Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 16:42:00 (4924)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar er orðið ljóst að umræðan hefur látið gott af sér leiða því hver maðurinn á fætur öðrum, sem áður velktist í vafa um hið Evrópska efnahagssvæði, kemur nú og vitnar um það að meðan við höfum það í hendi sé ekki að örvænta um framtíð þjóðarinnar. En sérstakt tilefni er um fyrirvara þá sem gilda í þeim samningum. Ég skil satt að segja ekki af hverju fólk er enn við það heygarðshornið að halda því fram að fyrirvörum hafi öllum verið glutrað niður. Hvaða fyrirvarar voru það sem menn settu sér í upphafi þegar lagt var upp í þessa ferð?
    Í fyrsta lagi varðandi sjávarútveg. Fyrsti fyrirvarinn var sá að tengjast ekki skuldbindingum sameiginlegrar fiskveiðistefnu. Það felur í sér að halda forræði yfir fiskveiðilögsögunni, veita hvorki einhliða veiðiheimildir né rétt til fjárfestingar við að nýta þá auðlind.
    Annar fyrirvarinn snerist um orkulindirnar. Það kom á daginn að samkvæmt okkar löggjöf þurfti ekki að setja formlega fyrirvara um það vegna þess að íslensk löggjöf tryggir forræði ríkis og sveitarfélaga í því efni.
    Þriðji fyrirvarinn varðaði girðingar að því er varðaði jarðeignir og því hefur margsinnis verið lýst hver stefna íslenskra stjórnvalda er og það er fullkomin heimild til þess að setja lög með þeim takmörkunum. Það er á vettvangi landbrh. að gera svo.
    Fjórði fyrirvarinn er hinn almenni öryggisvarnagli sem varðar t.d. rétt íslenskra stjórnvalda til að stöðva innflutning vinnuafls. Það er þannig gjörsamlega út í hött að halda því fram að öllum þessum fyrirvörum hafi verið glutrað niður og þeirra sjái hvergi stað.