Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 02:20:00 (4989)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það skal vera stutt. Aðeins til að hafa það alveg og endanlega á hreinu, vegna þess að enn einu sinni voru borin inn í umræðuna orðaskipti sem fallið hafa vegna spurninga um það hvort að rétt hefði verið eða nauðsynlegt að breyta á undangengnum árum, því síðasta eða næstsíðasta jafnvel, íslenskum lögum til þess að setja fyrir fram, að því að mér skilst, einhverjar girðingar inn í íslenska löggjöf til að hindra að við semdum af okkur í samningum um Evrópskt efnahagssvæði og hættur sköpuðust á því að útlendingar eignuðust hér land í stórum stíl. Þetta er að verða heldur klisjukennt og þreytt en í fáum orðum sagt standa málin þannig málin, eða stóðu, að af minni hálfu var sú afstaða alveg skýr, kom margoft fram í ríkisstjórn og hér á þingi á meðan ég fór með embætti landbrh., að ég vildi að í samningaviðræðunum sjálfum yrði af Íslands hálfu settur fram skýr og afdráttarlaus, varanlegur fyrirvari varðandi þetta efni. Þar með væri það í eitt skipti fyrir öll leyst, ef við gengjum til þessara samninga, að þá væri í þeim varanlegur fyrirvari varðandi rétt útlendinga til fjárfestinga hér á landi á grundvelli almennra ákvæða samningsins.
    Ég hef aldrei skilið almennilega þessa hugmynd að með breytingum á íslenskum lögum girðum við fyrir þetta þar sem mér skilst nú að eitt viðamesta verkefnið við innleiðingu samningsins sé einmitt að gjörbreyta fjölmörgum íslenskum lagaákvæðum --- í kjölfar samningsniðurstöðunnar. Og þar með gæti það væntanlega farið svo að við hefðum þurft að breyta jarðalögum eins og öðrum lögum og afnema þar girðingar, ef einhverjar hefðu verið, sem brotið hefðu í bága við samningsniðurstöðuna --- ef hún hefði orðið slík að fjárfestingar útlendinga í landi hefðu orðið almenn regla í bandalaginu. Þess vegna held ég að þessi umræða sé í raun og veru öll hin kostulegasta. (Forseti hringir.) Og í ljósi þess sem síðar hefur orðið með þróun mála þá hefði nægur tími gefist hvort eð var til að gera slíkar breytingar. En afstaða mín til málsins var sem sagt þessi: Það var allan tímann mín krafa sem landbrh. að inn í samningana yrði settur varanlegur fyrirvari hvað okkur snertir í þessum efnum. Ég var þess vegna ekki sammála þeirri aðferð að það ætti að fara í að breyta íslenskum lögum til að fyrirbyggja þarna hættur og hélt að sjálfsögðu fram mínum málstað frá upphafi til enda í málinu. Og það skýrir það að ég sá ekki ástæðu til þess að fara að ómaka upptekna starfsmenn í landbrn. við að semja breytingar, sem hefðu þá líka verið einasta tilvikið af því tagi þar sem við Íslendingar hefum farið að breyta lögum fyrir fram með hugsanlega samningsniðurstöðu í huga. Og í ljósi allrar þeirrar óvissu sem sveif yfir vötnunum hef ég nú aldrei eiginlega almennilega fengið botn í þetta.