Utanríkismál

114. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 00:10:00 (4954)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Viðkvæmni hv. 1. þm. Austurl. gagnvart umræðum um breytingar á inntaki norrænnar samvinnu er algjörlega óþörf. Einnig er óþarfi að persónugera það með þeim hætti sem hv. þm. reynir. Staðreyndin er sú að mikil umræða er um það á Norðurlöndunum. Ég þarf ekki einu sinni að heimsækja klúbbinn, Norðurlandaráðið, til þess að verða var við það. Heilmikil umræða fer fram um gervöll Norðurlönd um framtíð norræns samstarfs ef þannig fer að Norðurlöndin verði viðskila við þá stóru ákvörðun að sum fari í Evrópubandalagið og myndi þar sérstakt undirsvæði en önnur verði utan við það. Því er haldið fram af hverjum leiðtoganum á fætur öðrum og má þar tilnefna tvo forsætisráðherra, væntanlega er hægt að taka mark á þeim, sem segja að við það verði meginviðfangsefni norræns samstarfs að fást við samninga við Evrópubandalagið og að taka upp samstarf um lausn á vandamálum í tengslum við Evrópubandalagið. Þær þjóðir sem verði utan við þetta verði þannig viðskila við kjarna norræns samstarfs. Hvers konar viðkvæmni er þetta, hv. þm.? Að ekki megi ræða þetta og rökstyðja, benda á dæmi að fjöldinn allur af norrænum leiðtogum er sömu skoðunar og ég í þessu máli. Það er algjör óþarfi að persónugera það og segja sem svo að viðhorf mín sem margir eru sammála um, hv. þm. er kannski annarrar skoðunar, lýsi einhverri foráttu á norrænu samstarfi eða bendi til þess að ekki sé mark á mönnum takandi. Hvers konar eiginlega umræðumáti er þetta, hv. þm.?