Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 14:53:00 (4961)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sú umrædda nefnd, sem okkur hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni þykir áreiðanlega báðum mjög vænt um, er ekki þingnefnd í venjulegum skilningi en kosin af Alþingi og í henni eru eða voru níu alþingismenn. Ég held að ég hafi örugglega getið þess, bæði við hv. þm. Hjörleif Guttormsson og aðra sem voru í nefndinni þegar hún var að hægja á sér að ég væri reiðubúinn að kalla hana saman hvenær sem menn vildu og það er ekkert í veginum að gera það. En eins og ég gat um áður væri það kannski tvíverknaður, en við sjáum bara til. Ég er reiðubúinn til að starfa í henni áfram ef menn vilja. Það er engin formleg ákvörðun um að leggja hana niður, hvorki frá mér né neinum öðrum svo að ég viti til. Hún er þess vegna í gildi og það yrði kannski að endurnýja í henni eitthvað liðið en hún hefur ekki verið lögð niður. Það er sameiginlegur skilningur okkar hv. þm. Ágætt er að hafa hana í bakhöndinni ef svo slægist að menn vildu ræða eitthvað ítarlegar um Evrópumálin en gert er. Þess vegna mun ég á þessu stigi ekki hafa frumkvæði að því að hún verði lögð niður.