Fjöldi leiguliða og fullvirðisréttur

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:31:00 (5001)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að mæla hér fyrir fsp. sem hv. 3. þm. Norðurl. v., sem þá sat á þingi varaþingmaður Alþb., Anna Kristín Gunnarsdóttir, hefur lagt fyrir hæstv. landbrh. Hún er nú farin til síns heima og aðalmaður hefur tekið sæti á nýjan leik og ég hef tekið að mér að mæla fyrir fsp.
    Fsp. varðar málefni leiguliða á bújörðum og stöðu þeirra í sambandi við uppkaup fullvirðisréttar á grundvelli nýs búvörusamnings. Spurt er vegna þess að mönnum er ljóst að það skiptir miklu máli til þess að þau markmið náist sem stefnt var að í sambandi við aðlögun fullvirðisréttar að framleiðsluaðstæðum fyrir búvörur í landinu að sá stóri hluti bænda, sem er í stöðu leiguliða á bújörðum, geti fyrir sitt leyti með eðlilegum og réttlátum hætti tekið þátt í þessari aðlögun eins og aðrir bændur. Það er auk þess sanngirnismál í sjálfu sér að þeirra staða sé ekki lakari en annarra bænda. Því er spurt:
  ,,1. Hve margir starfandi bændur eru leiguliðar og hve stórt hlutfall eru þeir af bændum landsins?
    2. Hve margir þeirra eru leiguliðar á ríkisjörðum og hve margir leigja af öðrum aðilum?
    3. Hve mikinn fullvirðisrétt hefur ríkið keypt af leiguliðum á ríkisjörðum og hve mikinn af öðrum leiguliðum?`` Þ.e. af þeim sem eru leigjendur eða ábúendur á jörðum í eigu annarra en ríkisins.
  ,,4. Hve hátt hlutfall er fullvirðisréttur sem keyptur hefur verið af leiguliðum af þeim fullvirðisrétti sem keyptur hefur verið í heild?``
    Þessi spurning er sérstaklega hugsuð til þess að draga það fram hvort þær reglur sem mótaðar hafa verið í þessu sambandi hafi gert það að verkum að þeir sem eru leigjendur og ábúendur á jörðum annarra hafi fyrir sitt leyti getað tekið þátt í þessari aðlögun til jafns við aðra bændur. Sé hlutfall þess fullvirðisréttar sem af þeim hefur verið keyptur sambærilegt eða a.m.k. ekki mikið frábrugðið því sem gildir um aðra, þá væri það vísbending um að mönnum hefði tekist í þessu sambandi að móta skynsamlegar reglur. Ef ekki þá hefði e.t.v. orðið misbrestur á. Væntanlega þarf ekki að taka fram eða útskýra að með leiguliðum er hér, eins og ráða má af samhenginu, átt við alla þá bændur í landinu sem ekki eru eigendur á sínum bújörðum.