Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 15:45:00 (4965)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. 15. þm. Reykv. missti af einhverjum kafla í ræðu minni því að ég taldi mig einmitt hafa fjallað um þetta að ákvarðanir væru teknar, síðan kæmu þessar skoðanakannanir, síðan liði tími og síðan yrði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu og þá kæmi endilega ekki sú niðurstaða fram. Ég tók einmitt líkinguna af friðarhreyfingunum eins og kannanirnar sýna núna. Hve oft heyrðum við ekki á árunum 1979--1983 --- og ef hv. 15. þm. Reykv. hefur lesið greinar mínar af mikilli athygli, sem ég vona að hún hafi gert, þá hefur hún séð að hvað eftir annað hef ég bent á þessa staðreynd --- að talið um það að friðarhreyfingarnar hafi svo og svo mikil áhrif reyndist rangt? Ég velti því aðeins upp að umræður núna um það að tal núna um skoðanakannanir, hvað kann að gerast í þjóðaratkvæðagreiðslu í Svíþjóð eftir tvö ár, í Finnlandi eftir þrjú ár eða hvernig þær verða, finnst mér að eigi ekki að nota sem röksemdir ef menn vilja ræða um málið á einhverjum haldbærum forsendum. En ef menn vilja spá í það hvað gerist eftir tvö eða þrjú ár á grundvelli skoðanakannana sem gerðar eru núna þá get ég ekki gert við því. En það er alls ekki nein lítilsvirðing á vilja almennings, enda verða allir stjórnmálamenn að sætta sig við hann og dóm kjósenda og það hefur hvað eftir annað komið í ljós, t.d. varðandi öryggis- og afvopnunarmálin, að friðarhreyfingarnar töpuðu hverjum kosningunum á fætur öðrum þótt skoðanakannanir sýndu kannski á einhverjum tíma að viðhorf þeirra nytu samúðar meðal almennings.