Fjöldi leiguliða og fullvirðisréttur

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:40:00 (5004)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Af ummælum hv. þm. mætti ráða tvennt: Í fyrsta lagi að hann væri ókunnugur í landbrn. og hitt að hann hafi ekki heyrt það sem hér var sagt áðan. Þriðja spurningin hljóðar svo: ,,Hve mikinn fullvirðisrétt hefur ríkið keypt af leiguliðum á ríkisjörðum og hve mikinn af öðrum leiguliðum?``
    Svar mitt áðan var skýrt og skorinort. Ríkissjóður hefur ekki keypt neinn fullvirðisrétt af leiguliðum sínum. Þetta er alveg skýrt og afdráttarlaust og ómögulegt að svara því skýrar.
    Um síðustu spurninguna er það að segja að ekki liggja fyrir tölvutækar upplýsingar um þau atriði sem þar er spurt um en á hinn bóginn hefur hv. þm. alla möguleika á því að leggja fram skriflega fsp. og það verður þá kannski hægt að prenta hér jarðaskrána í þinginu til þess að tiltaka hverja einustu jörð, hvernig fullvirðisrétti hafi verið háttað og sé háttað nú eins og sakir standa eftir fyrri aðlögun að búvörusamningi síðasta haust. Og síðan mætti kannski á næsta hausti líka, hæstv. forseti, prenta nýtt eintak af jarðaskránni og leggja fram á Alþingi til að sýna nákvæmlega hvernig þetta lítur út þegar síðari aðlögun lýkur. Þetta er auðvitað spurning um hversu langt menn vilja teygja sig til að svara spurningum þingmanna. Það svar sem ég hef hér gefið á að vera fullnægjandi nema einhverjar sérstakar ástæður búi að baki spurningum hv. þm. og þá er ráðuneytið að sjálfsögðu reiðubúið til þess að veita slíkar upplýsingar, en á hinn bóginn standa ekki efni til þess að setja ráðuneytið á annan endann til þess að svara nákvæmlega upplýsingum sem er mjög dýrt að svara, þegar breytingar eru nú fram undan og niðurstaðan liggur ekki fyrir fyrr en á hausti komanda.
    En, hæstv. forseti, ef þess er óskað með skriflegri fsp. að jarðaskráin verði prentuð þá geri ég ráð fyrir að ég geti náð samkomulagi við þingið um það hvernig staðið verði að undirbúningi slíkrar prentunar.