Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 13:38:00 (4958)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. verði viðstaddur framhald umræðunnar í dag, eins og hann fylgdist grannt með umræðunni í gær og tók þátt í henni. --- Ég sé að hæstv. ráðherra er viðstaddur. --- Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er m.a. sú að eftir framlagningu skýrslu hæstv. utanrrh. og umræðuna í gær er ljóst að flokkarnir sem eiga aðild að ríkisstjórninni tala ekki einum rómi. Í þýðingarmiklum atriðum munar þar miklu eins og þeir sem fylgdust með umræðunni og hafa farið yfir skýrslu hæstv. utanrrh átta sig á. Við framhald umræðunnar er nauðsynlegt að átta sig á hver staðan er varðandi þau stóru mál er snerta stöðu Íslendinga út á við, sérstaklega með tilliti til samskipta landsins við Evrópubandalagið. Svo ég reyni að lýsa því hvernig staðan í þessu máli kemur mér fyrir sjónir, þá er hún sú að formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., hefur með skýrslu sinni lagt áherslu á að aðild Íslands að Evrópubandalaginu verði tekin á dagskrá, að hafin verði vinna á vegum Stjórnarráðsins og stofnana þess á því að athuga afleiðingar aðildar Íslands að Evrópubandalaginu og að staðan verði metin í ljósi þess.
    Í skýrslunni dregur hæstv. ráðherra aðeins upp tvo kosti fyrir Ísland. Annars vegar aðild að Evrópsku efnahagssvæði með þeim samningi sem liggur fyrir og kannski ættum við að segja og/eða aðild að Evrópubandalaginu. Þetta er í rauninni mjög skýrt og liggur enn ljósar fyrir eftir ummæli hæstv. utanrrh. í fjölmiðlum á undanförnum dögum, af þátttöku hans í umræðum í gær ásamt framsöguræðu fyrir skýrslunni.
    Jafnframt liggur fyrir að hæstv. forsrh. er ekki sammála utanrrh. í útleggingum hans og áherslum að því er snertir Evrópubandalagið á þessari stundu. Hann lýsti því yfir í umræðunni í gærkvöld að slík aðild væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar nú. Ég held við ættum að taka eftir smáorðinu ,,nú`` því hæstv. forsrh. tímasetti ekki neitt í þeim efnum og lét fylgja að eðlilegt væri að taka á málum eins og hæstv. utanrrh. er að leggja til að öðru leyti en því að ekki væri á dagskrá ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild að Evrópubandalaginu eða miða störfin við að það verði gert alveg á næstunni.
    Við hljótum að ræða málin út frá þessum forsendum. Það skiptir auðvitað ekki litlu máli að forustuflokkurinn á sviði utanríkismála í ríkisstjórnarsamstarfinu, Alþfl., er með þessa áherslu og mun auðvitað, eins og við þekkjum störf hans og starfshætti, beita sér fyrir framgangi þeirrar stefnu eftir því sem hann hefur afl til. Um það þurfum við ekki að efast. Það hlýtur að vera mikils virði fyrir okkur í öðrum flokkum svo og aðila innan Sjálfstfl., þar sem eru mjög skiptar skoðanir um viðhorfið til Evrópubandalagsins og samskipta við það að því er ég best veit, að átta sig á stefnu hæstv. utanrrh. og formanns Alþfl. Það veldur nokkrum heilabrotum hvers vegna hæstv. utanrrh. velur þennan tíma til að koma með slíka áherslu inn í umræðuna. Hann reynir að búa til jarðveg í kringum áherslur sínar í skýrslunni og í ræðunum með því að draga fram þær miklu breytingar sem orðið hafa á landslagi alþjóðamála, einnig að því er snertir Ísland á undanförnum árum, og að það kalli á að nú verði aðild Íslands að Evrópubandalaginu tekin á dagskrá á Íslandi.
    Hæstv. ráðherra nefndi þrjú atriði sérstaklega, ef ég man rétt. Breytingarnar í Austur-Evrópu á undanförnum árum, þ.e. brottfall járntjaldsins og fall kommúnistastjórnanna. Breytingar í Norðurlandasamstarfi með umsóknaraðild nokkurra Norðurlanda að Evrópubandalaginu til viðbótar við Danmörku sem þar er inni.

Og í þriðja lagi samrunaferlið í Vestur-Evrópu með EES samningunum og fjölgun þeirra ríkja sem berja dyra hjá Evrópubandalaginu.
    Það er út af fyrir sig rétt að stórfelldar breytingar hafa orðið á stjórnmálum í álfunni. Því neitar að sjálfsögðu enginn. Þær gefa tilefni til þess að við Íslendingar athugum okkar gang eins og aðrar þjóðir þurfa að gera. En ég vefengi mjög að það sé réttmætt sem hæstv. utanrrh. segir að breytingarnar eigi að leiða til þess að Íslendingar taki kollsteypu í samskiptum út á við í þátttöku sinni í alþjóðlegu samstarfi og að þær gefi tilefni til þess að Íslendingar stígi í raun það skref til baka sem tekið var 1918 og 1944, afsali sér fullveldi og gangi inn í stórveldið Vestur-Evrópu. Um það snýst málið frá upphafi til enda og inn í það samhengi kemur spurningin um aðild að Evrópsku efnahagssvæði sem er brú inn í þetta landslag, stórt skref á þessari vegferð sem er það viðfangsefni sem ríkisstjórnin samkvæmt orðum hæstv. forsrh. hefur sem dagskrármál nú, þó annað kunni að vera uppi innan tíðar.
    Ég held að breytingarnar í Austur-Evrópu, sú staðreynd að Varsjárbandalagið er horfið, að múrarnir milli austurs og vesturs hafa fallið í hernaðarlegu tilliti kalli ekki á það að Íslendingar fari að stíga þau skref sem hæstv. ráðherra leggur til né heldur að tengjast Vestur-Evrópubandalaginu eins og ráðherrann hefur á dagskrá og hæstv. forsrh. hefur tekið undir með vissum hætti. Styrjaldarógnin er fjarlægari nú en hún var fyrir skömmu. Hafi menn metið það svo að þörf væri fyrir Íslendinga að hafa herstöðvar í landinu, vera aðilar að Atlantshafsbandalaginu til að tryggja öryggi sitt, þá eru þær forsendur nú úr sögunni og möguleikar á að stíga skref í allt aðra átt en þá að tengjast með nýjum hætti hernaðaruppbyggingu eða varnarsamstarfi Evrópubandalagsins. Vestur-Evrópubandalagið er jú vísirinn að því og á eftir að taka við því samkvæmt þeim samþykktum sem þegar hafa verið gerðar. Ég tel þannig að þetta atriði gildi ekki sem rökstuðningur fyrir því að við förum að breyta til með þeim hætti sem ráðherrann er að boða.
    Þá kemur spurningin um Norðurlandasamstarfið og breytingar á norrænu samstarfi. Eigum við Íslendingar að gerast farþegar á þeirri lest sem stjórnmálamenn og ríkisstjórnir á Norðurlöndum hafa sumpart ákveðið að stíga upp í áleiðis til Brussel? Er sjálfsagt að við Íslendingar stígum þar um borð? Er ráðlegt að við íhugum það? Ég vísa því frá og tel engin rök fyrir því að við Íslendingar tökum svo afdrifaríkt skref jafnvel þó þrjú önnur Norðurlönd gerist aðilar að Evrópubandalaginu á þessum áratug. Mun ég koma nánar að því á eftir.
    Þá er það þriðji þátturinn, samrunaferlið í Vestur-Evrópu. Eigum við að bregðast við þeim breytingum --- því auðvitað verðum við að bregðast við breytingum í umhverfi okkar --- með þeim hætti að gera samning um Evrópskt efnahagssvæði, þ.e. vera þátttakendur í þeim samningi með því sem því fylgir? Hann er, eins og oft hefur komið fram, stór áfangi á leiðinni í Evrópubandalagið. Eigum við að taka þá áhættu sem því fylgir og auðvelda þeim öflum leikinn sem vilja fara alla leið með því að gerast aðilar að þeim samningi ef í boði verður? Að ekki sé talað um hitt, sem hæstv. ráðherra nú vill taka á dagskrá, beina aðild Íslands að Evrópubandalaginu.
    Ég vil næst koma að því mati sem lýtur að Norðurlöndunum vegna þess að ég tel að það skipti miklu máli í þessari umræðu. Það liggur fyrir, ekki aðeins hér á landi heldur einnig á hinum Norðurlöndunum, að reynt er að tengja löndin saman í eina lest, knýja fram pólitískan vilja til þess að sækja um aðild að Evrópubandalaginu með þeim rökum að löndin þurfi að vera samferða til Brussel, það auki styrk þeirra og möguleika til að vinna sig fram úr samningaviðræðum við Evrópubandalagið og ná bestum kostum í þeim efnum. Þetta endurómar á öllum Norðurlöndunum utan Danmerkur sem eru í annarri stöðu og nú endurómar þetta hér. Það er víða að finna í skýrslu hæstv. utanrrh. með beinum hætti að hann tengir þetta saman og setur fram spurninguna hvort ekki sé einmitt tækifæri núna að stíga um borð og láta reyna á aðild að Evrópubandalaginu. Hæstv. utanrrh. er í rauninni að taka undir með framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins sem gaf þá yfirlýsingu á sérstakri EB-ráðstefnu hérlendis fyrir nokkru að hann teldi að svona bæri að halda á málum. Það er athyglisvert hvernig hugmyndir um þessi efni koma fram á ýmsum bæjum, jafnvel á ólíklegustu stöðum þar sem menn hafa látið undan þessum áróðri, taka það gilt að nú beri að láta á þetta reyna.
    Mér finnst að þeim aðilum, að utanrrh. hæstv. meðtöldum, sem bera fram tillögur í þessa átt láist að ræða afleiðingar þess fyrir Ísland að stíga þessi skref, afleiðingar fyrir stöðu Íslands í heild. Látið er því liggja að þetta sé öðrum þræði tæknilegt vandamál, samningatæknilegt vandamál, spurning um það hvernig við getum samið okkur út úr hinu og þessu en menn ræða ekki grundvallaratriðið sem er það að með því að gerast aðili að Evrópubandalaginu erum við að taka Ísland út af korti sjálfstæðra þjóða því að um það snýst málið. Maastricht-samkomulagið frá 7. febr. sl. markar með ljósum hætti stefnuna til bandaríkja Evrópu, Europian Union eða Evrópusamveldis, eins og farið er að kalla það. Það er kjarni málsins. Höldum við að hag Íslands og Íslendinga verði betur borgið með því að stíga þessi skref sem eru auðvitað allt önnur en hæstv. ráðherra er að láta að liggja í inngangsorðum og lokaorðum inngangskafla í sinni skýrslu? Í lokaorðunum á bls. 24 má lesa:
    ,,Þrátt fyrir títtnefnd umskipti í stjórnmálum Evrópu og samskiptum austurs og vesturs eru grundvallarmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu óbreytt, þ.e. að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði lýðveldisins, tryggja öryggi og velferð þjóðarinnar, verja auðlindir landsins og efla atvinnuvegi og samgöngur.``
    Gott ef satt reyndist að þetta væru markmiðin. Þetta eru markmið sem ekki eru samrýmanleg hugmyndum um að gerast aðilar að Evrópubandalaginu. Aðild að Evrópubandalaginu, eða öllu heldur að Evrópusamveldinu, á grundvelli samninganna frá Maastricht, hins nýja samkomulags, hins nýja sáttmála, sem breytir mörgum atriðum Rómarsáttmálans í grundvallaratriðum, er ávísun á það að leggja þátttökuríkin af sem sjálfstæð ríki og koma á skipan sem að sumu leyti minnir á Bandaríki Norður-Ameríku en gengur þó enn lengra á ýmsum sviðum í þéttriðnari ríkisheild.
    Ef menn eru á því að hér sé verið að ýkja, hér sé verið að oftúlka, þá bið ég menn að fara í gegnum þessa bók, samningana frá Maastricht. Þá bið ég menn um að lesa nýjustu ræðu Jacques Delors sem hann hélt í Evrópuþinginu alveg nýlega og þær áherslur sem þar eru og hugmyndir um að herða enn á þessu ferli og boða til ríkjaráðstefnu fyrr en rætt var um í aðdraganda samninganna í Maastricht. Það þýðir ekki fyrir menn að ræða þessi efni án þess að svara því hvort þeir vilji sjá slíka framtíð fyrir Ísland eða ekki. Svo getum við farið að ræða tæknilegar útfærslur, samningaaðferðir og þess háttar, ef svo skyldi reynast að pólitískur meiri hluti væri á Íslandi fyrir því að leggja upp í slíka ferð. Það er í þessa vegferð sem er reynt að ýta Norðurlöndunum fjórum og lóðsinn í þeirri lest er góðvinur hæstv. utanrrh. sem nú skrifar grein eftir grein eftir grein í norræn málgögn, Uffe Elleman-Jensen, til þess að hvetja Norðurlöndin til að grípa nú gæsina og slást í hópinn. Í öllum víðlesnustu dagblöðum Norðurlanda er nú fullt af kjallaragreinum eftir þennan hugmyndasmið. Auðvitað finna danskir stjórnmálamenn sig, sem eru þó áhangendur Evrópubandalagsins, ósköp einmana. Þetta litla ber ofan á hinu stóra Þýskalandi er valdalítið og stendur frammi fyrir afleiðingum sáttmálans í Maastricht sem danska þjóðin þarf þó að taka afstöðu til innan skamms.
    Eru málin þannig, eins og látið er að liggja í þessum umræðum, að líklegt sé að þjóðir Norðurlanda, utan Danmerkur, skrifi upp á hugmyndir stjórnmálamannanna? Það var athyglisvert að heyra í gær orð hæstv. forsrh. ( Forseti: Forseti biður hv. þingmenn að vera ekki að tala saman í salnum á meðan ræðumaður flytur sitt mál.) í sambandi við væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku. Það sýnir, sem ég raunar efaðist ekkert um, að hæstv. forsrh. fylgist með því sem er að gerast á norrænum vettvangi. Það væri betur að fjölmiðlarnir á Íslandi fylgdust með þeim atburðum og höguðu sínu máli, upplýsingum og túlkunum þannig að það bærust almennt fréttir af því í hvaða átt umræða hnígur á hinum Norðurlöndunum í sambandi við þessi mál. Hann virðist ansi þykkur sá múr sem þarf að fara í gegnum til að flytja hlutlægar fréttir af þróun mála úti í heimi. Það virðist undarleg árátta að fylgja forskrift þeirra sem valdið hafa á hverjum tíma og sjá hlutina í gegnum slík gleraugu. Vissulega eru þó undantekningar þar frá í fjölmiðlum á Íslandi eins og annars staðar.
    Staðan í Danmörku er sú þessa stundina, eftir skoðanakönnunum að dæma, að mikil óvissa er um, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, hvort Danir skrifa upp á Maastricht-samningana í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í raun sýna skoðanakannanir að verulegur meiri hluti þeirra sem afstöðu hefur tekið að undanförnu er í andstöðu við þessi áform. Ég vil þó að sjálfsögðu ekkert fullyrða um það hver staðan verður þegar á hólminn er komið en ég er sammála hæstv. forsrh. um að það getur haft mjög víðtæk áhrif á stöðu þessara mála á Norðurlöndum í heild. Þarf það þó eitt ekki að koma til því það er einnig umræða í gangi innan hinna landanna, Svíþjóðar og Finnlands, sem þegar hafa sótt um aðild að Evrópubandalaginu eða Evrópusamveldinu, eins og réttara væri að kalla það eftir Maastricht.
    Það var Svíþjóð sem reið á vaðið með aðildarumsókn. Haustið 1990 gerðust þau undur að margra mati að sænska krataríkisstjórnin tók ákvörðun um að stefna að aðild að Evrópubandalaginu og setti það fram í eins konar bandormi, eins konar kreppuráðstöfun í efnahagsmálum, það stefnumið að kúvenda frá stöðu og stefnu Svíþjóðar í utanríkismálum. Síðan var þetta innsiglað í fyrrasumar með sérstakri ákvörðun og samþykki í Ríkisdeginum sænska. Þetta gerðist nánast án nokkurrar umræðu þar í landi. Stjórnmálamennirnir sáu þetta sem einhverja útleið úr þrengingum í efnahagsmálum. Spurningin var um það hvort lækka ætti gengið enn einu sinni og það var tekin ákvörðun í þessa átt. Almenningur var ekki spurður. Almenningur hafði ekki rætt málið. Það var ekki búið að kynna sænskum almenningi hvað hér var á ferðinni í raun og veru. Og það er fyrst nú undanfarna mánuði sem einhver umræða að ráði hefur hafist í Svíþjóð um þessi efni. Og til hvers hefur sú umræða leitt? Skoðanakannanir sýndu fyrir ári síðan að 2 / 3 eða þar um bil af sænskum kjósendum sem afstöðu tóku skrifuðu upp á stefnu stjórnvalda um að sækja um aðild og lýstu sig jákvæða en nú er það minni hluti kjósenda sem þannig svarar og breytingarnar hafa verið mjög hraðfara undanfarna mánuði. Að vísu, samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í Svíþjóð, svarar meiri hluti þeirra sem svarar spurningunni um aðild játandi eða 44% sem segja já en 36% segja nei. Það eru tölurnar úr síðustu skoðanakönnun frá því í marsmánuði. En ef bætt er við spurninguna: Viljið þið gerast aðilar að Evrópusamveldinu? Viljið þið gerast aðilar að því Evrópubandalagi sem verður eftir að búið er að staðfesta Maastricht-samningana? --- þá snýst dæmið við, þá er orðinn bullandi meiri hluti með því að segja nei við aðild, þ.e. aðild að hernaðarsamstarfinu og sameiginlegri utanríkisstefnu, því sem felst í því að sækja um aðild að EB í dag.
    Nú ríkir upplausnarástand í sænsku flokkunum, þ.e. mikil ólga og gerjun er innan krataflokksins, innan Sósíaldemókrataflokksins sænska. Þeir eru í hreinustu vandræðum með það hvernig þeir eiga að standa að málum nú á næstunni í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrirhuguð er 1994 um þetta mál. Það sýnir sig nefnilega að enginn tryggur meiri hluti er lengur fyrir þessari stefnu í Sósíaldemókrataflokknum sænska heldur þvert á móti. Þeir sem eru neikvæðir í afstöðu til EB vinna stöðugt á og stefnir þar í meiri hluta. Sama er að gerast hjá sænska Miðflokknum þar sem gagnrýnin var alltaf miklu meiri. Þar lýsa nú

um 80% stuðningsmanna flokksins neikvæðri afstöðu til aðildar að Evrópubandalaginu og Olaf Johanson, formaður flokksins, er nánast eins og í fangelsi, búinn að skrifa upp á stjórnarsáttmála sem felur í sér að það eigi að láta reyna á aðild. Einnig er í Folkaflokknum sænska nákvæmlega það sama upp á teningnum, að vísu er meiri hluti ekki neikvæður en nærri því 40% sögðu nei á nýafstöðnum fundi. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig í Svíþjóð þessa dagana og Carl Bildt, sem berst eindregið fyrir þessu og skrifar upp á allt sem varðar Maastricht, er auðvitað að verða dálítið eins og kalkvistur í þessari umræðu. Hann og Hægri flokkurinn ætla sér og ætluðu að nota tækifærið með aðildarumsókninni til þess að skera sænska velferðarkerfið niður við trog því það eru auðvitað áformin sem tengjast þessu í hugum hægri manna sem vilja gjörbreytingu á því velferðarkerfi á Norðurlöndum sem við höfum búið við. Þegar svona leki er kominn að móðurskipinu í Svíþjóð halda menn þá að það sé eitthvað borðleggjandi að Svíar samþykki aðild að Evrópubandalaginu, aðild að Evrópusamveldinu, eftir eitt og hálft ár eða svo í þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður væntanlega bindandi fyrir afstöðuna í þessu máli?
    Finnland, segja menn, setti kúrsinn á Evrópubandalagið og varð að gera það eftir að Svíþjóð sótti um aðild. Auðvitað hafði aðildarumsókn Svía áhrif. Ríkisdagurinn finnski samþykkti 18. mars sl. þessa stefnu finnsku ríkisstjórnarinnar eftir að Esko Aho las okkur pistilinn á Norðurlandaráðsþingi nýlega og þann boðskap að þjóðríki væru nánast úrelt fyrirbæri. Þá tókst honum að brjótast yfir mjög öfluga andstöðu í Miðflokknum finnska, auðvitað með hótunum og vísun til þess að ríkisstjórnin mundi falla ef svona yrði. Í miðflokkunum í þessum ríkjum er nú hver höndin upp á móti annarri í þessum efnum í andstöðu við forustu flokkanna og meiri hluti sem þar er í rauninni er andstæður þessum áformum. Staðan er þannig í Ríkisdeginum að þar er enginn tryggur 2 / 3 aukinn meiri hluti fyrir aðild að Evrópubandalaginu, jafnvel þó að samningar tækjust en samkvæmt finnsku stjórnarskránni þarf 2 / 3 til að samþykkja slíka aðild ef til kæmi.
    Hv. þm. Björn Bjarnason skrifar grein í Morgunblaðið 25. mars sl.: ,,Finnar á hraðferð inn í Evrópubandalagið.`` Ég held að það væri rétt að Alþingi styrkti hv. þm. til að fara til Finnlands til að setja sig inn í málin áður en hann fer að nota þessa stöðu í Finnlandi og horfa á málin með þeim gleraugum sem hann notar þegar hann ritar þessa grein í Morgunblaðið til að ráðleggja Íslendingum að feta í fótspor Finna. Það er þessi fulltrúi Sjálfstfl. í utanrmn., sem í rauninni er að segja það og ekkert annað í þessari grein, sem þið skuluð kynna ykkur, að Íslendingar eigi nú að söðla um og feta í fótspor Finna. Ég leyfi mér að finna orðum mínum stað með lítilli tilvitnun, virðulegi forseti: ,,Full ástæða er fyrir okkur Íslendinga að fylgjast náið með því hvernig Finnar hafa staðið að því að móta stefnu sína og taka ákvarðanir um þátttöku í EB. Þótt aðstæður okkar og Finna séu ekki hinar sömu er margt líkt með hagsmunum þjóðanna þegar litið er til Evrópusamstarfsins.`` Fleira segir þar undir lokin en ég tek ekki tíma í að rekja það nánar. Þetta ættu menn að kynna sér. Og það sýnir okkur auðvitað að öflugir talsmenn eru innan Sjálfstfl., við vissum það auðvitað fyrir, sem hugsa mjög eindregið í þessa átt og ef þeir fengju einir ráðið mundu þeir þegar í stað skrifa upp á hugmyndir hæstv. utanrrh. í þessum efnum. Það er kannski ekkert skrýtið þegar horft er til þess að núv. hæstv. forsrh. var með hugann mjög upptekinn við þetta hér fyrir tveimur árum eða svo að aðferðin til þess að kanna landslagið væri að sækja um aðild eins og kom fram í nefndaráliti á landsfundi Sjálfstfl. haustið 1989. En skoðanir eru afar skiptar í þessum stóra flokki og hæstv. forsrh. hefur tekið þá skynsamlegu afstöðu að bíða og sjá til. Við skulum vona að þessi bið verði til þess að bæði hann og Sjálfstfl. komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki mjög skynsamlegt að slá af íslenska lýðveldið, íslenskt fullveldi, með því að ganga inn í Evrópubandalagið.
    En þetta var Finnland. Hvað um Noreg? Þar hafa átökin verið með mjög hörðum og áberandi hætti um langt skeið og umræðan öðrum þræði farið fram í ljósi þess sem gerðist fyrir 20 árum í Noregi þegar tillaga valdamanna á þeim tíma um aðild að Evrópubandalaginu var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu sem enn sjást örin eftir í norsku samfélagi. Síðustu skoðanakannanir þar sýna járn í járn milli þeirra sem segja já við inngöngu í Evrópubandalagið og þeirra sem segja nei. 41% á móti 41% og 18% sem voru óvissir í afstöðu sinni. Það var um 10. mars sem þessi skoðanakönnun var gerð á vegum Opinion-stofnunarinnar fyrir Aftenposten. Þetta þekkja menn og þróunin hefur verið að ganga í þá átt upp á síðkastið að þeim, sem eru neikvæðir gagnvart inngöngu og aðildarumsókn, hefur vaxið ásmegin. Það er mjög langt frá því, eins og látið er að liggja af hæstv. utanrrh. bæði í orði og riti, að líkurnar vísi á það að niðurstaðan verði aðildarumsókn í vil í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi. Það er mjög langt frá því að menn eigi að leiða líkur að því. Slík er óvissan þar í landi. Nú eru aðeins fáir dagar í það að Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, komi út úr híðinu og segi það sem allir vita, hver hugur hennar er í sambandi við inngöngu í Evrópubandalagið. Það er 4. apríl, eftir þrjá daga, sem hún mun á fylkisþingi norskra jafnaðarmanna í Hörðalandi skýra frá afstöðu sinni, viðhorfi til aðildar. Einmitt núna á næstu dögum heldur um helmingurinn af fylkiseiningum norska Verkamannaflokksins flokksþing sín til að kjósa fulltrúa á landsfundinn sem verður ekki síðar en í nóvember nk.
    Norski krataflokkurinn er klofinn í tvennt í þessum efnum og það er ekki friðvænlegt á þeim bæ. Það þekkja alþýðuflokksmenn hér, við vitum það af umræðunni og hefur ekki farið leynt. Þeir flokkar í Noregi sem hafa haft þá stefnu --- ég vil segja hafa haft vit á því --- að taka aðra afstöðu nú um lengri tíma, Sósíalíski vinstri flokkurinn og Miðflokkurinn, hafa sópað til sín fylgi að undanförnu vegna þeirrar stefnu sinnar. Þó það finnist einstaka aðilar í þeim flokkum sem hafa aðra afstöðu hefur meiri hlutinn verið mjög skýr og ljós og afstaðan eindregin. Nú eru sem sagt möguleikar á því að forusta Verkamannaflokksins verði undir, ef ekki formlega þá í reynd, ef reynt verður að knýja þessa stefnu fram í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi.
    Málin eru því þannig að það er mjög langt frá því að menn geti gefið sér það að þessi hraðlest til Brussel fari nokkurn tímann af stað nema kannski bara eimvagninn ósköp einmana með Carl Bildt, Esko Aho og Gro Harlem. Góða ferð. En ekki er víst að þjóðirnar fylgi foringjunum. Það er það merkilega, lærdómurinn sem hægt er að draga af því sem hefur verið að gerast á Norðurlöndum að undanförnu. Það er þessi breyting, þessi stóra breyting á afstöðu almennings, loksins þegar farið er að ræða málin og menn hafa áttað sig á því hvað raunverulega var að gerast. Þetta á alveg sérstaklega við Svíþjóð og Finnland.
    Annað mál er svo að í hinum EFTA-ríkjunum sem eftir standa fyrir utan Ísland, þ.e. Austurríki og Sviss, er svipað á ferðinni, þ.e. vaxandi andstaða eftir því sem mönnum verður ljóst hvað hér er á ferðinni. Ég skal ekki leiða neinum getum að því hvað þar gerist en auðvitað er það athyglisvert að átta sig á því. Þar gildir það sama. Forusta flokkanna, sem hafa verið að taka þessa stefnu, fær ekki fólkið með sér í þeim mæli sem menn höfðu vænst. Skilningur og tilfinning almennings í þessum löndum á gildi þess að varðveita sjálfstæðið, standa vörð um þjóðlegt sjálfstæði, er annað en menn höfðu reiknað með. Staða þeirra og mat þeirra sem vilja varðveita smáþjóðina sem einingu og með sem mest sjálfræði, þó í breyttum heimi sé, á meiri hljómgrunn og ríkari meðal almennings í löndunum en foringjarnir hafa ætlað.
    Ég taldi rétt, virðulegur forseti, að draga þetta fram vegna þess að skýrsla hæstv. utanrrh. úir og grúir af rangfærslum á þessu stöðumati. Auðvitað er hann að reyna að segja okkur það að þetta sé allt öðruvísi af því að hann er að rökstyðja það að við eigum að stíga um borð. Hann er að rökstyðja það. En þetta er ekki heiðarlegt, hæstv. utanrrh. Það er ekki heiðarlegt að þegja yfir þróun mála í löndum sem eru þó með þá lýðræðislegu fótfestu að greiða á þjóðaratkvæði um slíkt mál og jafnvel í sumum löndum um Evrópskt efnahagssvæði eins og eðlilegt væri og sjálfsagt að gert yrði hérna.
    Hitt er svo annað mál og skiptir minna máli fyrir umræðuna hjá okkur en við hljótum þó að taka eftir, það eru líkurnar á því að komið verði til dyra ef bankað er í Brussel. Það er alveg rétt sem nefnt var hér af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur í stuttu innleggi í umræðunni í gær að langt er frá því að menn hafi gert upp hug sinn hjá Evrópubandalaginu um hvort og í hvaða mæli eigi að hleypa inn fyrir, jafnvel bara að samningaborði. Delors var að segja Evrópuþinginu að nú yrði að fara í gegnum stofnanir og ákvarðanatökuferli, hvernig tekið er á málunum. Þetta verður allt að endurmeta á þessu ári áður en til samningaviðræðna við önnur ríki kemur. Öll lýtur þessi þróun að því að staða smáríkjanna, sem hyggja á inngöngu verður veikari, verður önnur, allt önnur en var áður en Maastricht-samningarnir voru gerðir við óbreytt kerfi. Meira að segja tungumálaþátturinn hefur breyst en hann var notaður hér sem agn af þeim sem voru að gylla inngöngu því að þar væri svo vel fyrir séð að menn gætu talað sitt móðurmál á öllum fundum. Það er ekki bara enska eins og í Evrópsku efnahagssvæði, þar sem enska er hið opinbera mál og engin túlkun. Haldið þið að allir fundir séu túlkaðir á móðurmálið? Ónei, það er ekki borðleggjandi heldur. Einnig það er til endurskoðunar. Spurningin um svokallaða tilfærslu á formennsku milli allra þátttökuríkja er til umræðu og endurmats og mjög ólíklegt að hæstv. utanrrh., hver sem hann verður í framtíðinni hér á landi, sitji við borðsendann í ráðherraráði Evrópubandalagsins ef ógæfa Íslands yrði slík að hann ætti þar stól.
    Vissulega er viðleitni hjá hæstv. utanrrh. að segja svolítið frá því hvað í Maastricht-samningnum felst. Það er reynt, en mér finnst áherslurnar vera mjög sérkennilegar, hvernig það mál er fyrir lagt í skýrslunni. Ekki er verið að draga fram aðalatriði máls, þar er allt sett í nokkra þoku í sambandi við það hvað í samningnum felst. Ég held að hæstv. utanrrh. ætti að láta þýða þetta plagg á íslenskt mál. Menn eru hér komnir í nokkra þjálfun í EB-rétti og tungutaki eftir að hafa farið í gegnum hluta af EES-skjölunum og komið því á íslensku. Ég held það væri rétt fyrir hæstv. utanrrh. áður en hann gerði nokkuð annað til að kanna spurninguna um aðildarumsókn að Evrópubandalaginu að láta þýða þennan nýja sáttmála, þessa stóru viðbót við Rómarsáttmálann, svo menn vissu eitthvað hvað hér væri um að ræða.
    Það er verið að gera það að meginatriði máls í umræðunni af hálfu þeirra sem tala um að láta reyna á aðild að Evrópubandalaginu að það sé fyrst og fremst einn þáttur sem þar skiptir sköpum. Það er hin margumtalaða sameiginlega fiskveiðistefna Evrópubandalagsins. Hæstv. utanrrh. er að vísu varfærinn í mati á þeirri stöðu en hann lætur samt að því liggja að það sé fræðilegur möguleiki, og ég skal ekkert hafa af honum með það, að hægt sé að hugsa sér að hún breytist í framtíðinni og að þar verði landslagið eitthvað annað. En það er mjög fjarri lagi að verið sé að breyta þessari sameiginlegu fiskveiðistefnu núna í eitthvað af því sem máli skiptir. Hérna er skýrsla frá því um áramótin frá framkvæmdastjórn EB til ráðherraráðsins og þingsins um þetta efni sem dregur upp stöðuna í þessu máli varðandi þá umræðu um endurskoðun sem hægt væri að gera, samkvæmt samningi að sameiginlegri fiskveiðistefnu. Þetta er allt saman smá snurfus á þeirri stefnu og allt vísar á það að hún haldi gildi sínu, þ.e. að samkomulagið frá 1982 framlengist um tíu ár og ef það fellur úr gildi er það grundvöllur Rómarsáttmálans sem tekur við og ekkert annað.
    Það er mjög merkilegt að lesa vangaveltur lærðra manna uppi í háskóla í sambandi við sameiginlegu fiskveiðistefnuna. Það er vissulega athyglisvert að menn eru að reyna að krafla sig eitthvað fram úr EB-rétti þar í skóla og margt ágætt sem hefur komið fram. Ég nefni t.d. rit prófessors Stefáns Más Stefánssonar um þau efni sem vissulega er mjög til bóta að liggi fyrir á íslensku máli. En varðandi þær greinar sem koma öðru hvoru frá lærðum mönnum uppi í háskóla, frá félagsvísindadeild, stjórnmálafræðingum

o.s.frv., finnst mér vel hægt að taka undir með hv. þm. Steingrími Hermannssyni sem talar um að þeir séu að dáleiða sjálfa sig inn í EB. Hugurinn og kappið leynir sér ekki í þessum skrifum en undirstöðurnar eru vægast sagt veikar. Síðast í gær lásum við eina slíka grein í Morgunblaðinu eftir aðila sem hefur undanfarin missiri verið mjög ötull við það að telja Íslendingum trú um að þeirra hag væri vel borgið innan EB. Það er Gunnar Helgi Kristinsson sem skrifar um rökin fyrir aðild Íslands að Evrópubandalaginu og auðvitað er fróðlegt að átta sig á þeim hugarheimi sem þar birtist.
    Áður en menn fara að velta meira vöngum yfir sameiginlegu fiskveiðistefnunni ættu menn kannski að svara grundvallarspurningum um hvort þeir vilji kasta sjálfræði Íslendinga fyrir borð. Það finnst mér kjarni málsins. Telja menn að það að afsala sér landsréttindum, afsala sér fullveldinu, leggja örlög Íslands í einn pott úti í Brussel, af því að menn vilja gjarnan frekar tala um að leggja saman reiturnar með inngöngu í Evrópubandalagið, sé ráð sem beri að veðja á? Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því áður en þeir fara að líta á sameiginlegu fiskveiðistefnuna sem þá þúfu sem helst sé til fyrirstöðu fyrir Íslendinga til þess að gerast aðilar.
    Virðulegur forseti. Hverfum nú frá þessu aðalhugðarefni hæstv. utanrrh. í skýrslunni, þessu nýjabrumi sem hæstv. ráðherra var að kasta fram í umræðuna með framlagningu þessarar skýrslu og komum að því sem hæstv. forsrh. segir okkur að sé staða málsins frá sjónarhóli ríkisstjórnar sinnar, þ.e. að aðild að Evrópubandalaginu sé ekki á dagskrá nú heldur það að ná samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Og þá er að ræða það, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Ég orðaði það svo hér í gær að í rauninni hafi hæstv. utanrrh. verið að kasta rekunum á þann samning með ræðu sinni hér í gær. Ég tel að það liggi fyrir að mat utanrrh. á möguleikunum á að þessi samningur verði staðfestur eða komist á það stig að vera staðfestur sé ekki bjartsýnt frá hans bæjardyrum séð heldur miklu frekar --- og kannski er það skýringin á því að hæstv. ráðherra velur þann kost að draga fram aðildina að Evrópubandalaginu sérstaklega nú í sambandi við þessa skýrslugjöf til Alþingis --- að hann óttast í rauninni að þriggja ára strit, sem hann hefur verið ötull þátttakandi í, til að koma á samningi um Evrópskt efnahagssvæði hafi verið unnið fyrir gýg. Það ætla ég að vona að reynist niðurstaðan. Þá væri mikilli vá frá okkur bægt ef þetta hugverk félli og næði aldrei lengra en hafa komið hér sem drög að samningi, óstaðfest, inn á borð Alþingis Íslendinga en þyrftu ekki að tefja störf okkar hér frekar.
    Hins vegar getum við engan veginn verið viss um að málin séu þannig og þess vegna hljótum við að ræða þetta mál, Evrópskt efnahagssvæði, sérstaklega og stöðu þess. Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma að þessu sinni. Ég hef oft úr þessum ræðustóli lýst mínum viðhorfum í því efni og ég vænti þess og tel að það séu ýmis merki þess að þeim sé að fjölga hér á landi sem skoða málin gagnrýnið að því er varðar Evrópskt efnahagssvæði. Ég tel að gatan verði engan veginn eins greið fyrir það mál og hæstv. utanrrh. væntir ef það kemur til kasta Alþingis Íslendinga.
    Þessi samningur er eins og oft hefur verið sagt stór áfangi á leið inn í Evrópubandalagið og hann mun auðvelda þeim öflum eftirleikinn sem vilja fara alla leið. Í ljósi þess ber að skoða þennan samning. Það er hrein tálsýn, sem reynt er að telja mönnum trú um og virðist nægja fyrir suma, að hugsanlegt verði að stöðva sig af með þennan samning og halda ekki lengra. Ef menn ættu þá kosti og gætu gert ráð fyrir þeim gætu þeir valið á milli þeirra og þá er að sjálfsögðu staðan sú að Evrópskt efnahagssvæði, eins og það liggur samningslega fyrir, er allt annars eðlis, a.m.k. að formi og inntaki, verulega annað en aðild að Evrópubandalaginu. Það sér auðvitað hver maður sem setur sig inn í þetta mál.
    En samhengið er það sem máli skiptir og matið á því hvort þessi samningur fær staðist og hver er staðan til að verjast ásókn þeirra sem vilja fara alla leið og gera kröfu um það. Ég hef verið sannfærður um það, og mér finnst að æ fleiri rök hafi komið fram fyrir því eftir því sem liðið hefur á umræður um þennan samning og samningaumleitanir, að þetta verður raunin enda er staðan sú á hinum Norðurlöndunum þar sem stjórnvöld hafa tekið mið af aðild að Evrópubandalaginu. Þar er þessi samningur ekki ræddur sem neitt sjálfstætt fyrirbæri. Þar er alls ekki með því reiknað og auðvitað kemur það mat víða fram í skýrslu hæstv. utanrrh. Og það er eitt af því sem menn þurfa að svara hér og nú varðandi þennan samning. Hver væri staðan með slíkan samning eftir að Ísland eitt eða ásamt einu eða tveimur öðrum EFTA-ríkjum stæði eftir með þetta á bakinu og hin ríkin væru gengin inn og Evrópubandalagið komin hinum megin við borðið? Hæstv. utanrrh. er að leiða líkur að þessu því að hann hefur ekki trú á að hin Norðurlöndin hafni aðild. Hann hefur ekki mikla trú á því og þá segir hann í skýrslu sinni: Þá er góð staða til þess að breyta þessu og ná samningi um íslenska hagsmuni, plokka rúsínurnar úr þessum samningi, endursemja, fá stofnanaþáttinn út og allt það kerfi sem byggt er upp í kringum þennan samning og menn þekkja úr bláu bókunum. Staða Íslands gæti verið alveg viðunandi að því búnu. Þetta er mikil bjartsýni og ég bið þá sem þessu trúa að koma hér í ræðustól og rökstyðja sitt mál. Ég bið t.d. þá talsmenn Framsfl. sem eru að gera því skóna að þetta geti orðið brúkleg niðurstaða að koma í ræðustól og segja okkkur frá því hvernig þetta eigi að gerast, hvernig menn sjá þetta hopp út úr EES-samningi yfir í tvíhliða samning til að tryggja hagsmuni Íslendinga. Og eftir að liðinn er nokkur tími og Ísland orðið þátttakandi í meiri hlutanum af lögum og reglum Evrópubandalagsins, ómálga þarna inni --- eins og fylgir þessum EES-samningi því að þar hafa menn í rauninni engin ráð til að verjast lagasetningum EB og ætla síðan að ná landi með íslenska hagsmuni og Alþfl. hér og sterk stjórnaröfl í öðrum flokkum til þess að reka á eftir og ýta alla leið --- það er þokkaleg staða. Þessa áhættu megum við ekki taka.

    Ég heyrði það frá hv. 1. þm. Austurl., sem er nú ekki hér í þingsal en mætti gjarnan vera viðstaddur ef hann er í húsi, virðulegur forseti, að málflutningurinn um að Evrópskt efnahagssvæði væri aðeins áfangi á leiðinni í Evrópubandalagið og mundi auðvelda eftirleikinn þeim sem vilja fara inn í Evrópubandalagið væri alveg út í hött. Þetta segja menn án þess að færa nokkur rök fyrir sínu máli enda komu þau ekki fram í hans máli. Og ég trúi því ekki að formaður Framsfl. sé í raun þeirrar skoðunar að það sé hægt að taka málin þessum tökum. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur slegið marga varnagla í umræðum um þessi mál á liðnum árum. En þegar hann illu heilli lagði upp í þessa ferð 1989, knúinn af utanrrh. ríkisstjórnar sinnar, og álpaðist út í samninga í gegnum EFTA um Evrópskt efnahagssvæði þá var það með mjög skýrum fyrirvörum af hans hálfu í orði en þeir komust aldrei inn á borðið. Hæstv. utanrrh. sá um það. Og síðan hefur það gerst, allir fyrirvarar eru horfnir nema fyrirvarinn í sjávarútvegsmálunum og hvers virði er hann? Jú, hann er betri en enginn. Og hæstv. utanrrh. segir: Okkur tókst að verja auðlindirnar. En nú liggur það fyrir að vísu í ófullgerðum samningi.
    Ég spyr hæstv. utanrrh.: Hvenær kemur sá tvíhliða samningur um sjávarútvegsmálefni milli Íslands og EB varðandi veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu m.a.? Hvenær kemur hann hér inn á borð okkar þingmanna? Hvenær verður hann til sýnis? Hvenær liggur hann fyrir? Samningur sem felur það í sér að Evrópuandalagið tryggir sér veiðar á 3.000 lestum af karfa svona til að byrja með og vísað er á pappírsloðnu á Grænlandsmiðum sem aldrei hefur verið veidd, ekki eitt tonn síðan 1986. Evrópubandalagið er með þá stöðu í þessum samningi að geta á tveggja ára fresti tekið málið upp til umræðu og knúið á og notað þrýsting til þess að heimta meira af Íslendingum, a.m.k. ef þeir vilja sækja einhvern meiri rétt gagnvart þessum samningi. Og þetta er að verja auðlindirnar.
    Ég tel, virðulegur forseti, að að því er snertir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sé mikil þörf á því að menn noti tímann ef samningurinn verður að veruleika og áður en hann verður að veruleika til þess að fara í gegnum málin á Alþingi Íslendinga. Það er alveg hörmulegt til þess að vita að í rauninni hefur öll skipuleg vinna á vegum Alþingis við að fylgjast með þróun mála í Evrópubandalaginu legið niðri að því er snertir þennan samning síðan fyrir kosningar.
    Hér var starfandi á vegum þingsins Evrópustefnunefnd sem svo var kölluð undir forustu Kjartans Jóhannssonar og síðan hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Hún hefur ekki verið lögð formlega niður, hún hefur sofnað. Hvers vegna var talið nauðsynlegt að ýta þessum vettvangi burt --- þar sem þó var verið að vinna að því að halda þræði í þessum málum og koma upplýsingum á framfæri við Alþingi og almenning í ritum sem menn þekkja --- þegar nær dró úrslitum í þessum málum? Það er eingöngu utanrmn. sem fjallar um þessi mál en sú málafylgja öll er mjög í skötulíki og upplýsingamiðlun frá utanrmn. til þingsins um stöðu mála er sáralítil. Þannig hagar til að formaður utanrmn., sem hefur lengi verið varðstöðumaður í sambandi við fiskveiðiauðlindir okkar og vökumaður í þeim efnum, hefur ekki allt of mikinn stuðning í sínum flokki, því miður. Hann hefur ekki allt of mikinn stuðning við sín sjónarmið og það er ekki mikið ýtt á hann, held ég, að koma málum frá lokuðum fundum utanrmn. inn á borð alþingismanna og til almennings. Það hlaut að vera meiningin með því að svæfa Evrópustefnunefndina að utanrmn. ætlaði að taka til hendi og sjá um að miðla upplýsingum til þings og þjóðar. Þetta hefur ekki verið gert. Og við sitjum hér með bláar bækur og ég spyr: Eru menn búnir að lesa þetta? Eru menn búnir að skrifa niður spurningarnar sem blasa við í hverri grein og hverju fylgiskjali? Svo ekki sé talað um bækurnar sem eiga eftir að fylgja, tíu bindi sjálfsagt sem menn eiga að lesa á sumardögunum ef áætlanirnar um EES ganga upp, fyrir utan frumvörpin sjötíu eða áttatíu sem boðað er að komi hér inn í þingið. Það er staðan sem blasir við ef stefna ríkisstjórnarinnar, hin opinbera stefna, um að það eigi að reyna að ná saman endum um Evrópskt efnahagssvæði, gengur eftir og gengur upp. Eru menn ekki að leika sér hér að fjöregginu með óeðlilegum, ég vil segja ósæmilegum hætti?
    Mér finnst að ekki hafi verið mikið um að vera á Alþingi Íslendinga síðan í janúar. Ég skrapp að vísu úr landi og hafði varamann í tvær vikur og það var ekki allt saman uppörvandi sem barst frá sölum Alþingis á þeim dögum. En það hefur ekki verið mikið hér umleikis og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum sér ekki ríkisstjórnin til þess með forustu í nefndum í þinginu að menn séu þá að skoða þetta fósturbarn, EES-samninginn, til þess að greiða eitthvað fyrir þessu máli? Að menn setji sig inn í samninginn og séu færir um að taka rökstudda afstöðu til mála frekar en að láta þingið sitja hér starfslítið vegna þess að ríkisstjórnin hefur sáralítið fyrir það að leggja.
    Alþb. ályktaði um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði á landsfundi sínum í nóvembermánuði. Landsfundurinn fól þingflokki Alþb. að taka afstöðu til málsins ef og þegar þar að kemur. Afstaða Alþb. endurspeglast í samþykkt þess sem ég nefndi og þeir sem lesa hana geta leitt líkur að því hvert er viðhorf og niðurstaða flokksins í þessu máli. Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að grípa niður í þessari samþykkt flokksins. Þar stendur:
    ,,Alþb. setti í tíð síðustu ríkisstjórnar skýra og ákveðna fyrirvara vegna þeirra viðræðna sem þá hófust milli EFTA og Evrópubandalagsins og það gerði einnig þáv. forsrh. Alþb., hafði m.a. fyrirvara um mörg ákvæði svonefnds fjórfrelsis varðandi flutning fjármagns, þjónustu og vinnuafls. Vegna viðræðna um EES lagði Alþb. áherslu á það sem meginforsendur að tryggð yrði frjáls skipan viðskipta með sjávarafurðir hliðstætt því sem gerist um iðnaðarvörur, að Íslendingar haldi óskertu forræði yfir auðlindum lands og sjávar og að ekki verði um að ræða yfirþjóðlegar stofnanir.

    Þegar niðurstöður þessara samningaviðræðna liggja nú fyrir er ljóst að þær eru ekki í samræmi við ofangreindur forsendur og fyrirvara Alþb. Fyrir árslok 1990 lágu fyrir hugmyndir um það frá EFTA að láta undan kröfum EB um að falla frá varanlegum fyrirvörum. Það mál var ekki afgreitt í fyrri ríkisstjórn fyrir alþingiskosningar sl. vor og það var fyrst við myndun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að utanrrh. fékk fyrirvaralaust umboð til samninga.``
    Síðan er vikið nokkrum orðum í þessari samþykkt að þeim jákvæðu punktum sem er að finna í þessum samningi að því er varðar m.a. lækkaða tolla gagnvart útfluttum sjávarafurðum sem auðvitað er út af fyrir sig jákvæður þáttur í þessu máli hvar svo sem hægt er að ná slíku fram. ,,Enginn varanlegur fyrirvari er í samningnum``, stendur hér, ,,um búferlaflutninga til landsins, heldur aðeins einhliða yfirlýsing íslenskra stjórnvalda þess efnis að þau kunni að grípa til öryggisráðstafana ef um alvarlegar truflanir verði að ræða á vinnumarkaði. Svokallað almennt öryggisákvæði sem talsmenn samningsins vísa til veitir hins vegar afar takmarkað svigrúm og samningsaðilar hafa óskoraðan rétt til gagnaðgerða og málshöfðunar.`` Og hér stendur einnig:
    ,,Landsfundur Alþb. varar íslensku þjóðina við fjölmörgum ákvæðum í EES-samningnum og þeirri miklu áhættu sem tekin væri með samþykkt hans fyrir stjórnarfarslegt og efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga. Með EES-samningi værum við að lögfesta drjúgan hluta af ákvæðum Rómarsamningsins og samþykktum Evrópubandalagsins og margt bendir til að það auðveldi þeim eftirleikinn sem vilja koma Íslandi alla leið inn í Evrópubandalagið.
    Landsfundurinn ítrekar þá stefnu flokksins að ekki komi til greina að Ísland leiti eftir aðild að Evrópubandalaginu en það er um þessar mundir að stíga stór skref í átt að ríkisheild. Ekki hefur verið sýnt fram á að nauðsyn reki Íslendinga til að gera samning um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Við getum einhliða tekið ákvörðun um aðlögun að breytingum í Evrópu sem og annars staðar eftir því sem samræmist íslenskum hagsmunum. Við höfum hagstæðan viðskiptasamning við Evrópubandalagið ásamt bókun sex og við getum leitað eftir útvíkkun á honum og endurbótum í tvíhliða viðræðum. Jafnframt hefur um árabil verið unnið að tvíhliða samningum milli Íslands og EB á öðrum sviðum og slíkir gagnkvæmir samningar liggja nú fyrir um marga þætti óháð EES-samningi, m.a. í skólamálum, umhverfismálum og varðandi rannsóknir og menningarstarfsemi. Slíkt samstarf eigum við að þróa áfram til að tryggja sem best gagnkvæm tengsl og samskipti við aðrar Evrópuþjóðir. Viðskiptalegir hagsmunir Íslendinga kalla hins vegar á það að við höfum góða samvinnu einnig við aðra heimshluta. Í því efni veitir lega lands okkar góðan grundvöll sem og sérstaða íslensks samfélags á mörgum sviðum.``
    Virðulegur forseti. Það væri freistandi að ræða þennan þátt málsins, stöðu Íslands án samnings um Evrópskt efnahagssvæði og án hugmynda um aðild að Evrópubandalaginu sérstaklega. Ég ætla með tilliti til þátttöku annarra í þessari umræðu ekki að fara í þessari ræðu út í þá þætti mála en þeir skipta auðvitað grundvallarmáli þegar við erum að meta möguleika okkar og stöðu. Þar er spurningin að meta möguleika Íslands sem sjálfstæðrar þjóðar, óháðrar samsteypum stórvelda og annarra ríkja eins og nú eru að myndast í Vestur-Evrópu, möguleika okkar með óskoruð yfirráð yfir íslenskum auðlindum, möguleika okkar á því að nota landfræðilega stöðu Íslands til framdráttar íslenskum hagsmunum í framtíðinni, spila úr því sem landnámsmennirnir festu trú á fyrir löngu síðan, þeir sem tóku sér bólfestu í landinu, og sem hefur skilað Íslandi til velmegunar á þessari öld, möguleika okkar á samstarfi jafnt við Evrópu sem Norður-Ameríku og önnur svæði, þar á meðal Austur-Asíu. Ef við viljum nota þá möguleika, ef við viljum rækta þá, þá eru þeir geysilega miklir. En úrslitaþýðingu hefur það að Ísland haldi sjálfræði, afsali sér ekki stjórntækjum sínum, verji auðlindir sínar og um fram allt, beiti sér af alefli á sviði umhverfismála til þess að auðlindirnar haldi gildi sínu og gæðum fyrir íslenska þjóð.