Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 21:35:00 (4935)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég var ekki að draga í efa hér áðan að hv. þm. tryði því sem hæstv. forsrh. hefur sagt. Ég benti honum einfaldlega á það og það kom fram í máli hans hér áðan að hæstv. forsrh. hefði eingöngu sagt að aðild kæmi ekki til greina á þessu kjörtímabili. En ég vil einnig taka fram að yfirlýsingar hæstv. utanrrh. koma mér ekkert á óvart og þetta er ekkert ósvipað mörgu því sem kom fram hjá utanrrh. í síðustu ríkisstjórn sem var sú ríkisstjórn sem hv. þm. sat í. Auðvitað er þetta orðið miklu skýrara og menn hafa komið út úr skúmaskotunum og talað hreint út. Það er auðvitað ágætt að það skuli vera gert. Þá þurfa menn ekki að velkjast í vafa en þessir fyrrum samstarfsmenn þingmannsins í ríkisstjórn eru búnir að vera með þetta á stefnuskrá sinni að mínu mati ansi lengi. Þetta er ekki að koma núna fyrst í ljós. Þeir reyna að sverja það af sér enn þá en nú er þingmaðurinn orðinn sammála mér í því að þeir stefni að sjálfsögðu beint inn í EB. Mér var það mikil ánægja að heyra í máli þingmannsins að nú væru komnir aðrir kostir og nú ætti að kanna aðrar leiðir og tekur hann þá undir það sem við þingkonur Kvennalistans höfum talað um hér allt síðasta kjörtímabil að stefna ekki að EES eða EB heldur leita annarra leiða.