Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 23:11:00 (4944)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni hér áðan að aðild að EB væri ekki á dagskrá. En aðild að EB er komin á dagskrá um leið og menn mæla með aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Við kvennalistakonur höfum rakið það mjög rækilega og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir rakti það hér áðan með mörgu tilvitnunum í erlenda aðila einnig að það er mat allra, nema þá kannski nokkurra íslenskra ráðamanna, að aðild að Evrópsku efnahagssvæði sé ekkert annað en stórt skref inn í Evrópubandalagið og raunar fordyrið að því. Ég get því ekki verið sammála hæstv. forsrh. í því að aðild að EB sé ekki á dagskrá því að það er þegar búið að setja þá aðild á dagskrá og það verður að ræða málin í því samhengi. Hæstv. forsrh. hlýtur að vita það eins og svo margir aðrir að EES er ekkert nema tímabundið fyrirbæri og getur aldrei staðið nema í mjög skamman tíma ef það þá fer nokkurn tíma af stað.
    Ég held að það væri rétt að gera sér grein fyrir hvar við stöndum og ræða þann kost í fyllstu alvöru, sem er auðvitað nærtækastur, að við stöndum utan við EB. Ég á mjög erfitt með að skilja hver er tilgangurinn með þessum feluleik, hæstv. forsrh.