Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 21:33:00 (4934)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er fyllilega ljóst að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur ekki útilokað aðild að Evrópubandalaginu um aldur og ævi. Það er fullkomið aukaatriði í málinu. Hann hefur hins vegar tekið á sig þá ábyrgð að vera forsrh. Íslands þetta kjörtímabil. Síðan mun þjóðin kjósa að því loknu og fylgi flokkana og samstarfsamningar þeirra ráða því hvaða ríkisstjórn verður þá mynduð. Ég hef ekki gert aðra kröfu til hæstv. forsrh. en þá að orð hans og yfirlýsingar fyrir hönd þessarar ríkisstjórnar standi. Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að hæstv. forsrh. svari fyrir sig eða ríkisstjórn sína um aldur og ævi. En hann hefur alveg tvímælalaust tekið af skarið fram til þessa hvað þetta kjörtímabil varðar, valdatíma þessarar ríkisstjórnar og það er það sem hann er ábyrgur fyrir sem forsrh. Íslands. Ég hef þess vegna kosið að treysta þeim orðum hans og þeim yfirlýsingum þar til annað kemur í ljós. Hv. þm. verður bara að hafa þann skilning á því sem hún vill, en ég kýs að treysta þessum orðum hæstv. forsrh. þar til annað kemur í ljós. Ég rakti hér fjölmargar yfirlýsingar hans fyrr í dag, yfirlýsingar frá fyrsta mánuði hans í embætti og yfirlýsingar frá síðustu tíu dögum sem ganga alveg þvert á það sem hæstv. utanrrh. hefur sagt.
    Varðandi stuðninginn um Evrópskt efnahagsvæði þá tel ég að sú yfirlýsing sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson flutti fyrr í dag, að yfirlýsing utanrrh. hefði að hans dómi dregið mjög úr möguleikunum á að ná samstöðu um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, sýni það augljósa mat að hafi utanrrh. haft áhuga á því að skapa samstöðu um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði hefur hann valið mjög ranga aðferð til þess með skýrslu sinni.