Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 23:19:00 (4951)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel að fram fari áhugaverð umræða um íslenskt utanríkismál og jafnvel þótt áherslur í málflutningi manna séu mismunandi þá held ég að allir geti verið sammála um að miklar breytingar eiga sér nú stað í alþjóðamálum. Þetta eru breytingar sem við Íslendingar hljótum að taka tillit til. En hvað sem þessum breytingum líður þá stöndum við jafnt í dag sem áður frammi fyrir ákveðnum staðreyndum, þeim staðreyndum að við erum háðir utanríkisviðskiptum og við verðum að eiga gott samstarf við okkar helstu viðskiptaþjóðir til að tryggja hagsmuni okkar. Við erum nú sem hingað til þjóð sem er afar háð náttúruauðlindum sem eru viðkvæmar og mikilvægt er að séu nýttar af skynsemi og sé forðað frá mengun. Við höfum þurft að leita samstöðu með nágrannaþjóðum okkar og bandamönnum um þessi mál og þar hefur ekki orðið breyting á heldur hefur sú þörf aukist ef eitthvað er.
    Ég tel þess vegna sjálfgefið að við hljótum nú sem hingað til að skipa okkur á bekk með vestrænum þjóðum í utanríkismálum okkar, með þjóðum Norðurlandanna og með öðrum vestrænum þjóðum sem virða lýðræði og mannréttindi, ekki síst þeim þjóðum sem við höfum átt gott samstarf við á vettvangi NATO.
    Ég verð hins vegar að segja að nokkur vandi er á höndum að túlka með skýrum hætti stefnu núv.

ríkisstjórnar í utanríkismálum því að margt sem sagt er stangast á. Það stangast á sumt af því sem hv. utanrrh. segir í skýrslunni og hefur látið hafa eftir sér á opinberum vettvangi að undanförnu og það sem hæstv. forsrh. setur hér fram.
    Ég vil í fyrsta lagi gera að umtalsefni það sem hefur komið fram um samstarf okkar innan Atlantshafsbandalagsins og um svokallað Vestur-Evrópusamband. Það er nokkuð athyglisvert að aðeins fyrir stuttu síðan var hæstv. utanrrh. að fjalla um meginstoðir í íslenskum utanríkismálum. Hæstv. utanrrh. tók svo sterkt til orða í Morgunblaðinu 29. febr., með leyfi forseta, að hann sagði: ,,Sú stefna var mótuð upp úr stríði, ekki hvað síst að frumkvæði Bjarna Benediktssonar, að byggja öryggis- og samskiptastefnu Íslands á nokkrum meginstoðum, annars vegar varnarsamningnum við Bandaríkin og aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og hins vegar á víðtæku samstarfi Norðurlandaþjóðanna á alþjóðavettvangi.`` Síðan bætir hæstv. utanrrh. við: ,,Vísbendingar eru um að þessar tvær meginstoðir séu nú að molna.`` Hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir að tvær meginstoðir í stefnu Íslendinga í utanríkismálum séu að molna. Hann hefur ekki haft þau orð um samstarf okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem er jafnframt meginstoð og ég lít svo á ef eitthvað er að sú stoð hafi verið að styrkjast. Ég vil leyfa mér að skilja hæstv. utanrrh. svo að hann hafi ekki neinar áhyggjur af þeirri meginstoð.
    Það er nú sitt hvað að hafa áhyggjur af þeim stoðum sem standa undir utanríkismálastefnu Íslendinga eða halda því fram að þær séu að molna. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. af þessu tilefni: Telur hann að Atlantshafsbandalagið sé að molna? Hefur hann þá framtíðarsýn eins og hann segir í ræðu sem hann flutti hér fyrir nokkru með leyfi virðulegs forseta, að Vestur-Evrópubandalagið gæti á endanum breyst í sérstakt evrópskt varnarbandalag sem leysti af hólmi fremur en styrkti það Atlantshafsbandalag sem varðveitt hefur frið og velmegun Vestur-Evrópu í bráðum hálfa öld. Er þetta sú framtíðarsýn sem íslenska ríkisstjórnin sér að því er varðar Vestur-Evrópusambandið? Er það m.a. með tilvitnun til þessara orða að hæstv. utanrrh. segir í skýrslu sinni á bls. 21, með leyfi forseta: ,,Utanrrh. hefur svarað bréfi Genschers og fagnað boðinu sem felst í Maastricht-yfirlýsingunni og gert grein fyrir því að íslensk stjórnvöld bíði átekta þar til aðildarríki Vestur-Evrópusambandsins hafa komið sér saman um skilgreiningu á aukaaðild.``
    Ég skil það svo að íslenska ríkisstjórnin fagni þessu boði og ég gat ekki betur heyrt í máli forsrh. hér áðan en að hann teldi að það kæmi mjög til greina og það mundi þjóna hagsmunum Íslendinga að gerast aukaaðilar að þessu Vestur-Evrópubandalagi. Ég vil leyfa mér að draga mjög í efa að það þjóni hagsmunum Íslendinga að skipa sér á þann bekk og vera með einhvern sérstakan fögnuð yfir því sem þarna er að gerast. Það er staðreynd að við höfum gert varnarsamning við Bandaríkin. Sá samningur er í gildi og honum hefur ekki verið sagt upp. Ég tel það mjög eðlilegt sem hefur komi fram í máli forsrh. að teknar séu upp viðræður við Bandaríkin um þessi mál. Það kom hér fram í máli hæstv. forsrh. að hann teldi mjög freistandi að gerast aukaaðili að þessu Vestur-Evrópubandalagi m.a. með tilliti til þess að þá gætum við tryggt áhrif á samstarfið í þessum málaflokki. En ég vil leyfa mér að halda því fram að okkur sé mikilvægara í þessu sambandi að treysta samstarfið yfir hafið og hafa fremur meira samstarf við Bandaríkin á þessum vettvangi en við þjóðir Evrópu.
    Ég tel það vera mjög vafasamt að gerast aukaaðili að þessu Vestur-Evrópusambandi. Ef það er framtíðarsýn utanrrh. að þetta bandalag muni leysa af hólmi Atlantshafsbandalagið þá er ég þeirrar skoðunar að það sé okkur mikilvægara að tryggja samstarf við Norður-Ameríku í stað þess að leggja allt of mikið upp úr því sem þarna er að gerast. Jafnframt er ljóst að ágreiningur er um þessi mál innan Atlantshafsbandalagsins, það eru ekki sömu áherslur hjá Bretum og t.d. Þjóðverjum og Frökkum. Við hljótum að skipa okkur á bekk með Bretum og Bandaríkjamönnum í þessu máli af þeirri einföldu ástæðu að Ísland er á hafinu á milli Evrópu og Ameríku og það er meginhagsmunamál okkar að sú samstaða sem hefur verið um varnir á svæðinu muni áfram verða fyrir hendi. Þar af leiðandi finnst mér það sem hér hefur komið fram vekja spurningar og það sé mikilvægt að ræða þessi mál mjög náið áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar um aðild Íslands að þessu samstarfi hvort sem væri með aukaaðild eða með öðrum hætti.
    Ég tók áðan eftir því að engar umræður hafa farið fram um þetta mál í utanrmn. og finnst mér það gegna nokkurri furðu. Hér hlýtur að vera stórpólitískt mál sem skiptir Íslendinga miklu máli. Hér er um meginstoð að ræða í utanríkispólitík okkar eins og hæstv. utanrrh. hefur haldið fram. Í stað þess að tala um það að hún sé að molna hlýtur íslensk ríkisstjórn á hverjum tíma að hafa þær skyldur að reyna að styrkja þessa stoð en tala þá heldur minna um það að hún sé öll að hrynja. Ég átta mig ekki á því hvert íslenski utanrrh. er að fara í þessum efnum eins og í sumum öðrum efnum sem ég mun koma betur að.
    Þá vil ég gera að umtalsefni það sem hæstv. utanrrh. segir, þ.e. að það sé önnur stoð jafnframt að molna sem er hið norræna samstarf. Í skýrslunni segir á bls. 17, með leyfi forseta: ,,En það er umhugsunarvert að Ísland er nú að verða viðskila við norræna samvinnu``. Þetta er stórt sagt, hæstv. utanrrh., að fullyrða að Ísland sé að verða viðskila við norræna samvinnu. En síðar kemur að vísu viðbót sem dregur nokkuð úr, en hún er svo: ,,því önnur Norðurlönd meta það svo að nú sé lag til þess að ganga inn í EB sem ekki gefist aftur.`` Hvernig getur íslenski utanrrh. og íslenska utanrrn. sagt það og hvað liggur því til grundvallar, hæstv. utanrrh., að við séum að verða viðskila við norræna samvinnu? Hvernig getur íslenski utanrrh. leyft sér að segja annað eins og kemur fram í ræðu sem hann flutti á Hótel Sögu um Ísland í breyttri Evrópu, með leyfi forseta: ,,Stofnun Hansasambandsins fyrir nokkrum dögum táknar í mínum huga

lokin á norrænu samstarfi eins og það hefur tíðkast hingað til og upphafið að skandinavísk-baltnesku samstarfi innan ramma útvíkkaðs Evrópubandalags.`` Og síðan: ,,Íslendingum hefur verið sagt hreint út að þrátt fyrir 40 ára norræna samvinnu séu þeir ekki velkomnir gestir við Eystrasaltsborðið. Íslendingar verða því að leita annað að akkerisfesti í þeim sjóalögum sem vænta má á varhugaverðri siglingu sem fram undan er.`` Hvað á íslenski utanrrh. við? Er hann búinn að draga upp öll akkeri og er hann nú að ráfa um villtur í hafi og er hann að leita að heppilegum stað til að kasta akkeri? Er núverandi stefna í íslenskri utanríkispólitík að sigla um höfin í leit að heppilegum stað til að kasta einhverjum járnhlunkum fyrir borð?
    Ég leyfi mér að fullyrða það að ekkert gefur tilefni til að ætla að norræn samvinna sé að leggjast af og ekkert gefur tilefni til að ætla að sú stoð, sem norræn samvinna er, sé að molna. Ég tel að það sé á margan hátt hægt að styrkja norræna samvinnu. En ég geri mér jafnframt grein fyrir því að norræn samvinna mun taka mið af því sem er gerist að öðru leyti í Evrópu. Það er ekkert annað en eðlileg þróun. Það er t.d. alveg ljóst að ef af stofnun Evrópska efnahagssvæðisins verður þá er margt af því sem hefur einkennt norræna samvinnu eins og norræni vinnumarkaðurinn og margt fleira í reynd orðið óþarft vegna þess að sams konar ákvæði munu taka yfir á langtum stærra svæði. Þar af leiðandi er það dæmi um breytingar í norrænu samstarfi. Það er líka alveg ljóst að sú staðreynd að mörg Norðurlandanna hafa nú ákveðið að sækja um aðild að Evrópubandalaginu mun hafa áhrif. En það er engan veginn einsýnt að allar Norðurlandaþjóðirnar nema Íslendingar muni gerast aðilar að þessu bandalagi. Það er t.d. alls ekki uppgert mál í Noregi. Jafnvel þótt það sé líkum að því leitt að Noregur muni sækja um aðild er það alveg ljóst að þar er um mjög umdeilt mál að ræða. Enginn getur fullyrt á þessari stundu hvort þar muni samstaða t.d. nást um það hvort af því verður þótt það sé hins vegar miklu líklegra að því er varðar Svíþjóð og Finnland. Að mínu mati er því of snemmt að fullyrða um það að öll Norðurlöndin nema Ísland verði aðilar að Efnahagsbandalaginu. En hvað sem því líður þá er alveg ljóst að það er afar mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga náið samstarf við hinar Norðurlandaþjóðirnar um Evrópumálin og það er mjög óheppilegt í umræðunni hvað íslenski utanrrh. gerir lítið úr norrænni samvinnu og virðist gangast upp í því að tala um þau mál og senda skilaboð til Norðurlandaþjóðanna um hversu léttvægt samstarfið sé og lítils virði. Ég leyfi mér að efast um að hæstv. utanrrh. hafi haldið vel á samstarfi Norðurlandaþjóðanna við Eystrasaltsríkin. Hann varð mjög reiður þegar utanríkisráðherra Danmerkur neitaði Íslendingum um þátttöku í undirbúningi þess samstarfs. En ég spyr: Hvað gerði íslenski utanrrh. til þess að tryggja að Íslendingar gætu átt aðild að því samstarfi áður en kom að síðustu dögunum fyrir þann fund? Hvernig stóð á því að Norðmenn voru með í þeim undirbúningi en ekki Ísland? Er ástæðan e.t.v. sú að íslenski utanrrh. var búinn að lýsa því yfir að hann væri þeirrar skoðunar að Eystrasaltsþjóðirnar ættu að fá aðild að Norðurlandaráði þótt seinna væri upplýst í umræðum á Alþingi að það væri persónuleg skoðun hans? Það væri ekki skoðun ríkisstjórnar Íslands og mér skildist ekki heldur skoðun Alþfl. Getur verið að samstöðuleysi íslenska utanrrh. með öðrum Norðurlandaþjóðum hafi orðið til þess að Íslendingar voru ekki með í þessum undirbúningi? Það hefur jafnframt komið skýrt fram og ég veit ekki betur en það hafi verið staðfest á fundi hæstv. forsrh. með forsætisráðherrum Norðurlandanna að vilji er fyrir því hjá Norðurlandaþjóðunum að Íslendingar séu með í þessum undirbúningi vegna þess að hér er um norrænt mál að ræða. Vissulega snertir það meira þær þjóðir sem búa við Eystrasaltið en líta ber á það sem norrænt mál sem geti haft áhrif á norrænt samstarf og þess vegna rétt að Íslendingar taki þátt í því. Í fullri vinsemd hvet ég hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson til þess að setja sig betur inn í norrænt samstarf. Þó ég skilji mjög vel að hann hafi miklu að sinna og sé gagnrýndur fyrir ferðalög er þýðingarmikið að hann sæki þing Norðurlandaráðs, þótt ekki væri nema einu sinni, til að upplifa með sama hætti og aðrir strauma á þessum mikilvæga tíma. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst íslenski utanrrh. lítt verða var við þá strauma. Kannski er það vegna þess að utanríkisráðherrar Norðurlanda sinni Norðurlandasamstarfinu almennt lítið. Um langan tíma hefur aðeins einn norrænn utanríkisráðherra sést þar en það er norski utanríkisráðherrann sem hefur lagt það í vana sinn að koma til að kanna andrúmsloftið sem þar ríkir. Norrænu utanríkisráðherrarnir hafa ekki sýnt því áhuga að verða við tilmælum margra um að mynda ráðherraráð með svipuðum hætti og aðrir ráðherrar Norðurlandaráðs. Það gæti haft samskipti við utanríkismálanefnd hjá Norðurlandaráði hvort sem það yrði sérstök utanríkismálanefnd eða forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Ef slík samskipti ættu sér stað mætti e.t.v. koma í veg fyrir að svipuð uppákoma ætti sér stað og þegar Uffe Elleman-Jensen og Genscher héldu sérstakan fund um samstarf Eystrasaltsríkjanna sömu dagana og þing Norðurlandaráðs stóð yfir. Það er alveg ljóst að danski utanríkisráðherrann var mjög gagnrýndur fyrir þetta tiltæki hjá Norðurlandaráði. Það er ekki einungis íslenski utanrrh. sem hefur gagnrýnt það heldur mjög margir sem sátu þing Norðurlandaráðs. Mér finnst því ekki tilefni til að draga svo sterkar ályktanir af því sem þarna er að gerast eins og íslenski utanrrh. hefur gert. Ég hlýt að lýsa mig andvígan svo sterkum yfirlýsingum að þetta sé að molna.
    Einnig vekur það nokkra athygli, hæstv. utanrrh., að í skýrslunni er lítið fjallað um Norðurlandasamstarfið og hugsanlega þýðingu þess í framtíðarsamvinnu í Evrópu. Það er vissulega rétt að hér hefur verið flutt sérstök skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda sem er úr sama flokki og utanrrh. Það vill svo til að hann hefur fjallað um málið með allt öðrum hætti en hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson og komið með allt aðrar áherslur.
    Eigum við sem störfum á vettvangi Norðurlandaráðs að halda því fram að ekki beri að taka íslenska utanrrh. alvarlega þegar við erum spurðir um yfirlýsingar hans? Að það hafi oft komið fyrir að hann

hafi verið með persónulegar yfirlýsingar sem eigi ekki stuðning í ríkisstjórn Íslands? Að forsrh. og samstarfsráðherrann séu annarrar skoðunar og að við þurfum bara að halda því blákalt fram að utanrrh. sé einn á báti í þessu og yfirlýsingar hans um norrænt samstarf séu hlutir sem ekki eigi að taka mark á? Þegar Íslendingar eru spurðir um það hvort rétt sé að Eystrasaltsríkin gangi í Norurlandaráð á þá að svara því svo að það sé víst persónuleg skoðun utanrrh. en ekki skoðun íslensku ríkisstjórnarinnar og að skoðanir utanrrh. beri ekki að taka alvarlega? Það er heldur ömurlegt að þurfa að svara fyrir orð hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar um norrænt samstarf. Ég tek eftir því að flokksfélagar hans á Norðurlöndunum leggja ekki í vana sinn að taka allt of mikið mark á því sem hann segir í þessum efnum en við hljótum að ætlast til að hann tali af fullri ábyrgð um norrænt samstarf.
    Eitt af því sem komið hefur mjög til umræðu er spurningin um Evrópskt efnahagssvæði og þróunin í Evrópu að öðru leyti. Efst á bls. 18 í skýrslunni er framhald af því sem segir um norrænt samstarf en þar stendur, með leyfi forseta: ,,Því er nauðsyn að fram fari hér í ráðuneytum og stjórnarstofnunum ítarleg úttekt á því hvað EB aðild hefði í för með sér. Að lokinni slíkri úttekt verður fyrst hægt að hafna aðildarkostinum að vandlega athuguðu máli.``
    Hvaða tilgangi þjónar þessi setning? Hæstv. forsrh. sagði réttilega áðan að að sjálfsögðu hefðu menn verið að skoða það í gegnum tíðina hvað aðild að Evrópubandalaginu hefði í för með sér. Hann sagði að þær þjóðir sem hefðu ákveðið að sækja um aðild hafi gert sér grein fyrir því hvað þar væri innan dyra og hefðu komist að þeirri niðurstöðu, ef ég hef rétt eftir sem ég vænti að sé, að það þjónaði hagsmunum þeirra að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Er hæstv. utanrrh. að halda því fram að við vitum ekki hvað þar er innan dyra? Að ekki liggi fyrir þekking á því og þess vegna þurfi nú að fara fram sérstök úttekt á því? Hann nefndi nokkur atriði þessu til sönnunar og sagði, eða a.m.k. skrifaði ég þetta niður eftir honum: ,,Við þurfum að láta fara fram úttekt á því hvort hægt sé að komast fram hjá sjávarútvegsstefnunni.`` Það liggur alveg ljóst fyrir hver núverandi sjávarútvegsstefna EB er. Einnig liggur fyrir að ýmsar þjóðir hafa að nokkru getað verndað hagsmuni sína þrátt fyrri þessa sjávarútvegsstefnu. Í skýrslunni kemur líka ljóst fram að litið er á auðlindir hafsins sem sameiginlega auðlind og að ákvarðanir um veiðar eru teknar í Brussel. Vel má vera að þær ákvarðanir geti orðið í samræmi við það sem Íslendingar halda fram. Ekki ætla ég að draga það í efa. En eru menn tilbúnir að fallast á slíkt prinsipp og slíkt prinsippafsal? (Gripið fram í.) Ég ætlaði einmitt að vitna í það. En ég þarf ekki að lesa það upp vegna þess að hæstv. forsrh. gerði það áðan. Hæstv. utanrrh, þarf að fara fram sérstök úttekt á þessu? Liggur þetta ekki alveg ljóst fyrir? Hvaða nýja úttekt þarf að fara fram?
    Síðan nefndi hæstv. utanrrh. að einnig þyrfti að gera sér grein fyrir því hver yrði hugsanlegur aðgangur að sjóðum bandalagsins. Ég skildi það svo að kanna þyrfti hvort við gætum náð einhverjum aurum út úr sjóðunum sem m.a. greiða fyrir hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu. Það er nú með þeim hætti að ekki er gott að eiga mikla aðild að því styrkjabákni sem þar er í gangi. Ég held að það liggi nokkurn veginn fyrir hvernig það er rekið. Og ég veit ekki betur en að ýmislegt hafi verið skrifað um þetta. Þess vegna verð ég að segja eins og er að ég skil ekki tilganginn með þessari yfirlýsingu hæstv. utanrrh. sérstaklega í ljósi þess að nú hefur það verið skýrt tekið fram af hæstv. forsrh. að ekki standi til að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og hann hefur ítrekað fyrri yfirlýsingar. Þar af leiðandi vekur það mikla undrun að utanrrh. er að kasta því fram nú að fara þurfi fram alveg sérstök og ítarleg úttekt á þessu. Auðvitað getur enginn bannað hæstv. utanrrh. að skoða þessi mál af fullri alvöru. Hefur íslenski utanrrh. ekki verið að því? Á þeim þremur árum sem hann hefur unnið að þessum málum hefur hann þá ekki verið að reyna að gera sér grein fyrir því hverra kosta væri völ? Hafa þeir embættismenn Íslands sem hafa verið að vinna að þessum málum ekki verið að svara þeim spurningum m.a. gagnvart utanrrh. Íslands hvaða kostir væru í spilunum þarna? Af hverju kemur þessi yfirlýsing allt í einu? Það er mjög eðlilegt að menn álykti sem svo að nú eigi að hefja fyrsta leik að því er varðar umsókn um aðild. Það hefur verið borið til baka en ég tek undir það að þegar ég las þetta fannst mér eins og verið væri að gefa í skyn að rétt væri að fara að líta á málin með nýjum hætti vegna þess hvað þarna hefði verið að gerast. Í reynd er það í nokkurri mótsögn við það sem segir á bls. 15 í skýrslunni sem mér finnst þó á margan hátt skynsamlegt. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Hver sem verður ákvörðun annarra EFTA ríkja þá er ekki ástæða til að ætla annað en að þau réttindi og sú aðstaða sem EES samningurinn veitir séu tryggð þó svo að Ísland sæti þar eitt eftir. Stofnanaákvæðin þyrfti að semja um en eftir stæði tvíhliða samningur við EB sem væri mun yfirgripsmeiri en nokkur sem fengist hefði í tvíhliða viðræðum.`` Þetta er að mínu mati mikið aðalatriði, þ.e. mat á því. Hvort er líklegra að Ísland geti fengið betri samning með því að standa að samkomulagi um Evrópskt efnahagssvæði eða með tvíhliða viðræðum? Er það vænlegt til árangurs að ákveða það núna að draga sig út úr viðræðunum um Evrópskt efnahagssvæði og biðja um tvíhliða viðræður? Það má kannski segja að við séum komin inn í sömu umræðuna og hafin var þegar Sjálfstfl. hélt því fram að fara ætti í beinar tvíhliða viðræður en ekki viðræðurnar um Evrópskt efnahagssvæði. Við tókum þá umræðu á sínum tíma og niðurstaðan varð að standa að málinu með þeim hætti sem gert hefur verið. Síðan þurfa menn að taka efnislega afstöðu til samningsins þegar hann liggur fyrir eins og hann gerir í öllum meginatriðum. Þó eru þar nokkur atriði sem enn eru ekki ljós t.d samningur um sjávarútvegsmál. Ekkert liggur endanlega fyrir varðandi tollfrelsi t.d. á síldarafurðum. Afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar um það hvernig farið verður með eignaraðild að orkufyrirtækjum innan lands liggur ekki fyrir en mun að sjálfsögðu hafa áhrif á afstöðu

margra. Það liggur heldur ekki fyrir með hvaða hætti frv. verður flutt hér á Alþingi um skilyrði fyrir eignarhaldi á landi. Og margt fleira á eftir að ræða í þessu samhengi. Ég hef ekki skipt um skoðun í þessum efnum og sé enga ástæðu til þess að stökkva frá málinu nú og fara út í það að biðja um tvíhliða viðræður. En ég vænti þess ef svo fer að úr þessu verður og hagsmunum Íslands verður þar bærilega borgið og síðan muni öll önnur ríki ganga í Evrópubandalagið þá muni staða Íslands til þess að tryggja hagsmuni sína vera tiltölulega góð og ætti á engan hátt að þurfa að draga Ísland inn í Evrópubandalagið. Ég tel út í hött að halda því fram að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði þurfi að draga Ísland inn í Evrópubandalagið og er alveg sammála hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. í þeim efnum og ítreka það sem ég hef áður sagt að ég hef alltaf talið að samningur um Evrópskt efnahagssvæði væri miklu líklegri til þess að gera Íslandi kleift að standa utan Evrópubandalagsins.
    Herra forseti. Vissulega er ástæða til að ræða hér margt annað. T.d. hefur lítið komið fram hjá hæstv. utanrrh. hver er stefna hans að því er varðar viðskiptamál. Það hefur verið um sérkennilegar uppákomur að ræða undanfarið í utanríkisviðskiptum, t.d. að því er varðar saltfisk sem er utanríkisviðskiptamál og það skiptir miklu máli hvernig skipulagi þeirra mála verður háttað í framtíðinni. Einhver stefna þarf að vera í þeim efnum, en ekki einhverjar tilviljanakenndar ákvarðanir og ég sé ekkert í skýrslunni sem gefur tilefni til að ætla hvernig þar á að standa að málum.
    Ég vildi líka gjarnan heyra skoðanir hæstv. utanrrh. á samstarfi við þjóðir á Norðurhöfum. Ég tel fulla ástæðu til þess að styrkja mjög samstarfið við Kanada, Noreg, Rússland, jafnvel Bandaríkin, Færeyjar, Grænland, um nýtingu og varðveislu auðlinda. Ég tel ekki líklegt að það muni skila miklum árangri á næstunni að ná samstöðu við þjóðir Evrópubandalagsins um nýtingu sjávarspendýra. Ég tel það ekki góða bandamenn í því skyni og því beri að treysta samstarfið við þjóðir hér á norðurslóð sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta. Ég vil í því sambandi spyrja hæstv. utanrrh. hvort íslenska ríkisstjórnin hefði brugðist við að því er varðar það sem Kanadamenn hafa lagt til, að stofna jafnvel ráð þeirra þjóða sem eru í kringum norðurheimskautið og styrkja samstarf þeirra. Það er ekki ný hugsun, það er gömul hugsun og enginn hefur gert því máli betri skil en Vilhjálmur Stefánsson gerði á sínum tíma og það er mál sem við hljótum að láta okkur skipta. Það er samstarfsmál sem er líka norrænt mál með sama hætti og samstarf þjóðanna við Eystrasaltið er norrænt mál og því er eðlilegt að það sé rætt á norrænum vettvangi, en líka er nauðsynlegt að íslenska ríkisstjórnin taki frumkvæði í þessum málum og svari þeim hugmyndum sem m.a. hafa komið fram af hálfu Kanadamanna.
    Það er okkur afar mikilvægt að ná samstöðu með þjóðum sem hafa skilning á þessum málum um nýtingu þessara auðlinda og það á að vera mikið forgangsmál í íslenskri utanríkispólitík að sinna því.
    Þótt ég sé ósammála mörgu sem hæstv. utanrrh. hefur sagt þá ég vildi ég þakka fyrir þessa skýrslu. Hún hefur gefið tilefni til umræðna og þrátt fyrir allt mikilvægast að skoðanaskipti eigi sér stað um þessi mikilvægu mál en ég vænti þess að gott samstarf geti verið með íslenskum stjórnmálaflokkum áður en eitthvað af þeim, ég vil nú segja vanhugsuðum yfirlýsingum sem hæstv. utanrrh. hefur sett fram, verður hrundið í framkvæmd í íslenskum utanríkismálum.