Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 00:30:00 (4982)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tel að úr því að hv. 3. þm. Reykv. situr við það að fara með þessa umræðu ofan í þetta barnalega far þá sé best að svara honum eins. Þó að það sé auðvitað ákaflega fávíslegt að fara að tíunda hér einhver dæmi.
    Ég tel að Alb. hafi haft rétt fyrir sér þegar það var í fararbroddi baráttunnar fyrir því að færa út landhelgi Íslendinga, sem að sjálfsögðu var utanríkismál. Og það kom í hlut sjútvrh. Alþb. að vinna tvo af þremur stórsigrum í því máli. Ég tel að það hafi verið alveg hárrétt stefna hjá Alþb. Og ég tel að það hafi verið rétt hjá Alþb. á tíð viðreisnarstjórnarinnar að berjast fyrir og koma á dagskrá umræðum um útfærslu íslensku landhelginnar, þrátt fyrir það að Sjálfstfl. væri við völd og svæfi værum svefni í þeim efnum í tólf ár og gerði ekki neitt í þeim efnum. Á þeim tíma tel ég að Alþb. hafi bersýnilega og augljóslega haft rétt fyrir sér en Sjálfstfl. rangt, að sinna ekki þeim brýnu hagsmunamálum Íslendinga. En að öðru leyti er þessi umræða að sjálfsögðu í raun og veru fyrir neðan það plan að maður leggi sig niður við það að vera að taka þátt í henni. Hv. þm. kemur hér upp og þykist geta talað eins og sá sem valdið hafi, söguskýringarnar og dómsvaldið sé allt í hans höndum, sé bara algjör alvaldur túlkandi, sjáandi, skýrandi og dómari þessara mála.
    Ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því fyrr en hér í kvöld að hv. 3. þm. Reykv. sé svona haldinn af sjálfum sér og sinni persónu að telji sig hafa frá guði fengið þessi völd. Þetta minnir mig á það sem maður hefur lesið í fræðibókum um hugsunarhátt hinna menntuðu einvalda sem töldu sig hafa fengið vald sitt frá guði, þegið vald sitt frá guði. Það er nú ekki svo, hv. þm. Reykv. Það er nefnilega þannig að skoðun hv. 3. þm. Reykv. er nákvæmlega ekki neitt merkilegri en annarra hv. þm. hér og ég held að það sé hollt fyrir hv. 3. þm. Reykv. að fara að átta sig á því ef hann ætlar að vera lengi á þessari samkomu. Því

það er alveg ljóst að hann verður ekki lengi umgenginn af virðingu hér ef hann ætlar að reyna að hegða sér með þessum hætti og tala með þessum hætti og flytja mál sitt með þessum hætti almennt hér hvað varðar umburðarlyndi og virðingu fyrir mismunandi skoðunum manna.
    Og ef það er svo að Alþb. hafi haft rangt fyrir þá hefur a.m.k. sá fimmtungur þjóðarinnar sem að meðaltali hefur fylgt því að málum líka haft rangt fyrir sér og það er þá ekki bara verið að dæma einhverja einstaka forustumenn Alþb. sem skýjaglópa, heldur líka alla þá sem hafa stutt það í gegnum tíðina og hafa verið þessi hluti þjóðarinnar. Og hefur sá hluti ekki átt rétt til sinnar skoðunar, hv. þm.? Er hv. þm. að tala fyrir öðru en því hér?