslegi veruleiki sé auðvitað í stórum dráttum sá hinn sami. Þótt skammt sé liðið frá árinu 1989 mælt í tíma þá virðist það órafjarri ef við skoðum það sögulega tímabil sem það fyrst og fremst lýsir. Með þessu á ég einfaldlega við það að EFTA-þjóðirnar voru á þeirri stundu engan veginn undir það búnar eða reiðubúnar til þess að líta á framtíð sína sem fullgildir aðilar að Evrópubandalaginu, með einni undantekningu þó, þar sem var Alparíkið Austurríki. Það sem auðvitað bar hæst var fyrst og fremst að þessi ríki höfðu fylgt hlutleysisstefnu í alþjóðamálum. Sviss er auðvitað hinn sígildi höfundur hlutleysisstefnu sem gekk jafnvel svo langt að eiga ekki aðild að Sameinuðu þjóðunum. Það er beinlínis einn af hornsteinum ríkisins í Sviss, auk þess sem þeir hafa byggt sína viðskiptastefnu með góðum árangri gagnvart umheiminum á því að vera utan bandalaga.
    Að því er varðar önnur ríki þá voru kannski önnur sjónarmið í forgrunni, þ.e. annars vegar stjórnarskrárákvæði og tregða á því að taka þátt í því að deila fullveldi sínu með alþjóðasamtökum sem byggðu á þeim grundvelli og svo hins vegar, eins og í tilviki Íslendinga og að nokkru leyti Norðmanna, fyrst og fremst fastheldni við auðlindastefnu viðkomandi ríkis.
    Að því er varðar þau sjónarmið sem réðu Evrópubandalagsmegin þá var það viðtekin skoðun að afstaða Evrópubandalagsins á þessum tíma væri að það vildi gjarnan efna til samninganna um Evrópskt efnahagssvæði vegna þess að ríkjandi sjónarmið var að það vildi ekki og taldi sig ekki reiðubúið til þess að veita nýjum ríkjum viðtöku. Þá geisaði deilan um það hvort ætti að hafa forgang innan Evrópubandalagsins að dýpka bandalagið, að breyta stofnanaramma þess, að einbeita sér að framkvæmd innri markaðarins og næstu áföngum varðandi aukinn samruna á pólitíska sviðinu og viðskiptasviðinu eða að þenja svæði bandalagsins út og það var hið fyrrnefnda sjónarmið sem var ráðandi.
    Eftir Maastricht þegar þessar breytingar eru áorðnar hafa þau sjónarmið breyst þannig að saman fer annars vegar að hinar pólitísku forsendur sem Evrópubandalagið lagði til grundvallar samningunum um EES hafa breyst og hinar pólitísku forsendur sem EFTA-ríkin lögðu til grundvallar vilja sínum til samningsgerðar um EES hafa breyst að því er varðar meiri hluta þessara ríkja.
    Allt eru þetta auðvitað með einum eða öðrum hætti viðbrögð lítilla þjóða, fámennra þjóða, við breytingum sem orðið hafa í hinum stóru dráttum heimsmyndarinnar, þ.e. þetta eru viðbrögð við falli Sovétríkjanna. Það er erfitt að skilgreina hlutleysi löngum en það er athyglisvert hversu þjóð eins og Svíþjóð sem fylgt hefur og lagt slíka höfuðáherslu á hlutleysi, haft það sem aðalsmerki alþjóðastefnu sinnar, var fljót að falla frá þeirri hefð og lýsa því yfir að Svíþjóð væri reiðubúin til þess að ganga í Evrópubandalagið án skilyrða í ljósi þess að þeir eru þar að ganga í það sem fyrirsjáanlega er sameiginlegt varnarbandalag með þeim skuldbindingum sem í því felst.
    Ef menn líta á stöðu Finnlands þá er það mat manna að ákvörðun Svía um að leita inngöngunnar hafi strax haft veigamikil áhrif vegna þess hve náin viðskiptatengsl landanna eru, hversu ríkir hagsmunir eru þar í húfi, en meginástæðan hafi kannski verið sú að Finnar hafi viljað nýta tímann og tækifærið til þess að varpa akkeri í öryggisbandalagi vestrænna ríkja á þeim tíma þegar umskiptin eiga sér stað í Rússlandi en líka í ljósi þess að sú þjóðfélagstilraun sem þar fer fram er svo mikilli óvissu undirorpin og þeir treysta því varlega hver niðurstaðan verður þar þegar til lengri tíma er litið.
    Ef við lítum til Noregs þá er um margt athyglisvert fyrir okkur að fylgjast með þeirri miklu umræðu sem þar fer fram um stöðu Noregs í heiminum í ljósi þessarar breyttu heimsmyndar. Ég vil vekja í því efni athygli á tvennu. Annars vegar eru þær áhyggjur sem stjórnvöld í Noregi hafa af því að Noregur verði viðskila við hina norrænu samvinnu og kjarna hennar og inntak. Í athyglisverðri ræðu sem utanríkisráðherra Noregs, Torvald Stoltenberg, flutti þegar hann lagði fram skýrslu til Stórþingsins, þann 10.

febr. sl., sagði hann eftirfarandi um horfurnar að því er varðar norræna samvinnu í ljósi þess að Noregur yrði viðskila við hin ríkin sem væru á leiðinni í EB. Hann segir þar, með leyfi forseta:
    Við verðum að viðurkenna að hin nýja staða getur ekki einungis leitt til þess að norræn samvinna hverfi í skuggann heldur að upp rísi nýir veggir og múrar og ný fjarlægð milli hinna norrænu landa, þ.e. milli þeirra sem eru innan og utan Evrópubandalagsins. Aðild Svía og Finna mun takmarka möguleika fyrir umfangsmikið norrænt samstarf utan Evrópubandalagsins, einnig á þeim mörgu sviðum sem Evrópubandalagssamstarfið tekur til. --- Í framhaldi af þessu víkur norski utanríkisráðherrann að þeirri niðurstöðu forsætisráðherra Norðurlanda að setja upp sérstakan starfshóp til þess að rannsaka horfur á breytingum á hinu norræna samstarfi í ljósi gerbreyttra kringumstæðna allt í kringum okkur.
    Virðulegi forseti. Það sem ég hef sagt nægir til að sýna að flest er í heiminum hverfult og samstarf Íslendinga við aðrar þjóðir er mjög breytingum undirorpið þótt ofmælt væri að draga upp mynd af því að við blasti innan tíðar einangrun Íslands, það er ekki mín skoðun. En viss hætta er á því að við verðum viðskila við samstarf sem við höfum hingað til talið mikilvægt ef ekki verður sérstaklega við brugðist. Við erum með öðrum orðum að meta hvaða áhrif breytingar á hinu hefðbundna samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins munu hafa í framtíðinni og bregðast við því. Við hljótum að leggja raunsætt mat á þær breytingar sem eru fyrirsjáanlegar í norrænu samstarfi og bregðast við þeim og við hljótum að viðurkenna staðreyndir um það að EFTA-samtökin eru innan tíðar á útleið og við hljótum að meta hvort það hefur einhver úrslitaáhrif á okkar stöðu eða ekki. Og sérstaklega hlýtur það að verða íslenskum stjórnvöldum mikið áhyggjuefni að samningurinn, sem við höfum verið að reyna að gera við Evrópubandalagið í þrjú ár, er enn ekki í höfn og við getum þess vegna ekki slegið því föstu að við getum byggt á honum með varanlegum hætti tengsl okkar við Evrópubandalagið. Ég vil í þessu samhengi engu að síður, virðulegur forseti, láta það koma hér fram að varðandi bjartsýna skoðun ýmissa leiðtoga Norðurlandaþjóða, og þá vísa ég t.d. til ítrekaðra yfirlýsinga af hálfu Svía um að þeir hafi einhver fyrirheit stjórnmálaleiðtoga í Evrópubandalaginu um að þeir geti farið hraðferð inn í Evrópubandalagið og þykjast mega treysta því að þeir verði þar fullgildir meðlimir strax árið 1995, að það er valt að treysta slíkum fyrirheitum.
    Ég held að okkur væri öllum hollt sem tekið höfum þátt í samstarfi EFTA-þjóðanna og samningum við Evrópubandalagið að líta aðeins til okkar eigin reynslu. Reynsla okkar er sú að þrátt fyrir þriggja ára linnulaust samningaþóf er þessum samningum að forminu til lokið en staðfestingu þeirra er alls ekki lokið. Við höfum staðið frammi fyrir því hvað eftir annað að hafa haft rökstudda ástæðu til að ætla að samningarnir væru í höfn. Það gerðist fyrst þegar forseti ráðherraráðs Evrópubandalagsins lýsti því yfir á miðju sumri fyrir ári að pólitísk lausn væri fengin í hinar erfiðu deilur um sjávarútvegsstefnuna. Þau orð hans voru gerð ómerk fáeinum dögum síðar af öðrum aðilum í bandalaginu. Í annan stað skulum við minnast þess að samningum var lokið þann 22. okt. á sl. hausti svo að ekki fór milli mála, ekki einasta samkvæmt yfirlýsingum og fréttatilkynningum heldur handsölum og heillaóskum samningsaðila fyrir hönd ríkjanna nítján. Það liðu nokkrar vikur þangað til, samkvæmt kröfum Evrópuþingsins, að framkvæmdastjórnin skipti um stefnu og vísaði þessu máli til úrskurðar eða til álitsgerðar dómstólsins sem síðan komst að þeirri niðurstöðu að ráðherraráðið hefði farið út fyrir umboð sitt og samningarnir stæðustu ekki Rómarsáttmálann. Þá var því lýst yfir og það er þriðji atburðurinn í þessu að þetta væru minni háttar tæknileg mistök af hálfu Evrópubandalagsins og að þeim yrði fljótlega kippt í liðinn. En þegar Íslendingar tóku aftur við forustu í EFTA eftir áramótin kom á daginn að tillögugerð Evrópubandalagsins var lítil sem engin önnur en úrslitakostir um að hlíta bara dómsúrskurði Evrópudómstólsins þannig að það kostaði okkur aftur ómælda vinnu og samráð við okkar bandalagsþjóðir og ráðherraráðið að leggja fram, móta og fá fram stuðning við tillögur um nýja lausn að því er varðaði dómstólsþáttinn. Og sú niðurstaða var ekki fyrr fengin en Evrópubandalagsþingið í Strassborg ályktaði enn og óskaði eftir því að þessari niðurstöðu yrði enn á ný vísað til Evrópudómstólsins og enn á ný skipti ráðherraráðið um skoðun á því sem það hafði áður yfir lýst og fór að þeim ráðum. Nú fyrir nokkrum dögum lýsti laganefnd Evrópubandalagsþingsins því yfir að hún teldi að þetta samkomulag stæðist enn ekki hinn rómaða Rómarsáttmála, hún taldi enn rétt að þeir sem gæta rétttrúnaðarins í því musteri hafi seinasta orðið um það hvort þessir samningar geti staðist. Við höfum hvað eftir annað heyrt yfirlýsingar talsmanna öflugra pólitískra hópa á Evrópuþinginu í Strassborg sem hafa lýst því yfir að þeir hafi horn í síðu þessara samninga. Þeir hafa aðallega byggt það á rétttrúnaðarsjónarmiðum um stofnanarammann og dómstólana. Við skulum átta okkur á því að áður en þessi samningur er í höfn þarf hann að fá staðfestingu í nítján þjóðþingum fyrir utan Evrópubandalagsþingið. Það fer ekkert á milli mála að það eru öfl innan Evrópubandalagsins sem eru andvíg þessum samningum og eru líkleg til þess að bregða fæti fyrir hann ef þau geta.
    Samningsaðilar sem hafa orðið fyrir þessari reynslu af samningsaðilanum hljóta að álykta einfaldlega einn hlut: Það er varlegt að treysta því, þótt það sé endurtekið af hálfu pólitískra leiðtoga, að það sé enn pólitískur vilji fyrir því að keyra þetta í gegn, í ljósi þess að það er enginn einn aðili innan Evrópubandalagsins sem ræður för. Við erum hér að fást við annars vegar ráðherraráðið, sem í stórum dráttum sinnir almennri pólitískri stefnumörkun, sem síðan þarf að fela framkvæmdastjórninni samningsumboð, sem er síðan háð einstökum aðildarríkjum og hagsmunaaðilum innan einstakra aðildarríkja, sem síðan þurfa að tryggja sig gagnvart Evrópubandalagsþinginu og gera það m.a. með því að leita mjög oft og iðulega á náðir Evrópudómstólsins til að tryggja það að Evrópubandalagið semji nú ekki af sér fjöreggið.

    Það er af þessum ástæðum og í ljósi þessara breyttu kringumstæðna sem það er eðlilegt að hér séu ræddar spurningar eins og þessar: Hefur hin hraða rás viðburðanna í alþjóðamálum hlaupið fram úr hugmyndasmiðum hins Evrópska efnahagssvæðis? Hefur Evrópska efnahagssvæðið í ljósi breyttra aðstæðna glatað tilgangi sínum? Höfum við varið þremur árum í þrotlausa samninga sem ekki er sýnt að skili árangri? Er Evrópska efnahagssvæðið aðeins áfangastaður fyrir flest EFTA-ríkin áður en þau leita inngöngu í Evrópubandalagið? Og er það haldbært þegar við lítum til framtíðar að Evrópskt efnahagssvæði fáist staðist sem tveggja stoða bygging sem hvílir annars vegar á stoð útvíkkaðs Evrópubandalags með 17 aðildarríkjum og 370 millj. íbúa og hins vegar á brúarstólpa sem saman stendur af Íslandi og Liechtenstein með innan við 300 þús. íbúa? Þetta eru spurningar sem eru á dagskrá. Og þetta eru spurningar sem við þurfum að svara. En þetta eru spurningar sem við getum ekki svarað einir vegna þess að við eigum svörin að verulegu leyti undir samningsniðurstöðunni.
    Virðulegi forseti. Nokkrir hv. þm. sem hraðlesið hafa skýrslu mína til Alþingis hafa greinilega misskilið hana á þann veg að stefnu núv. ríkisstjórnar hafi verið breytt, að nú hafi íslenska ríkisstjórnin fallið frá yfirlýstri stefnu sinni að róa öllum árum að því forgangsverkefni að ná fram samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að nú hafi kúrsinn verið tekinn á það að leggja fram umsókn af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar með hinum Norðurlandaþjóðunum um aðild að Evrópubandalaginu.
    Ég verð að taka það fram mjög skýrt og afdráttarlaust að ekkert af því sem stendur í skýrslunni rís undir þessari túlkun, ekki neitt. Þeir sem halda þessu fram geta ekki fundið þeim orðum sínum stað enda stendur það hvergi í þessari skýrslu. Það er þess vegna ástæða til að ítreka það að stefna íslensku ríkisstjórnarinnar er óbreytt og það er forgangsverkefni hennar að koma EES-samningunum í höfn. Og við höfum enn það mat að takist það geti samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið leyst brýnustu vandamál okkar í samskiptum við Evrópubandalagið á efnahags- og viðskiptasviðinu. Ekkert sem í skýrslunni stendur breytir þeim grundvallarstaðreyndum.
    Sá sem hér stendur ætti ekki að þurfa að fara um þetta mörgum orðum. Ég hef varið þremur árum í tíð nokkurra ríkisstjórna til að vinna að framgangi þessa máls. Og ég er þeirrar skoðunar að takist það að fá þennan samning staðfestan þá verði það engum rökum stutt að það starf hafi verið til einskis. Í ljósi þess sem ég sagði áðan um tímaþáttinn tel ég afar ólíklegt að jafnvel hinar þjóðirnar sem skipt hafa um stefnu og eru á leiðinni í EB nái þeim árangri árið 1995. Í ljósi þeirra tímamarka er alveg ljóst að ekkert getur komið í staðinn fyrir þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði fyrir EFTA-þjóðirnar í heild, alla vega til skamms tíma, til þess tíma sem það ella tekur þær að semja um og ná samningsniðurstöðu og staðfestingu á aðild sinni að Evrópubandalaginu. Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er í þeim skilningi, ekki aðeins fyrir Ísland heldur fyrir allar EFTA-þjóðirnar, öryggisnet, lágmarkstrygging sem forðar okkur frá þeim skakkaföllum sem það ella mundi þýða að einangrast frá innri markaðinum. Ég þarf ekkert að rökstyðja þetta með vísan til neinna staðreynda, þetta þekkja hv. þm. Þeir þekkja töflur og skífurit um hlut Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins í okkar útflutningi hvort heldur varðar sjávarafurðaútflutning eða útflutning í heild, gjaldeyrisöflun og hversu geysilega þýðingarmikið mál það er fyrir íslenskt atvinnulíf að ná tollfrjálsum aðgangi að þessum markaði.
    Hitt er svo alveg augljóst mál að við látum það ekki sem vind um eyru þjóta ef allar samstarfsþjóðir okkar leggja það mat á hlutina að í ljósi breyttra kringumstæðna dugi þessi samningur þeim ekki lengur. Við vorum sammála um það fyrir nokkrum árum að svo væri. Þessar samstarfsþjóðir hafa endurmetið forsendurnar og komist að annarri niðurstöðu og telja að hann dugi ekki lengur. Fyrst og fremst, þá vísa ég t.d. til umræðunnar eins og hún fer fram í Svíþjóð og Finnlandi, með þeim rökum að þótt lágmarksviðskiptahagsmunir séu tryggðir með aðild að innri markaðinum þá sé Evrópubandalagið svo breytingum undirorpið að þessar þjóðir vilji með aðild sinni tryggja sér hlutdeild í ákvörðunum að mótun þeirrar stefnu sem tekin verði í framtíðinni. Fyrir þjóð sem ætlar sér ekki þann hlut og telur vegna fámennis síns að hún eigi ekkert erindi til þess þá getur það vel verið að það sé mátuleg lausn að ætla sér ekki stærri hlut, það er frekar metnaðarlítil sýn á hlutverk og stöðu þjóðarinnar.
    Þegar ég segi að íslenska ríkisstjórnin hafi óbreytta stefnu vil ég árétta þetta: Þrátt fyrir þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir lítum við svo á að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu sé lykilatriði, þar sé að finna kjölfestuna að öryggispólitík þjóðarinnar. Við gerum okkur grein fyrir því að samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins er að breytast og viljum bregðast við því með því að tryggja okkur aukaaðild innan Vestur-Evrópusambandsins. Við gerum okkur grein fyrir því að framtíð Skandinavíu á baltnesku undirsvæði í EB mun þýða að við fjarlægjumst inntak og kjarna norrænnar samvinnu. En við viljum samt sem áður halda í það sem eftir verður af henni vegna þess að við teljum okkur það mikilvægt af vel þekktum sögulegum og menningarlegum ástæðum. Við teljum að með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði getum við tryggt brýnustu hagsmuni okkar að því er varðar markaðsaðgang og viðskiptasamband við okkar stærsta og öflugasta markaðssvæði og það sé enn sem fyrr svo að ekkert annað geti komið í staðinn fyrir þennan samning. Í ljósi mats á hagsmunum Íslands, sérstöðu þjóðarinnar, fámennis þjóðarinnar og einhæfni okkar atvinnulífs erum við þeirrar skoðunar að þetta geti orðið á þeim árum sem við sjáum fram í tímann sæmilega haldbær bygging til þess að vera í, þ.e. sæmilega traust forsenda fyrir okkar utanríkispólitík. Við erum þeirrar skoðunar jafnframt að ef þetta yrði niðurstaðan yrðum við að freista þess að treysta þessa sérstöðu okkar enn frekar með því í raun og veru að leita með virkum hætti eftir fríverslunarsamningum við Bandaríkin og einnig Kanada sem gæti þá þýtt það að við hefðum fríverslunarviðskipti bæði við austur og vestur og að Ísland væri jafnálitlegur kostur t.d. fyrir fjárfestendur í nýjum greinum atvinnulífs eins og þau ríki bjóða upp á sem eiga beina aðild.
    Að því er tímaþáttinn varðar er ljóst að breytingar sem eru að verða munu taka nokkur ár og þess vegna vil ég leggja á það áherslu að þótt við eigum að ræða alla kosti sem þessi þjóð stendur frammi fyrir opinskátt og hispurslaust þá skulum við einnig átta okkur á því að það er engin nauðhyggja á bak við þetta og það er enginn nauðugur einn kostur og ekkert sem rekur á eftir okkur að taka í skyndi einhverjar ákvarðanir að illa grunduðu eða óathuguðu máli.
    Hitt er svo rétt, virðulegi forseti, og það hefur vakið nokkra athygli í þessari skýrslu að ég hef talið bæði æskilegt og reyndar skylduverk mitt sem utanrrh. við þessar aðstæður að vekja athygli þingmanna, stjórnmálamanna og þjóðarinnar allrar á því að það er ekki alveg séð fyrir endann á því að sú stefna sem ég hef hér lýst haldi. Þá á ég fyrst og fremst við einn hlut. Ég ber vissulega sjálfur ugg í brjósti fyrir því að svo geti farið, að svo hrapallega geti til tekist að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið nái ekki staðfestingu í tæka tíð. Fari svo er alveg augljóst mál að við verðum að skoða okkar hug, líta aftur yfir okkar kosti og þá er afar óhyggilegt að þurfa að gera það í einhverri tímaþröng og af skyndingu. Ég taldi þess vegna bæði rétt og skylt að draga athygli þingheims og þjóðar að því að við þurfum núna, eins og aðrar þjóðir sem standa frammi fyrir svipuðum kostum, að hefja umræðu um það og ég tel það nánast skylduverk íslenska stjórnkerfisins að láta fara fram ítarlega skoðun á nokkrum þáttum þessa máls sem hingað til hafa ekki fengið nógu vandlega skoðun. Þróunin er afar ör meðal allra helstu samstarfs- og viðskiptaþjóða okkar og staða okkar í samfélagi þjóðanna breytist vegna þess, jafnvel þótt við teljum okkur standa í stað. Það er ekki hægt að halda í horfinu með því að halda að sér höndum eða loka augum fyrir breyttum aðstæðum allt í kringum okkur. Þetta þýðir hins vegar ekki að aðeins ein leið sé fær eða að einhver nauðhyggja hreki okkur nauðuga viljuga í átt til EB-aðildar. EB-aðild er einfaldlega þess eðlis að henni fylgja kostir og alvarlegir gallar og grundvallaratriði er þess vegna, ef við viljum hafna þeim kostum, að gera okkur rækilega grein fyrir hverjir þeir eru, allt út frá einni einfaldri spurningu: Hvernig er íslenskum hagsmunum best borgið? Versta niðurstaðan væri auðvitað einangrun frá hefðbundnum samstarfsaðilum. Þótt ljóst sé að samstarf okkar við grannþjóðir, hvort sem er innan Norðurlandaráðs eða Atlantshafsbandalagsins, eigi eftir að breytast verulega á næstunni er ekki ástæða til að óttast einangrun, þ.e. ef forsendan að EES-samningurinn nái fram að ganga stenst. Samningurinn tryggir okkur aðgang að mörkuðunum. Hann er okkur lífsnauðsynlegur. Ef hins vegar EES-samningurinn nær ekki fram að ganga þá er okkur sá kostur fyrir hendi að skoða stöðu okkar að nýju og það er ekki nægilegt svar í því viðfangi að segja að þá leysum við málið bara með tvíhliða samningum vegna þess að hvort tveggja getur gerst ef við ætlum á annað borð að draga upp mynd af því sem verst gæti hent að EES-samningurinn verði ekki staðfestur og hitt að eftir að hin löndin hafa náð inngöngu í Evrópubandalagið þá blasir það náttúrlega við þótt við lítum svo á að samningurinn haldi, ég segi: jafnvel þótt samningurinn héldi og yrði staðfestur, þá stöndum við frammi fyrir því að að einhverjum árum liðnum verða teknir upp samningar að nýju að því er varðar stofnanaþáttinn. Sjónarmið okkar er að sjálfsögðu að við hljótum að halda öllum þeim réttindum sem okkur eru tryggð gagnvart þessum samningi, en ástæða er til þess að hafa nefnt það að samningurinn var auðvitað gerður sem fjölþjóðlegur samningur sjö ríkja plús tólf og á forsendu um jafnvægi samingsins. Ef til endursamninga kemur að einhverju leyti þá skulum við ekki loka augunum fyrir þeim kröfum sem aðrar þjóðir hafa lagt fram með sínum fórnarkostnaði það mikið inn í þennan samning að óbilgjarn samningsaðili gæti krafið okkur um það að sæta harðari kostum en við fengum í þessum EES-samningi þótt það hafi lítt verið metið hér af ýmsum hagsmunaaðilum.
    Önnur Norðurlönd meta það svo að nú sé tækifæri til þess að ganga í EB sem ekki gefist aftur. Aðgönguskilyrðin að þeirra mati herðist eftir því sem á líður, ekki sé vænlegt að fylgja Austur-Evrópuríkjunum í samningaviðræðum og auðveldara verði að sveigja EB að norrænum hagsmunum og sjónarmiðum innan frá nú en síðast þegar endurskoðun stofnana er lokið. Það er ríkjandi viðhorf í hinni norrænu umræðu að pólitískur meðbyr og möguleikar til tilslakana af hálfu EB í mestu hagsmunamálum þeirra væru meiri núna í samfloti Norðurlandanna en óvíst ella hvort það dygði síðar til að fá viðunandi kjör.
    Stjórnarandstæðingar hafa látið að því liggja að könnun á afleiðingum aðildar sé óþörf, svo grannt hafi þessi mál verið skoðuð á undanförnum árum í EES-samningunum. En það vita þeir best sem að þessum samningum hafa staðið hversu mikið regindjúp er staðfest milli EES-samningsins annars vegar og aðildar að EB hins vegar. Mikil og góð þekking á innviðum Evrópubandalagsins hefur vissulega skapast í íslenska stjórnkerfinu við þessar viðræður en áherslan hefur allan tímann verið á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og því sem fylgir ákvæðum hans. Veigamiklir þættir sem fylgja EB-aðild hafa því ekki verið kannaðir og ég vil nefna nokkra þeirra sem eru dæmi um það sem ég er að meina þegar ég segi að við þurfum að kanna nokkra þætti betur en gert hefur verið hingað til.
    Fyrsta mál á dagskrá er að sjálfsögðu hin sameiginlega sjávarútvegsstefna EB. Hún á sér auðvitað enga formælendur hér á landi og það er að vonum og hún sætir vaxandi gagnrýni innan Evrópubandalagsins. Það liggur alveg ljóst fyrir að sú kjarnaafstaða er óbreytt, bæði að því er varðar ríkisstjórnina, stjórnarflokkana og alla stjórnmálaflokka á Íslandi eftir því sem ég best veit að Íslendingar geta ekki gerst aðilar að Evrópubandalaginu að óbreyttri hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu eins og hún er framkvæmd. Það

hafa verið færð að því rök sem við eigum að hlusta á og kanna að hægt sé að tryggja forræði Íslendinga að því er varðar nýtingu fiskveiðiauðlindar okkar vegna þess hvernig viðmiðunarreglurnar eru varðandi úthlutun á kvótum. Þetta eru ekki nógu haldgóð rök vegna þess að það er einsýnt að mínu mati að Íslendingar mundu krefjast pottþéttra samningsskuldbindinga um ótvírætt forræði sitt að því er varðar auðlindina. Það er athyglisvert að í samningum okkar um Evrópska efnahagssvæðið, sem auðvitað má ekki blanda saman við aðildarsamninga, náðum við samningsmarkmiðum okkar sem flestir voru svartsýnir á, þ.e. við náðum markaðsaðgangi í stórum dráttum án þess að tengjast á nokkurn máta sameiginlegri fiskveiðistefnu EB, án þess að láta einhliða veiðiheimildir af hendi, án þess að fallast á kröfur um fjárfestingarrétt í auðlindinni. Spurningin er þess vegna sú, er þess nokkur kostur að Íslendingar næðu viðlíka samningsárangri og þeir hafa nú þegar gert ef á það væri látið reyna í aðildarumsókn?
    Annað sem ber að athuga er samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs. Á það er að líta að helstu samkeppnisþjóðir okkar eru Norðmenn og Danir. Danir eru þegar inni, Norðmenn hugsanlega inni innan fárra ára. Hverju breytir það að þeir væru orðnir fullgildir aðilar að því er varðar samkeppni við íslenskan sjávarútveg á þessum mörkuðum? Markaðsaðgangur okkar er að verulegu leyti tryggður, það er rétt. Þá er á það að líta að sjávarútvegur í þessum löndum hefði aðgang að sjóðum, samstarf í markaðsmálum o.s.frv. sem álitamál er hvort mundi styrkja hann þegar væri til lengri tíma litið. Ekkert af þessu hefur verið kannað enn þá því að sameiginleg sjávarútvegsstefna er utan EES-samningsins.
    Þriðja atriðið er að undirbúningur að sameiginlegum gjaldmiðli EB er langt kominn. EB-aðild mundi því nema burt því sem næst allt svigrúm íslenskra stjórnvalda til að hnika til gengisskráningu. Ekki hefur verið kannað hvaða áhrif þetta hefði á íslenskt efnahagslíf, enda er gjaldmiðilssamband ekki til umræðu innan EES.
    Enn eitt atriði. EB-aðild fylgdi að taka yrði upp sameiginlega tollskrá EB og sameiginlega viðskiptastefnu gagnvart löndum utan EB. Enn fremur mundu allar tolltekjur renna til sameiginlegra sjóða í Brussel. Tollstig EB og Íslands er áþekkt, en aðild mundi fylgja að taka þyrfti upp þær hömlur sem EB hefur sett í skjóli verndarstefnu sinnar, t.d. gagnvart varningi og innflutningi frá Japan eða öðrum löndum utan EB-viðskiptalöndum. Sameiginlegri viðskiptastefnu EB fylgir mikill fjöldi ákvarðana um tímabundna undirboðstolla, tollalækkanir, sérstök vildarkjör til handa þróunarríkjum o.s.frv. Ekki hefur verið kannað hvað þetta hefði í för með sér fyrir Ísland því að ekkert af þessu varðar EES-samninginn.
    Landbúnaðarstefna EB er einn viðamesti þáttur starfsemi þess og á því sviði mundu áhrif EB-aðildar verða veruleg. Það er athyglisvert að af lögum og reglum Evrópubandalagsins er einungis um þriðjungur sem varðar sjálft fjórfrelsið. Meginið af því sem eftir er fjallar um þessa hina alræmdu sameiginlegu landbúnaðarstefnu fyrir utan það að rúmlega 65% af sameiginlegum tekjum framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins fer í að halda uppi þeirri stefnu. Frjáls innflutningur landbúnaðarafurða frá EB mundi lækka verulega verð til neytenda en jafnframt gerbreyta samkeppnisstöðu íslenskra bænda. Á móti kemur aðgangur að millifærslukerfi landbúnaðargeirans innan EB sem t.d. Finnar telja að geti gert gæfumun að því er varðar stuðning landsbyggðarfólksins þar í landi við þennan væntanlega aðildarsamning. Ekki hefur verið borið við að kanna áhrif EB-aðildar á íslenskan landbúnað því að landbúnaður og viðskipti með landbúnaðarvörur eru algerlega utan samningssviðs EES. Að nokkru leyti þyrfti þessi könnun að tengjast horfunum að því er varðar GATT.
    Innan EB er langt á veg komin samræming allra óbeinna skatta og vörugjalda og er miðað við að almennt verði virðisaukaskattur um 15%. Virðisaukaskattur er einn gjöfulasti skattstofn íslenska ríkisins og veruleg lækkun hans hefði auðvitað í för með sér nauðsyn á uppstokkun á skattkerfi ríkisins. Þetta hefur ekki verið tekið fyrir sérstaklega í stjórnkerfinu vegna þess að samræming á sköttum er ekki partur af EES-samningnum. Hins vegar er augljóst mál að við erum dæmi um þjóð sem yrði að aðlaga sig að þessum breytingum einfaldlega af samkeppnisástæðum.
    Enn eitt atriði. Æ meira fé er nú varið til þess innan EB að tryggja tekjujöfnun milli ríkja í EB og miklum fjármunum er veitt til fátækari héraða í Suður-Evrópu. Við þetta hefur bæst í seinni tíð aðstoð til nýfrjálsra ríkja Austur-Evrópu eins og ég vék að í upphafi. Aðild fylgir, ef tillögur Delors um uppbyggingu fjárlaga EB verða samþykktar, að leggja yrði fram tæplega 1,4% þjóðarframleiðslu í sameiginlega sjóði. Hluti þessa fjár mundi renna aftur til Íslands beint eða óbeint ef Ísland gerðist aðili, en líklegt verður að teljast að Ísland mundi greiða til baka til EB meira en það fengi.
    EB-aðild mundi litlu bæta við aðstöðu Íslendinga samkvæmt EES-samningnum til þess að leita sér vinnu eða öðlast starfsréttindi innan EB. Opnast mundu möguleikar á ýmiss konar störfum á vegum EB og hægt yrði að beina einhverjum hluta EB-starfsins hingað heim, en EB-aðild mundi fylgja afnám landamæraeftirlits og veiting kosningarréttar og kjörgengis til EB-borgara búsettra hér í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi. Þetta er einnig atriði sem er utan EES-samnings og hefur þess vegna yfirleitt ekki verið rætt hér á landi.
    Þetta eru allt atriði sem hægt væri að fá tiltölulega skýr svör um frá embættismönnum. Hér er þess vegna í raun og veru um tæknilega forvinnu að ræða. Stóru spurningarnar um það hvað EB-aðild hefði í för með sér, hvort hún hefði í för með sér óviðunandi framsal fullveldis, eru auðvitað pólitísks eðlis og krefjast pólitískrar umræðu. Hún hefur einfaldlega ekki farið fram vegna þess að EES-samningurinn hefur ekki í för með sér neitt framsal löggjafarvalds, dómsvalds eða framkvæmdarvalds til sameiginlegra stofnana.
    Annars staðar á Norðurlöndum hafa stjórnvöld og samtök nú ýmist látið fara fram slíkar kannanir eða eru að því. Sjálfsagt er að mínu mati að fara ofan í saumana á því hverjar niðurstöður þeirra hafa verið, en það er engan veginn gefið að okkar niðurstöður verði hinar sömu. Auðvitað er hægt að færa fyrir því veigamikil rök að atvinnulíf þeirra er annars eðlis en okkar og önnur pólitísk rök sem vega þungt hjá þeim en hafa kannski minna vægi hér.
    Munurinn á Evrópubandalaginu og Evrópska efnahagssvæðinu er gífurlegur eins og margsinnis hefur verið rakið í umræðum úr þessum ræðustól. Það er þess vegna stórt stökk frá Evrópska efnahagssvæðinu til EB-aðildar. En gangi Evrópska efnahagssvæðið ekki upp samningslega verðum við að láta reyna á það hvaða aðrir kostir standa okkur til boða. Mikið hefur verið gert úr því í umræðum að undanförnu að ágreiningur sé uppi um þetta mál innan ríkisstjórnarinnar, hvaða stefnu eigi að fylgja í Evrópumálum án þess að menn hafi getað fundið rök fyrir því. Ég vil benda þeim sem hafa haft uppi þessi orð að lesa vandlega afar athyglisverða ræðu sem hæstv. forsrh. flutti á fundi með Samtökum áhugafólks um vestræna samvinnu þann 14. þessa mánaðar. Þar veltir hann upp sömu kostum og ég hef verið að gera hér að framan, bendir á að við séum að fjarlægjast grannþjóðir og samstarfsþjóðir eftir því sem EB-samstarfið eflist. Í ræðu þessari sýnir hæstv. forsrh. fram á að auðveldara væri að fá vissum hagsmunamálum okkar framgengt innan EB en utan en leggur á það höfuðáherslu að ástæða sé til að fara að með mikilli gát. Jafnframt er tekið fram að með EES-samningnum sé komist hjá einangrun þótt nauðsynlegt verði að sækja fastar á til að tryggja stöðu okkar. Áréttað er að EB-aðild hafi ekki verið hafnað, að staða okkar krefjist þess að allir kostir séu skoðaðir á þann hátt að við getum sjálf metið kostnað og ávinning af því hvernig við tengjumst umheiminum og tökum á okkur skuldbindingar. Þetta er nákvæmlega sá boðskapur sem skýrsla sú sem hér liggur fyrir Alþingi hefur að flytja mönnum.
    Virðulegi forseti. Ég hef varið alllöngum tíma til þess að ræða það hversu mjög fall Sovétríkjanna hefur skapað gerbreyttar forsendur fyrir samskiptum austurs og vesturs. Á sama tíma er óumflýjanlegt að nefna það þegar við ræðum samhengi alþjóðamála að önnur megingjá í heimsmálum, þ.e. bilið milli iðnríkja norðursins og milli fátækra þjóða hins svokallaða þriðja heims heldur stöðugt áfram að breikka. Þar í þeim átakapunkti er að finna mörg tilefni til átaka og ófriðar sem gæti nánast orðið átakasvæðið ef vel tækist til við uppbyggingu Austur-Evrópu á næsta áratug. Ástæða er til þess að minna á að ginnungagjáin í lífskjörum mælist t.d. á þann veg að þjóðartekjur á mann í löndum Norður-Evrópu eru að meðaltali um 50--80 sinnum hærri á mann en meðaltöl í löndum Asíu og Afríku. Ég vil nefna hér stuttlega fimm þætti þessa máls sem beinast að íbúum okkar heimshluta og þar með okkur Íslendingum.
    1. Fyrst er að nefna yfirstandandi viðræður um nýtt frjálsræði í alheimsviðskiptum, þ.e. hinar margræddu GATT-viðræður. Hömlur á milliríkjaviðskiptum hafa tafið stórlega fyrir iðnvæðingu þriðja heims landa. Þetta á einnig að nokkru leyti við um þjóðir Mið- og Austur-Evrópu. Um leið hafa útflutningsbætur á framleiðslu háþróaðs landbúnaðar Vesturlanda og margbrotið og rándýrt styrkjakerfi lamað matvælaframleiðslu og útflutning margra landa þriðja heimsins. Mörgum þessara landa kæmi því ekkert betur en aukið verslunarfrelsi og minnkandi niðurgreiðslur á vestrænni landbúnaðarframleiðslu. Rök hafa einnig verið færð að því að fáar aðgerðir gætu dregið jafnmikið úr hungri í heiminum og minnkandi útflutningsbætur á matvælaframleiðslu Vesturlandabúa.
    2. Við þurfum að ræða tilhögun þróunaraðstoðar við hinar fátækari þjóðir. Með þróunaraðstoð hafa ríki og félagssamtök á Vesturlöndum síðustu áratugi reynt að styðja að uppbyggingu á atvinnulífi, menntakerfi og heilsugæslu í löndum þriðja heimsins. Árlega er talið að Vesturlönd veiti um það bil 44 milljörðum Bandaríkjadala í þessu skyni. Athyglisvert er að nefna kannski eina tölu í samanburðinum. Talið er að á árinu 1990 hafi ríki fyrir botni Miðjarðarhafsins sem mest hafa verið áberandi á því átakasvæði varið um 35 milljörðum dala til vopnakaupa á árinu 1990 í samanburði við þessa 44 milljarða dala sem er allt framlag allra Vesturlanda til þróunaraðstoðar. Hungursneyð er í Afríku, örbirgð milljóna manna í Asíu og dýpkandi fátækt og andstæður í borgum Suður-Ameríku hefur á síðustu árum vakið aukna athygli og samúð almennings í löndum Evrópu en um leið hafa komið fram auknar efasemdir um gildi og árangur hefðbundinnar þróunaraðstoðar. Það er beinlínis fullyrt af mörgum fræðimönnum að stór hluti þróunaraðstoðar Vesturlanda sé til lítils eða einskis. Dæmi um stórfelldan árangur af einföldum aðgerðum er hins vegar líka að finna. Íslendingar veita mun minna fé til þessara mála en nokkur önnur þjóð á Vesturlöndum. Framlag á hvern íbúa á Íslandi er aðeins 1 / 10 -- 1 / 20 af því sem gerist í mörgum þeim löndum sem við berum okkur oftast nær saman við.
    Það er einnig athyglisvert að framlög almennings í frjálsum söfnunum er minni hér á landi en víðast annars staðar gagnstætt því sem stundum hefur verið haldið fram. Undan því verður því ekki vikist að þessi mál séu tekin til alvarlegrar athugunar. Ef þróunaraðstoð á ekki rétt á sér eða skilar takmörkuðum árangri er rétt að hætta slíkri aðstoð. Ef menn telja hins vegar að unnt sé að koma fátæku fólki raunverulega til hjálpar með skilvirkum og skynsamlegum hætti á niðurstaðan að vera sú að okkur beri skylda til að leggja meira af mörkum en við gerum nú.
    Þriðja meginatriðið, sem menn hafa stórauknar áhyggjur af og varðar þessa umræðu um alþjóðleg samskipti, er auðvitað gerspilling náttúrunnar, bæði í löndum þriðja heimsins sem og sums staðar á löndum hinna svokölluðu þróuðu ríkja. Sumar af fátækustu þjóðum heims byggja lönd sem eru ríkari og fjölbreyttari að náttúrufari en aðrir hlutar heimsins. Eyðing regnskóga og dýralífs hefur valdið áhyggjum um heim allan en viðbrögð við þeirri ógn sem heiminum öllum stafar af umhverfiseyðingu hafa verið miklu minni en þau þyrftu að vera. Þetta er ekki síst vegna þess að vandinn er einna mestur í þeim löndum þar sem fátækt knýr menn til að ganga ótæpilega á auðlindir og bannar þeim viðnám við spillingu umhverfis.
    Í framhaldi af þessum orðum vil ég einfaldlega segja að einn þáttur hinnar breyttu heimsmyndar er þær vonir sem menn nú gera sér um aukið hlutverk, aukið vald og aukin áhrif Sameinuðu þjóðanna, ekki síst til þess að láta að sér kveða á þessum vettvangi til þess að reyna að draga úr því ginnungagapi sem er á lífskjörum milli þjóða og norðurs og suðurs og efla samstarf þeirra í milli. Í því efni vil ég vekja athygli á að Norðurlöndin hafa gjarnan reynt að hafa samstöðu innan Sameinuðu þjóðanna um þá stefnu og gerðu það seinast t.d. með sameiginlegum yfirlýsingum utanrrh. Norðurlanda á Reykjavíkurfundi í byrjun árs.
    Virðulegi forseti. Leyfist mér í örfáum orðum að draga saman niðurstöður þessarar ræðu sem að vísu er orðin býsna löng. Þrátt fyrir títtnefnd umskipti í stjórnmálum Evrópu og samskiptum austurs og vesturs eru grundvallarmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu óbreytt. Þau eru að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði lýðveldisins, að tryggja öryggi og velferð þjóðarinnar, að verja auðlindir landsins og efla atvinnuvegi og samgöngur. Þessara hagsmuna þjóðarinnar hefur verið gætt með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, með tvíhliða varnarsamningum við Bandaríkin, í norrænni samvinnu, með virkri þátttöku innan Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegu viðskiptasamstarfi, þar á meðal í EFTA og GATT. Með samningum um Evrópska efnahagssvæðið höfum við aðlagað stefnu landsins Evrópusamstarfinu á sviði viðskiptamála og tryggt útflutningsafurðum okkar óhindraðan aðgang að Evrópumarkaði. Umskiptin í Evrópu valda því að forsendur utanríkisstefnunnar eru ekki þær sömu og áður. Atlantshafsbandalagið er að breytast jafnframt því sem Atlantshafssamstarfið fer víkjandi fyrir Evrópusamstarfinu. Atlantshafsbandalagið er þrátt fyrir það áfram kjölfestan í öryggismálum Evrópu einmitt á tímum óvissu og óstöðugleika í stjórnmálum Mið- og Austur-Evrópu. Staða Atlantshafsbandalagsins og hlutverk í framtíðinni ræðst ekki síst af framvindu mála í þessum heimshluta, þ.e. í Austur-Evrópu, og því hvort Bandaríkin standi áfram við skuldbindingar sínar gagnvart öryggi Evrópu að ónefndri þróuninni í samstarfi Evrópubandalagsins á sviði öryggis- og varnarmála.
    Íslendingar geta áfram byggt öryggi landsins á aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, styrkt það frekar með aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu. Aukaaðild að sambandinu vægi upp á móti breyttum starfsháttum Atlantshafsbandalagsins í kjölfar aukinnar samvinnu Evrópubandalagsríkja á sviði öryggis- og varnarmála. Það veitir möguleika á því að setja fram sjónarmið Íslendinga í öryggismálum til að hafa áhrif á ákvarðanatöku og gerir okkur kleift að fylgjast náið með samstarfi Vestur-Evrópuríkja á sviði öryggis- og varnarmála. Jafnframt getum við aðlagað stefnuna í öryggismálum enn frekar þróuninni í Evrópu með fullri þátttöku í Norður-Atlantshafssamvinnuráðinu og Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu Evrópu.
    Tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna verður eftir sem áður ein af meginstoðum utanríkisstefnunnar en jafnhliða fyrrnefndum breytingum þurfum við Íslendingar að búa okkur undir að vægi og umsvif varnarliðsins hér á landi minnki á næstu árum. Þróun innanríkismála í Bandaríkjunum veldur þar mestu um. Því er ráðlegt og tímabært að íslensk stjórnvöld efni til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um tilhögun og umfang varnarsamstarfsins á komandi árum og eru uppi áform um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að skipa sérstaka nefnd til þess að sinna því verkefni á næstu dögum eða vikum.
    Eftir því sem samstarf Evrópuríkja eflist og fleiri þjóðir ganga til liðs við Evrópubandalagið breytist staða Íslands innan álfunnar. Evrópusamstarfið nær til æ fleiri þátta sem til þessa hafa verið ræddir innan stofnana sem Ísland hefur átt fulla aðild að. Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði tryggir öryggi í utanríkisviðskiptum og aðstöðu íslenskra fyrirtækja á Evrópumarkaði. Hann gefur íslenskum stjórnvöldum hins vegar ekki sömu stöðu til áhrifa og fengist með aðild.
    Það er áfram yfirlýst stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að byggja á þeim forsendum sem hér hefur verið lýst um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Hins vegar er því yfirlýst að við þurfum að kanna nánar nokkra þætti málsins sem varða það hvernig hagsmunir Íslands kæmu út ef um væri að ræða aðild að Evrópubandalaginu. Um það ætti að vera full samstaða allra flokka á Alþingi Íslendinga af þeirri einföldu ástæðu að enginn tekur ákvörðun að óathuguðu máli.
    Virðulegi forseti. Þar með læt ég þessari ræðu minni lokið.