Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 15:37:00 (4917)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvaðan hefur hæstv. utanrrh. það að andstæðingar aðildar að Evrópsku efnahagssvæði séu farnir að lofa og blessa þann samning? Ég hef aldrei nokkurn tíma sagt það. Kvennalistinn hefur verið á móti þessum samningi --- ekki allan tímann, það er rétt. Ég hef ekki allan tímann vitað að þetta yrði svo. Mér hefur orðið það ljóst smám saman að þessi samningur um Evrópskt efnahagssvæði er ekkert annað en áfangi á leið inn í EB. Í upphafi var ég ekki andvíg samningnum. Þá voru ýmsir fyrirvarar settir um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Þeir eru allir foknir út í veður og vind, það er búið að keyra þá alla á haugana. Það er ekki rétt að tala um að þessi samningur sé skárri en aðild að EB þegar hann er áfangi á leið inn í EB, ég veit ekki hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu og ég er alveg undrandi á hæstv. utanrrh. að vera með slíkan málflutning því að það hef ég aldrei nokkurn tíma sagt.