Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 23:17:00 (4949)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað voru þau orð mín sem þarna var vitnað til ekki hugsuð á neina lund sem gagnrýni á skýrslu hæstv. utanrrh. enda nefndi ég að það væri ekki óeðlilegt að þetta væri rætt í skýrslunni. Ég vék hins vegar að því að í heild mætti segja að mál af þessu tagi væru innanríkismál, auðvitað ekki lengur umræðan um Evrópskt efnahagssvæði. Þar hafa menn tekið þá grundvallarafstöðu að reyna að leita eftir því samstarfi. Áður en menn fara að ræða um inngöngu í Evrópubandalagið þá væri það hreint innanríkismál, mjög mikilvægt innanríkismál og mundi skipta alla ríkisstjórnina máli til að mynda en er ekki bara á verksviði utanrrh.