Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 01:06:00 (4986)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir undirtektir hans um að fylgjast með þessu atriði. Ég hef aðeins rétt nýlega fengið þessa skýrslu í hendur sem hann nefndi. Ég lagði áherslu á það að Þjóðhagsstofnun gerði slíka úttekt og ég tel það mikilvægt að fá hana í hendur. Og þar sýnist mér, þó að mér hafi ekki gefist tími til að lesa skýrsluna ítarlega, einmitt gengið út frá þessum forsendum. Mér sýnist að Þjóðhagsstofnun eða þessi nefnd hafi gefið sér forsendur sem eru nokkuð aðrar en lágu í augum uppi í tillögum Dunkels, en það hlýtur þá að vera litið svo á að það séu þær forsendur sem ríkisstjórnin hafi gengið út frá eða gefið upplýsingar um og verður þá að vænta að ríkisstjórnin muni standa fast á gagnvart bæði áframhaldandi samningsgerð og síðan við framkvæmd samningsins hér á landi. Mér sýnist af því sem ég hef séð af þessari skýrslu að hún beri þess vitni að þannig plagg muni þetta vera og því vil ég taka undir með hv. þm. að það er að sjálfsögðu mikilvægt að hafa svona plagg í höndum.