Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 22:42:00 (4974)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég heyrði því miður ekki alla ræðu hv. 14. þm. Reykv. en hún vék orðum að mér og ég skal reyna að svara því sem hún spurði um. Hvalveiðimál standa henni afar nærri hjarta eins og áður hefur komið fram í umræðum í þinginu. Hún spurði um afstöðu Íslendinga og þeirrar sendinefndar sem fara mun til umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Río de Janeiro í byrjun júní.
    Undanfarnar vikur hefur farið fram og stendur raunar enn undirbúningsfundur vegna þessarar ráðstefnu í New York. Þeim fundi er ekki lokið. Þar er verið að ræða lokatexta ýmissa skjala sem ætlunin er að leggja fram og væntanlega samþykkja á sjálfri ráðstefnunni í sumar. Eitt af því sem ég tel að samkomulag hafi náðst um er texti um hvalamál og ég á ekki von á því, ef svo heldur sem horfir, að það verði sérstakt ófriðarefni í kringum þá ráðstefnu. Ég hygg a.m.k. eins og mál standa nú og ég veit best þá hafi tekist um það bærilegt samkomulag og þó að hv. þm. kunni kannski að finnast það ótrúlegt þá er það raunar svo. Ég hef ekki þann texta í höndunum og ekki er búið að samþykkja endanlega niðurstöðu þessa fundar í New York. Það verður væntanlega gert nú í vikulokin þegar honum lýkur og ætla ég svo sem ekki á þessu stigi að segja fleira um það. Það eru auðvitað mörg álitamál og mörg málefni sem út af standa í sambandi við undirbúning þessarar ráðstefnu og margt er þar sem enn er ágreiningur um.
    Það var fróðlegt að heyra ferðasögu hv. þm. frá Prag þó ég hafi nú efasemdir um hvert erindi slíkt á inn í umræður um þessa skýrslu. Ég leyfi mér að draga mjög í efa það sem hún segir, að allt sé nánast rangt sem segir í skýrslu utanrrh. um ástandið í Tékkóslóvakíu. Svo vill til að ég hef þrisvar á stuttum tíma verið í Prag en ég ætla mér ekki þá dul að verða á þeim tíma sérfræðingur í málefnum þess lands. Til þess þarf meiri tíma en svo að unnt sé um það að dæma eins og gert var hér úr þessum ræðustól.