Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 22:15:00 (4939)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Við höfum áður staðið hér í andsvörum, ég og hv. 4. þm. Austurl. um þessi mál. Mér varð reyndar að orði þegar ég heyrði hann mæla það hér úr pontu í dag að af tvennu illu væri EES skárri kostur en EB að hafi ég setið í súpunni þegar ég sagði að af tvennu illu væri EB skárri kostur en EES, þá datt hv. þm. í minn súpupott í dag hér á Alþingi því að hann túlkaði orð mín sem svo, þegar ég sagði þetta að þar með væri ég að segja að aðild að EB væri góð, væri æskileg. Þá hljótum við líka með sömu röksemdafærslu að túlka orð hv. þm. í dag um að aðild að EES sé góð og æskileg og Íslandi til framdráttar en það hefur hann venjulega ekki sagt.

    Það sem ég hef verið að tala um hér á Alþingi og víðar er að ég vil skoða þessi mál fordómalaust. Ég vil hafa leyfi til þess að hugsa upphátt í ræðustól og ég tel mig ekki vera að afvegaleiða íslensku þjóðina með því móti. Þegar ég hef sagt að við gætum vel staðið í þeim sporum að við ættum ekki annarra kosta völ en að ganga í EB hefur það verið á þeim forsendum, eins og kom fram hjá mér áðan, að ef EES yrði að veruleika og við værum búin að fara í gegnum það aðlögunarferli gætum við mjög auðveldlega staðið í þeim sporum að við ættum ekki annarra kosta völ en að ganga inn þegar aðlögunarferlinu í gegnum Evrópska efnahagssvæðið væri lokið. Ég hélt satt að segja að hv. 4. þm. Austurl. væri mér nokkuð sammála um þetta atriði og að við þyrftum ekki að deila um það hér í sölum Alþingis. Þegar ég segi að ég geti hafnað því fyrir mig þá segi ég að ég er búin að gera upp minn hug gagnvart Evrópubandalaginu eins og málin standa í dag. Ég tel að það þurfi að fara fram gagnger umræða um þetta þannig að ef við höfnum Evrópubandalaginu viti þessi þjóð nákvæmlega hverju við erum að hafna en finnist ekki eftir á að hún hafi með einhverjum hætti verið snuðuð um umræðuna.