Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 23:16:00 (4948)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mig langar til þess að vekja athygli á orðum sem hæstv. forsrh. lét falla hér í pontunni áðan og sem mér fannst út af fyrir sig athyglisverð. Þar sagði hann að hann liti svo á að grundvallarumræða um Evrópskt efnahagssvæði og EB væri í rauninni innanríkismál. Það væri fyrst þegar grundvallarafstaða hefði verið tekin til Evrópsks efnahagssvæðis eða Evrópubandalagsins eftir atvikum sem málið yrði að utanríkismáli. Ég gat ekki betur skilið en með þessu væri forsrh. í rauninni að gagnrýna það að utanrrh. skyldi setja þessa umræðu af stað í sinni skýrslu. Með öðrum orðum þetta væri ekki umræða sem ætti heima í skýrslu hæstv. utanrrh.