Fjöldi leiguliða og fullvirðisréttur

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:34:00 (5002)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Spurt er: ,,Hve margir starfandi bændur eru leiguliðar og hve stórt hlutfall eru þeir af bændum landsins?`` Svar: Samkvæmt jarðaskrá voru 4.754 jarðir í ábúð á landinu. Þar af voru 844 tví- eða fleirbýlisjarðir. Leiguliðar voru alls 1.335 af 4.754 ábúðarjörðum eða á 28,08% jarðanna. Af 470 ábúðarjörðum eða 9,89% jarðanna eiga ábúendurnir hluta í ábúðarjörðum sínum. Þetta er samkvæmt jarðaskrá fardagaársins 1990--1991.
    Spurt er: ,,Hve margir þeirra eru leiguliðar á ríkisjörðum og hve margir leigja af öðrum aðilum?`` Svar: Af jörðum í ábúð eru 559 eða 11,75% í eigu ríkissjóðs og ríkisstofnana.
    Spurt er: ,,Hve mikinn fullvirðisrétt hefur ríkið keypt af leiguliðum á ríkisjörðum og hve mikinn af öðrum leiguliðum?`` Og: ,,Hve hátt hlutfall er fullvirðisréttur sem keyptur hefur verið af leiguliðum af þeim fullvirðisrétti sem keyptur hefur verið í heild?`` Það er óhjákvæmilegt að svara þessum tveim síðari spurningum samtímis.
    Ríkissjóður hefur ekki keypt neinn fullvirðisrétt af leiguliðum sínum. Við búskaparlok ábúenda á ríkisjörðum innleysir ríkið framkvæmdir sem þeir eiga á jörðinni samkvæmt mati. Þeim er hins vegar óheimilt í þessum tilvikum að selja fullvirðisrétt jarðarinnar. Ríkið hefur þó heimilað ábúendum á ríkisjörðum samkvæmt sérstökum reglum að innleysa fullvirðisrétt ríkisjarða til sauðfjárframleiðslu og fyrnast þær greiðslur á 10 árum. Ekki hefur farið fram nein úttekt á sölu fullvirðisréttar eftir aðilum enda eru enn nokkrir samningar frá sl. hausti ófrágengnir vegna ýmissa atriða en það mun verða gert í lok þessa verðlagsárs þegar síðari aðlögun samkvæmt búvörusamningi lýkur.