Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 15:34:00 (4916)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af þessum orðum hv. þm. vil ég nú rifja upp að ég varði ekki litlum tíma af ræðu minni til þess að vekja athygli þingheims á því hversu mjög heimsmyndin hefur breyst frá árinu 1989. Það hefur m.a. borið til tíðinda að flest ef ekki öll hin EFTA-ríkin hafa breytt afstöðu sinni til Evrópubandalagsins, með öðrum orðum metið breytingar í umhverfinu með þeim hætti að þau hafa komist að öðrum niðurstöðum. Það ætti náttúrlega ekki að verða neinum til lasts.
    En aðalatriðið er þó þetta. Hv. þm. sagði að hún hefði allan tímann vitað að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði væri áfangastaður á lengri leið inn í aðild að Evrópubandalaginu. Þessu er alveg þveröfugt farið. Það er engin rökrétt nauðung í því að þar beri að stíga eitthvert skref í framhaldi af því. Það hefur aldrei verið mitt sjónarmið, hvorki 1989, 1990, 1991 né í dag. Þvert á móti. Ég hef hins vegar aldrei dregið dul á það að ef þessi samningur tækist ekki, ef hann færi forgörðum, þá hef ég sagt og það fyrir löngu að þá teldi ég engan vafa á því að þrýstingur frá forsvarsmönnum íslensks atvinnulífs mundi aukast um það að í stað þessa yrði þrýst á um aðild að Evrópubandalaginu. Það er kjarni þeirra viðvörunarorða sem ég hef haft uppi vegna áhyggju minnar af því að samningur um Evrópskt efnahagssvæði tækist ekki.
    Kjarni málsins er nú þegar í þessum stuttu orðaskiptum orðinn þessi: Þeir sem hafa beitt sér hvað harðast gegn samningnum um Evrópskt efnahagssvæði munu í raun og veru í hjarta sínu líta svo á að hann sé þó að verulegu leyti skárri en aðild að EB, geti kannski hugsanlega tryggt hagsmuni þjóðarinnar án þess að honum fylgi þeir gallar sem eru óaðgengilegir. Með öðrum orðum skora ég á andstæðinga aðildar að EB að styðja samninginn um Evrópskt efnahagssvæði samkvæmt þessum röksemdum.