Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 03:11:00 (4995)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er orðið nokkuð liðið á nóttu og fer nú að verða úr manni allur vindur í þessari umræðu. Því kýs ég að fara hér í andsvar þó það mætti eflaust tala hér um ýmislegt af því sem kom fram í máli ráðherra. Það var eiginlega þrennt sem mig langar aðeins til að drepa á.
    Í fyrsta lagi sagði ráðherra að því hefði verið haldið fram hér í umræðunni að ákvörðun hefði verið tekin um aðild að Vestur-Evrópusambandinu án samráðs við utanrmn. Ég tel að þar sé átt við það sem ég gerði að umtalsefni að menn hefðu verið að kanna þessa aðild og m.a. sent fulltrúa erlendis til þess að kanna hvað fælist í aukaaðild án samráðs við utanrmn. Það gagnrýni ég. Ég tel að það hefði átt að upplýsa utanrmn. um stöðu mála og hvað utanrrn. væri að gera í þessu máli.
    Annað sem mig langar til þess að minnast á og það eru Íslenskir aðalverktakar. Ég spurði nefnilega að því í minni ræðu hvort utanrrh. hygðist flytja þinginu þá munnlegu skýrslu sem hann boðaði í janúar eða febrúar um þessi mál en af óviðráðanlegum ástæðum varð ekki af, hvort hún yrði flutt hér og hvort við fengjum um þetta umræðu eða hvort bólan væri bara sprungin.
    Í þriðja lagi langar mig aðeins til þess að nefna, af því að ráðherra kom hér inn á orð mín um hefðir baráttunnar eða hefðir umræðunnar í utanríkismálum, og mér finnst menn hafa lagt það svolítið út á þann veg að ég sé þá fyrst og fremst að gagnrýna t.d. herstöðvarandstæðinga eða þá sem hafa barist gegn bandarískum her hér á Íslandi. En það er ekki svo. Ég er í rauninni að gagnrýna á báða bóga, ég er að gagnrýna þessa ,,pólaríseringu`` sem verður í umræðunni miklu fyrr en ástæða er til. Ég vil og það er mín von að við getum hér farið í gegnum þessa umræðu yfirvegað og rökrætt, átt góðar rökræður um þessi mál, án þess að stefna málinu strax í ,,pólaríseringu`` og það gera þeir ekki síður sem í rauninni magna upp ótta við einangrun, rétt eins og þeir gerðu á sínum tíma sem mögnuðu upp ótta hjá þjóðinni við árás eða hertöku Sovétmanna á Íslandi.