Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 01:02:00 (4984)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er óhætt að taka undir með hv. 3. þm. Vestf. um það hversu mikilvægt er fyrir okkur að leita allra leiða til þess að fá hagkvæmari viðskiptakjör á sjávarafurðir og þá áskorun hans til ríkisstjórnarinnar að standa þar vel á verði.
    En ég vildi nota þetta tækifæri og beina þeirri spurningu eða ábendingu til hv. þm. að hann fylgist þá með öðrum atriðum í fyrirvara ríkisstjórnarinnar, sem birtur var 10. jan., þ.e. um takmarkanir á innflutningi á þeim landbúnaðarvörum sem háðar eru magntakmörkunum í innlendri framleiðslu. Nú mun standa fyrir dyrum að leggja fram eða skila útreikningi á tillögum Dunkels fyrir íslenskan landbúnað. Norðmenn og Finnar og margar aðrar þjóðir hafa þegar skilað þessum útreikningum. Og Norðmenn og Finnar hafa látið fylgja þar þau skilyrði að magntakmörkunum verði haldið áfram hjá þeim. Ég tel það mjög mikilvægt og auðvitað bráðnauðsynlegt að það sama verði gert hjá íslensku ríkisstjórninni. Og ég vildi beina þeirri áskorun til hv. þm. að hann fylgist vel með þessu og e.t.v. kemur það þá fram hjá hæstv. utanrrh. síðar í umræðunni að það muni verða gert.